12.12.1980
Sameinað þing: 33. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1423 í B-deild Alþingistíðinda. (1393)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er greinilegt að næsta góðverkið gagnvart þinginu væri að beita sumum þeim aðferðum gagnvart hv. þm. Friðrik Sophussyni sem hann nefndi. Ég vil benda honum og öðrum þm. á að hve oft sem texti yfirlýsingar forsrh. í útvarpinu er lesinn og texti viðskrh., sem hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson var að lesa áðan, er í þessum textum hvergi vikið að brbl., heldur einfaldlega sagt í þeim báðum að Alþingi hljóti að fjalla um þessar tillögur. Það segir sig sjálft. Það hefur ekkert annað verið sagt, hvorki af hæstv. viðskrh. né hæstv. forsrh. Þess vegna er þetta upphlaup, eins og annað, gjörsamlega marklaust. Það hefur ekkert komið fram hjá hæstv. ráðh. né öðrum sem gefi tilefni til þessara yfirlýsinga. Það er ljóst. Það eru lok þessarar umr., jafnskýr og greinileg og voru lok umr. fyrir Alþýðusambandsþingið hér á sínum tíma.

Annars ætlaði ég aðallega að kveðja mér hér hljóðs til að tala við hv. þm. Vilmund Gylfason sem heldur áfram að vera sérstakur þm. sparifjáreigenda í landinu og hefur þó enginn maður gert sparifjáreigendum eins mikinn grikk með efnahagsstefnu sinni né láglaunafólki í landinu með hávaxtastefnu sinni og þessi hv. þm., — stefnu sem hann knúði Alþfl. til að beita á sínum tíma, enda hefur Alþfl. nú hafnað leiðsögn þessa hv. þm. og valið í staðinn þann þm. Alþfl. sem tregastur var til að ganga braut þessarar vitlausu hávaxtastefnu.

Staðreyndin er nefnilega sú, að sparifjáreigendur í landinu hafa sjálfir í verki hafnað vaxtastefnu Alþfl. Ef lítið er á innlánstölur bankakerfisins á þessu ári kemur greinilega í ljós að sparifjáreigendur hafa í verki hafnað þeirri vaxtakenningu sem Alþfl. hefur haldið fram. Það kemur í ljós, að mesta innlánaaukning í bankakerfinu er í því innlánsformi sem ber lægstu vextina. Sparifjáreigendur hafa sjálfir í verki hafnað því margbrotna hávaxta- og vaxtaaukakerfi, raunvaxtakerfi, sem Alþfl. hefur barist hér fyrir. Það er staðreynd sem hv. þm., sjálfskipaður fulltrúi sparifjáreigenda í landinu, verður að horfast í augu við, að tölur bankakerfisins sýna að sparifjáreigendur á Íslandi hafa í verki hafnað stefnu hans. Sú vaxta- og efnahagsstefna, sem Alþb. hefur haldið fram og hélt fram á sínum tíma og heldur fram enn, er meira að skapi íslenskra sparifjáreigenda en sú hringavitleysa hávaxta og efnahagslegrar nauðhyggju sem hv. þm. hélt fram á sínum tíma, splundraði vinstri stjórninni út af og er á góðri leið með að splundra Alþfl. út af.