15.12.1980
Neðri deild: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1446 í B-deild Alþingistíðinda. (1453)

153. mál, samningur um gagnkvæma aðstoð í tollamálum

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd samning milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um gagnkvæma aðstoð í tollamálum. Ég mæli fyrir frv. fyrir hönd hæstv. utanrrh. sem er fjarstaddur. Þetta frv. kemur frá Ed. Þar var um það fjallað og það afgreitt samhljóða og enginn ágreiningur um málið, þannig að það liggur, að ég ætla, fyrir, að svo sé ekki í þinginu almennt.

Frv. fjallar um það í fyrsta lagi samkv. 1. gr. þess, að ríkisstj. er heimilt að fullgilda fyrir Íslands hönd samning milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um gagnkvæma aðstoð í tollamálum. Samningurinn er prentaður sem fskj. með frv. þessu.

2. gr. frv. fjallar um það, að þegar samningurinn hefur öðlast gildi að því er Ísland varðar skuli ákvæði hans hafa lagagildi hér á landi.

3. gr. fjallar um að fjmrh. setji nánari reglur um framkvæmd þessara laga og 4. og seinasta gr. um að lögin öðlist þegar gildi.

Ég leyfi mér að vísa til aths. við lagafrv. og jafnframt beina þeim tilmælum til hv. fjh.- og viðskn., sem frv. verður eflaust vísað til, að hún hraði afgreiðslu þess eins og kostur er svo að þessi fullgilding geti farið fram fyrir áramót.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til fjh.- og viðskn.