27.10.1980
Efri deild: 6. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

33. mál, málefni Flugleiða hf.

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Mig langar að byrja á því að beina þeim orðum til hv. 11. þm. Reykv., að það er að verða útspiluð plata hjá hv. þm. Alþb. að reyna að beina athyglinni frá eigin vandamálum með því að vera að tafsa á einhverjum nafngiftum á Sjálfstfl. Slíkur málflutningur er ósmekklegur og ekki til að auka virðingu almennings á störfum Alþingis eða hv. 11. þm. Reykv. Mér virðist hins vegar að hv. þm. hafi takmarkaðan áhuga á slíku, því miður fyrir hann. — Ég ætla mér ekki heldur þá dult að fara í kappræður við hv. þm. um hvað hver hafi sagt í málum Flugleiða á fyrri þingum, enda var ég ekki þátttakandi í þeim af eðlilegum ástæðum. Það, sem mér er í huga, eru frekar hugleiðingar leikmanns sem allt í einu er orðinn einn af þeim ábyrgu sextíumenningum á hv. Alþingi sem ýmsum þykja stundum ekki sýna þá ábyrgð sem þeim beri í störfum eða framkomu, en er oftar en ekki ómakleg ásökun.

Það hafa farið fram miklar umr. um vandamál Flugleiða hér á hv. Alþ., bæði í Sþ., þegar skýrsla hæstv. samgrh. var rædd, og hér í hv. Ed., þegar frv. til l. um málefni Flugleiða hf. var lagt fram s.l. mánudag. Sú umr. var þá styttri en gert var ráð fyrir. Það komu til umr. utan dagskrár um barnaskattana frægu og var þingfundi slitið rétt fyrir kl. fjögur áður en þingflokksfundir áttu að hefjast. Ekkert var því til fyrirstöðu af hálfu þm. að halda kvöldfund um málið, en af einhverjum ástæðum var slíkt ekki gert. Það er því orðinn skammur tími til stefnu ef þetta frv. á að fá afgreiðslu fyrir mánaðamót, sem mér hefur skilist að sé nauðsynlegt. (Gripið fram í: Hver hefur sagt það?) Ja, það hefur komið fram.

Ég vil fyrir mitt leyti lýsa stuðningi mínum við frv. í aðalatriðum, en geri þó vissan fyrirvara við einstakar greinar þess. Ég er sammála því, að þegar svo illa er komið sem raun ber vitni í fjárhagsstöðu Flugleiða hf. verður ekki hjá því komist að ríkið komi til aðstoðar og að sú aðstoð verði tímabundin. Það verður að beina henni inn á þær brautir að félaginu verði gert kleift að rétta sig við og koma sér úr tímabundnum vanda. Sú hjálp á að vera hjálp til sjálfsbjargar. Má þar nefna atriði eins og að breyta skammtímaskuldum félagsins í föst lán. Það kemur reyndar fram í fskj. 1 með frv., sem er bréf Sigurðar Helgasonar til samgrh., að þessi 12 millj. dollara rekstrarfjárþörf veturinn 1980–1981 sé miðuð við að tvær Boeing-vélar félagsins, 727–100 verði seldar, en takist það ekki eykst fjárþörfin.

Ekki virðist óeðlilegt að Flugleiðir losi fjármuni með því að selja eitthvað af öðrum eignum sínum, a.m.k. þeim sem ekki eru bundnar rekstrarafkomu félagsins, en eru hugsanlega fjárhagstegur baggi við núverandi aðstæður. Slíkt verða menn að gera ef fjárhagur þrengist, — ég tala nú ekki um ef of mikið hefur verið fjárfest á uppgangstímum.

