15.12.1980
Efri deild: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1435 í B-deild Alþingistíðinda. (1422)

34. mál, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Aðeins til að ítreka það, sem komið hefur fram hjá mér áður í þessari hv. deild og kemur einnig fram í nál., að lífeyrissjóðsmálin almennt eru í slíkum ólestri, að það má ekki dragast öllu lengur að úr verði bætt, að uppstokkun eigi sér stað á því kerfi sem nú er, því að hér er á ferðinni eitthvert versta misrétti í landinu.

Í annan stað vil ég benda á og geri það í þessu nál., að það frv., sem hér er til afgreiðslu, framlengir ákvæðin sem áður giltu, þess efnis, að upphæð ellilífeyris er hundraðshluti af launum þeim er á hverjum tíma fylgja starfi því sem sjóðfélaginn gegndi síðast. Þetta er áreiðanlega í sumum tilvikum óréttlátt fyrirkomulag, í öðrum tilvikum getur komið til að kerfið verði í raun og sannleika misnotað, og í þriðja lagi leiðir þetta til frekari stöðnunar í opinberri starfsemi en nauðsynlegt væri. Þetta er augljóst vegna þess að í fyrsta lagi kann það að henta ýmsum að draga úr störfum sínum þegar líður á starfstímann. Mönnum er eiginlega meinað það með þeirri aðferð sem hér viðgengst. Sá, sem lætur það eftir sér að draga úr störfum sínum þegar hann eldist, er um leið að skerða lífeyrisréttindi sín. Þess eru dæmi, að menn hafa dregið þannig úr störfum sínum og skert lífeyrisrétt sinn um leið. Þetta er náttúrlega hörmulegt fyrirkomulag.

Í annan stað býður þetta kerfi upp á misnotkun af því tagi, að menn séu í tiltölulega litlu starfi, kannske hluta úr starfi, hálfu starfi, þriðjungi úr starfi, allt fram til síðustu mánaða starfstímans. Þá sprengi menn sig upp í það að vera í fullu starfi og fái þá full lífeyrisréttindi, greiðslur eins og um fullt starf sé að ræða, af því að þannig störfuðu þeir síðast. Þetta tel ég misnotkun á kerfinu.

Í þessari sömu grein er talað um að lífeyrisréttur skuli aukast um 2% fyrir hvert starfsár. Það er engin skilgreining í lögunum á því, hvað starfsár þýðir eða hvernig með það skuli fara. Það er eiginlega sams konar brotalöm í þessu ákvæði eins og því sem ég gat um áðan. Nú er það áreiðanlega til bóta í hinu opinbera kerfi að menn skipti um störf. Þá getur það átt við, þegar menn fara að reskjast, að menn séu að ýmsu leyti sáttir við það að fara í lægra launuð störf. En eins og lögin eru núna er mönnum refsað fyrir það. Þá skerðist lífeyrisréttur manna við það, að þeir fara í störf sem þeir eru að ýmsu leyti tilbúnir að fara í af því að þeir vilja létta af sér, og það gæti þýtt að meiri hreyfanleiki væri á mönnum í störfum. Ákvæði laganna, eins og þau eru, vinna þannig gegn því að menn hreyfi sig til í störfum, og þeir, sem hafa komist ofarlega í launastiga, verða að hanga þar, hvað sem það kostar, til þess að halda lífeyrisrétti sínum.

Ég geri þetta að umtalsefni vegna þess að ég held að þetta ákvæði, eins og það er, sé óhollt og það verði að finna betri skipan í þessum efnum sem komi ekki í veg fyrir að hreyfanleiki sé hjá fólki í opinberum störfum og þar sem viðurkennt sé að menn geti notið lífeyrisgreiðslna úr lífeyrissjóði miðað við það starf sem þeir hafa gegnt þegar best lét hjá þeim, en ekki endilega miðað við síðasta starfsárið.