15.12.1980
Neðri deild: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1440 í B-deild Alþingistíðinda. (1447)

27. mál, almannatryggingar

Frsm. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr., gengur í aðalatriðum út á tvennt: Annars vegar eru rýmkuð þau skilyrði sem Tryggingastofnun ríkisins eru sett um greiðslu barnsmeðlaga til ógiftra mæðra. Lagt er til að nægilegt sé að barnsfaðernismál sé hafið til þess að greiðslur meðlaga byrji. Nú þarf meðlagsúrskurður að liggja fyrir og veldur þetta viðkomandi mæðrum í mörgum tilfellum miklum erfiðleikum. Leiðrétting á þessu er því mikil réttarbót þegar þannig stendur á.

Hins vegar er fjölgað greiðslu- og uppgjörsdögum Innheimtustofnunar sveitarfélaga við Tryggingastofnun ríkisins, en nú dragast greiðslur og uppgjör mjög úr hófi. Bindur þetta mikið fé fyrir Tryggingastofnun ríkisins, líklega nálægt 4 milljörðum um þessar mundir. Þetta er því mikið þarfamál líka.

Heilbr.- og trn. Nd. hefur fjallað um frv. og leggur til að það verði samþykkt eins og hv. Ed. afgreiddi það á þskj. 164.

Matthías Bjarnason, Guðmundur G. Þórarinsson og Pálmi Jónsson voru ekki viðstaddir afgreiðslu málsins.