15.12.1980
Neðri deild: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1447 í B-deild Alþingistíðinda. (1457)

173. mál, tollskrá

Flm. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Á þskj. 218 leyfi ég mér að flytja frv. til l. um breyt. á lögum nr. 120/1976, um tollskrá o.fl., með síðari breytingum, ásamt hv. þm. Friðrik Sophussyni, Matthíasi Á. Mathiesen, Árna Gunnarssyni, Sverri Hermannssyni og Birgi Ísl. Gunnarssyni. Ég vil leyfa mér að lesa grg., með leyfi forseta, en hún hljóðar svo:

„Ákvæði um bankastimplun sem skilyrði þess, að unnt væri að fá vöru tollafgreidda, var nýmæli sem tekið var upp í tollskrárlögin 1976. Á það var bent, að með þessu ákvæði væri tekin upp óeðlileg hagsmunagæsla fyrir erlenda aðila, sem ætti sér fá eða jafnvel engin fordæmi erlendis svo að vitað væri. Nú hafa þær aðstæður komið upp með verkfalli bankastarfsmanna, sem engan hefur órað fyrir við lögfestingu framangreinds ákvæðis, að ekki er unnt að tollafgreiða vörur, enda þótt hægt sé að sanna heimild seljanda vörunnar fyrir afhendingu í hendur kaupanda, án þess að greiðsla í banka hafi farið fram.“

Ég tel ekki ástæðu til að lesa frekar upp úr grg. Það, sem eftir er, á við þær aðstæður sem sköpuðust við bankamannaverkfallið sem nú er lokið.

Ég held að öllum sé ljóst að bankastimplun sem slík gegnir ekki annarri þjónustu, eins og kemur fram hér í þessari grg., en að gæta hagsmuna erlendra aðila, eigenda viðkomandi vöru, og þar með gera að engu þá möguleika sem almennt eru viðurkenndir um samskipti manna á milli, hvort sem það eru innlendir aðilar og erlendir annars vegar eða innlendir aðilar, sem hafa sams konar samskipti sín á milli. Ég álít að það sé hagsmunamál fyrir þjóðfélagið, að slík hagsmunagæsla fyrir erlenda aðila verði felld niður. Byggi ég það á því, að greiðslufrestur á erlendum vörum, innfluttum vörum, er svo til útilokaður þar sem innlendum aðilum er gert að skyldu að greiða að fullu andvirði vöru til erlendra aðila án þess að nauðsyn beri til. Innlendir aðilar þurfa í flestum tilfellum vegna rekstrarfjárskorts að greiða vöruna fyrir fram án þess að nauðsyn beri til, sem aftur á móti þýðir aukið álag á útlánagetu bankanna sem er takmörkuð fyrir. Ef þessi stimplun er afnumin geta innflytjendur tollafgreitt vöruna án þess að greiða hana í banka fyrr en varan er kannske seld og þannig skapast fjármagn til þess að greiða hana.

Aftur á móti er ekki hægt að afhenda vöruna fyrr en viðkomandi aðili hefur öðlast bankastimplun á vörureikninga, sem þýðir þá um leið að ríkistekjur af innfluttum vörum, þ.e. tollarnir, greiðast fyrr. Þó í ég að það sé viðkomandi aðilum í hag, bæði innheimtunnar vegna og ríkissjóðs vegna og eins innflytjendanna vegna, að þessi stimplun sé afnumin.

Ég legg til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. og það hljóti þar eins skjóta afgreiðslu og mögulegt er.