27.10.1980
Efri deild: 6. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í B-deild Alþingistíðinda. (143)

33. mál, málefni Flugleiða hf.

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Harra forseti. Ég tel ákaflega mikilvægt að mál það, sem hér er til umr. komist sem allra fyrst til nefndar þannig að hægt sé að hraða afgreiðslu þess, og vil því ekki fjalla efnislega um aths. og ábendingar hv. þm. sem fram komu hér áðan. Ég held að nokkuð ljóst sé, að við fáum síðar tækifæri til þess að ræða ýmsar hliðar þessa máls og þó einkum og sér í lagi eftir að frv. kemur úr nefnd. En vegna þeirra fsp., sem hann hefur lagt fram, tel ég rétt að svör við þeim verði strax gefin.

Þar er þá fyrst til að taka, að hann spyr hvernig á því standi, að í yfirlýsingu ríkisstj. frá 16. sept. s.l. hafi verið talað um að veita félaginu bakábyrgð allt að 3 millj. dollara til þriggja ára, en nú sé flutt frv. sem feli í sér að þessi liðveisla sé einungis veitt til eins árs. Svarið er mjög einfalt. Gert hefur verið ráð fyrir því, að þessi Atlantshafsflugrekstur sé byggður á liðsinni og aðstoð íslensku ríkisstj. og ríkisstj. í Lúxemborg, og þar sem ríkisstj. í Lúxemborg hefur ekki verið reiðubúin til þess að lofa slíkri aðstoð lengur en til eins árs, þá þykir að sinni ekki rétt að taka ákvörðun nema um þetta eina ár í þessu frv.

Í öðru lagi spyr hv. þm. hvort ég telji að nægilegt sé að þessi aðstoð verði veitt í eitt ár, en ekki þrjú. Því er til að svara, að mér er ógerningur að vita neitt um hvernig til tekst og hvort þessi flugrekstur yfirleitt heldur á.fram eftir þetta eina át eða ekki. Ætli menn líti ekki á þetta eina ár sem ár tilraunar, sem eigi að leiða í ljós hvort nokkur glæta sé í að halda þessu áhættuflugi áfram eða ekki? Ég tel að margt bendi til þess, að þetta eina ár nægi ekki, en vegna þess að ríkisstj. Lúxemborgar hefur tekið þá afstöðu sem ég gerði grein fyrir rétt í þessu, þykir ekki eðlilegt að taka afstöðu á þessu stigi í lagaformi til síðari áranna.

Þriðja spurning þm. var hvort það samræmdist íslenskum hagsmunum, að Íslendingar veittu Flugleiðum minni aðstoð en ríkisstj. Lúxemborgar hefur heitið félaginu. Ég held að það sé ákaflega mikill misskilningur, að aðstoð sú, sem ríkisstj. Lúxemborgar hyggst veita, sé á einn eða annan hátt meiri en sú sem íslenska ríkið og íslenskir skattgreiðendur þurfa hugsanlega að taka á sig. Það er ljóst, að fyrir utan þessa bakábyrgð, sem er mjög hliðstæð hjá báðum aðilum, þarf íslenska ríkið að taka á sig ábyrgðarheimildir vegna rekstrarins sem numið geta, ef veð reynast fyrir hendi, allt að 6 milljörðum íslenskra kr. Þessi upphæð kemur til viðbótar ábyrgðarheimild upp á 3 milljarða sem veitt var í vor. Þessu til viðbótar samþykkir ríkisstj. að leggja til við Alþ. að felld verði niður stimpilgjöld og veittur greiðslufrestur á sköttum, þannig að það getur ekki dulist neinum, að þarna er mikill munur á. (Gripið fram í: Það er bara til þess að flýta fyrir. Verðum við ekki að gera greinarmun á beinum fjárútvegunum, sem Íslendingar leggja fram, og ríkisábyrgðum?) Vissulega er munur þar á, en samt sem áður segir það sig sjálft, að áhættan, sem tekin er þegar veitt er ríkisábyrgð á háum fjárhæðum, ræður bókstaflega talað úrslitum um það, hvort þetta félag getur starfað áfram eða ekki, og ríkisstj. Lúxemborgar hefur ekki tekið á sig neina skuldbindingu af því tagi, ekki fyrr og ætlar sér ekki að gera það síðar. g ítreka það sem ég sagði, að íslenska ríkisstj. er að leggja til að felld verði niður stimpilgjöld og veittur greiðslufrestur á skuldum sem aðrir aðilar verða að borga möglunarlaust á gjalddaga. Ég held því, að þetta sé á misskilningi byggt og það fari ekkert á milli mála að íslenska ríkið tekur á sig miklu, miklu stærri skuldbindingar en ríkisstj. Lúxemborgar, ef þetta frv. verður að lögum og þeim heimildum verður beitt, sem í því felast.

Fjórða spurning þm. snerist um það, hvort áformað væri að auka hlutafé ríkisins í félaginu í 20%. Þessari spurningu er einungis hægt að svara játandi. Það er áform ríkisstj. og vilji, að hlutafé ríkisins aukist upp í þessa hlutfallstölu. En auðvitað verða að fara fram viðræður við þá aðila, sem hér eiga hlut að máli, og þetta getur að sjálfsögðu ráðist nokkuð af því, hversu mikið fé starfsmenn leggja fram sem hluti í félaginu. Ég vil alls ekki útiloka að það geti orðið eitthvert samband þar á milli. Ef starfsmennirnir verða mjög drjúgir að leggja fram aukið hlutafé í félaginu, þá má vera að það verði einhverjum erfiðleikum bundið að koma þessum áformum fram öllum, og það verður auðvitað að vera matsatriði þegar þar að kemur.