15.12.1980
Efri deild: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1431 í B-deild Alþingistíðinda. (1416)

156. mál, tímabundið vörugjald

Frsm. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Eins og kom fram hjá frsm. meiri hl. varð ekki samkomulag um afstöðu til þessa máls í fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar. Við Eyjólfur Konráð Jónsson höfum skilað séráliti á þskj. 239. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Þetta frv. felur m.a. í sér framlengingu hækkunar á þessu gjaldi um 6%, sem lögð var á með brbl. af ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar haustið 1979. Þessi hækkun leggur 10–11 milljarða kr. skattaálögur á almenning á næsta ári, og er það hluti af 60 milljarða aukaskatti til ríkisins á þjóðina á næsta ári, miðað við verðlag fjárlagafrv., sem vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar og núv. ríkisstj. eru ábyrgar fyrir.“ Og síðan segir: „Við leggjum til að frv. verði fellt.“

Það hefur komið til nokkurra orðaskipta, m.a. í þessari hv. deild, út af forsögu þessa skatts. Hefur þar komið fram að þetta gjald var fyrst lagt á í ríkisstjórnartíð Geirs Hallgrímssonar. Á þeim tíma hafði tekist að lækka gjaldið og það var yfirlýst stefna þeirrar ríkisstj. að lækka gjaldið og afnema það. En eins og hér segir í nál. tók ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar annan pól í hæðina og hækkaði gjaldið verulega með brbl. haustið 1978, á þetta nú að vera. Bið ég hv. þm. að leiðrétta þessa prentvillu þarna.

Ég held að óþarfi sé að fjölyrða um þetta. Hér er um að ræða hluta af því mikla skattahækkunarflóði, sem dunið hefur yfir frá þessum tíma og nákvæm grein hefur verið gerð fyrir í umr. um fjárlög hver er orðin. Ég endurtek að við leggjum til að frv. verði fellt.