13.12.1980
Sameinað þing: 34. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1425 í B-deild Alþingistíðinda. (1396)

1. mál, fjárlög 1981

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég óskaði eftir þessu nafnakalli til að gera grein fyrir því, að ég er andvígur þeirri uppbyggingu sem lögð er til grundvallar skiptingu á framlögum til sjúkrahúsa, en þar ákveða aðilar úti í bæ fyrir fram, hvaða áfangar skulu teknir til framkvæmda í sjúkrahúsabyggingum, og stilla Alþingi þannig upp við vegg að fjvn, og Alþingi eiga að rétta upp hendurnar eftir ákvörðunum sem teknar eru af stofnunum úti í bæ. Þær eiga ekki að ráða hér ferðinni. Ég tel það lítillækkandi fyrir fjvn. og Alþingi að láta slík vinnubrögð viðgangast ár eftir ár. Ég tek jafnframt fram, að ég er ekki á móti fjárveitingum til nokkurra mannvirkja sem þarna eiga sér stað, en þetta grundvallarsjónarmið er rangt og þess vegna er skiptingin í sjálfu sér óeðlileg og því greiði ég ekki atkv.