12.12.1980
Sameinað þing: 33. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1422 í B-deild Alþingistíðinda. (1392)

Umræður utan dagskrár

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það er eins og fyrri daginn, að lítið er um svör, þegar hæstv. forsrh. er spurður.

Ef ráða á þessa gátu held ég að sé hyggilegast að reyna að gera sér grein fyrir því, hvað hefur verið að gerast í stjórnarherbúðunum síðustu mánuði. Við, sem sitjum á hv. Alþingi, vitum að það hefur verið ágreiningur í hæstv. ríkisstj. um tvennt: Annars vegar efnahagsráðstafanir, sem staðið hefur til að gera frá því að stjórnin var mynduð, og hins vegar lánsfjárlögin. Framsfl. hefur gert það að skilyrði að efnahagsráðstafanir séu tilbúnar eða a.m.k. í burðarliðnum áður en lagafrv. til lánsfjárlaga fái að sjá dagsins ljós á hv. Alþingi. Nú hefur Framsfl. gefið grænt ljós í þessum málum og virðist því vera búinn að fá tryggingu fyrir því, að Alþb. hafi fallist á efnahagstillögurnar sem Framsfl. hefur flutt bæði nú og fyrr.

Forsaga þessa máls er sú, að snemma í sumar fluttu framsóknarþm. og ríkisstj.-menn Framsfl. tillögur í hæstv. ríkisstj. Þeim var ekki sinnt. Hæstv. sjútvrh. vogaði að nefna nokkur atriði í ræðu á Vopnafirði og hv. þm. Ólafur Ragnars: Grímsson, formaður þingflokks Alþbl., lokaði á honum kokinu með því að segja að blaðrið í Steingrími væri mesta efnahagsvandamálið. Nú leið nokkur stund og aftur voru framsóknarmenn á ferðinni og komu með nýjar tillögur. Þetta er öllum ljóst. Þessar tillögur fóru fyrir ríkisstj. Ekkert gekk. Hvorki gekk né rak. Hæstv. ráðh. Tómas Arnason leyfði sér á hv. Alþ. að hafa einhver orð um að til efnahagsráðstafana þyrfti að grípa. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, formaður þingflokks Alþb., kom í ræðustól og lokaði á honum kokinu líka með því að segja að Tómas væri mesti verðbólguvaldurinn á Íslandi. Það sést hver stýrir þessari hæstv. ríkisstj.

Nú eru allir frestir, sem Framsfl, hefur sett í málinu, liðnir, 1. des. og ASÍ-þing, og Framsfl. hefur setið undanfarið í svokallaðri „krataklípu,“ en það er nafn á þeirri klípu sem myndaðist hér á hv. Alþ. fyrir jól 1978. En Framsfl. hefur nú losað tökin. Og hvernig skyldi standa á því? Það stendur þannig á því, að það eru í burðarliðnum efnahagsráðstafanir, Þess vegna er eðlilegt þegar hv. 1. þm. Vestf. kemur hér í ræðustól og spyr hæstv. menntmrh. hverjar þessar efnahagsráðstafanir séu sem þeir hafi fallið frá og þess vegna opnað fyrir lánsfjárlögin. Ráðh. neitar að svara. Enginn hv. þm. Framsfl. þorir að taka þátt í þessum umr. Þeir sitja og þegja. En hér er á þingi maður sem ég veit að er hugrakkari en aðrir, og það er formaður þingflokks Framsfl., hv. þm. Páll Pétursson. Ég skora á hann að koma hér í ræðustól og sýna þann manndóm, einn allra framsóknarmanna á þingi í dag, því ég veit að enginn þeirra þorir að tala um ríkisfjármálin hér á eftir, og segja okkur hvernig stóð á því, að Framsfl. hleypti lánsfjárlögunum í gegn núna. Hvaða tryggingu fengu þeir? Það væri vissulega góð jólagjöf til okkar þm. ef hv. þm. Páll Pétursson þyrði að láta sjá sig í ræðustólnum og segja okkur hvernig á þessum málum stendur. — En ég veit að áður en hann kemur í ræðustólinn mun hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson að sjálfsögðu koma hér í stólinn og svara eins og hann er vanur.