Það fór fyrir mér eins og hv. 3. þm. Vestf., að 4. gr. frv. stendur svolítið í mér, þetta með niðurfellingu lendingargjaldanna. Einnig finnst mér orka tvímælis að hafa lendingargjöld yfirleitt há vegna millilandaflugs. Mér skilst að þau séu með þeim hæstu sem gerast í Evrópu. Er ekki hugsanlegt að það væri meiri hagur í því fyrir okkur Íslendinga að hafa lendingargjöldin hófleg og auka þannig viðskipti við flugvélar sem mundu þá sjá sér hag í að lenda þannig á leið sinni yfir Atlantshafið?

Það er reyndar fleira en lendingargjaldið, sem mætti nefna í þessu sambandi, og á ég þá við t.d. flugvallarskattinn, sem mikil óánægja er með og er með afbrigðum óvinsæll. Það hefur komið fram í blöðum, að starfsfólk sem lendir í að innheimta þennan skatt af erlendum ferðamönnum, hefur orðið fyrir miklum óþægindum af þeim sökum. Þetta fólk er látið líða fyrir að geta ekki svarað fyrir svo óvinsælar aðgerðir sem ákvarðaðar eru af stjórnvöldum.

Enginn dregur í efa þýðingu þess að haldið sé uppi góðum flugsamgöngum milli Íslands og annarra landa. Þær auka hagsæld og velsæld, eins og Arngrímur Sigurðsson sagði réttilega í tímaritinu Flugmálum s.l. vetur. Við skulum ekki heldur gleyma því, að þær eru þýðingarmiklar fyrir blómlegt menningarlíf.

Það er dapurleg staðreynd, að eitt af óskabörnum þjóðarinnar skuli nú vera svo illa á vegi statt sem raun ber vitni. Það voru miklir bjartsýnismenn og ofurhugar sem stofnuðu flugfélögin hér á sínum tíma. Eftir að stjórnvöld knúðu félögin til að sameinast virtist síga á ógæfuhliðina, þó að þar komi að sjálfsögðu fleira til, utanaðkomandi atvik, eins og orkukreppa og harðnandi samkeppni með undirboði annarra aðila á flugmarkaðinum.

Ég minnist þess frá unglingsárum að uppgangur flugmála var eins og ævintýri. Það var flugævintýrið. Öll höfum við haft og höfum jafnvel enn ánægju af ævintýrum. Þau byrja flest á orðunum: „Einu sinni var“ — og enda sum á: „Köttur úti í mýri setti upp á sér stýri. Úti er ævintýri.“ — En þetta þýðir þó ekki að ævintýrunum þurfi endilega að vera lokið fyrir fullt og allt. Það er alltaf hægt að endurtaka söguna.

Ég minnist þess einnig frá unglingsárum í Kvennaskólanum í Reykjavík á stríðsárunum, að Ragnheiður Jónsdóttir skólastjóri talaði um að jafnvel innan áratugs yrði hraðinn orðinn svo mikill í flugtækninni að við Íslendingar gætum snætt morgunverð hér heima, hádegisverð í Lundúnum og kvöldverð í Róm. Þetta þótti okkur þá furðuleg og óraunveruleg tilhugsun, en hún var sannspá sú framsýna kona.

Ég efast um að fyrir svo sem áratug hafi menn séð fram á þá þróun sem hér hefur orðið í fjármálum Flugleiða. Þó vil ég minna á að þetta er ekki í fyrsta sinn, eins og reyndar hefur komið fram, sem flugfélögin hafa lent í erfiðleikum, en hafa sigrast á þeim með dugnaði og hagsýni.

Herra forseti. Ég er e.t.v. orðin nokkuð langorð í þessum hugleiðingum mínum um málefni Flugleiða og skal ljúka máli mínu með þeim orðum, að við megum ekki láta hugsjón frumherjanna í flugmálum okkar Íslendinga bíða ósigur. Við verðum að stuðla að því, að sagan geti endurtekið sig og að uppgangur flugmála megi verða sem mestur og hann geti áfram byggst á stórhug einstaklinganna sem í upphafi lyftu Grettistaki.