15.12.1980
Neðri deild: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1449 í B-deild Alþingistíðinda. (1460)

103. mál, orlof

Flm. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Á þskj. 114 hef ég ásamt hv. þm. Páli Péturssyni, Pétri Sigurðssyni og Árna Gunnarssyni leyft mér að flytja frv. til l. um breytingu á orlofslöggjöfinni. Hér er um að ræða breytingu á 11. gr. téðra laga og er breytingin sú að gera samningsaðilum vinnumarkaðarins, þ.e. verkalýðshreyfingunni og atvinnurekendum, kleift að semja um það fyrirkomulag á orlofsgreiðslum sem þessir aðilar telja sér henta.

Ég hef áður í framsögu fyrir frv. sem þessu gert grein fyrir meginástæðunum sem eru forsendur að þessari breytingu. Það er í fyrsta lagi, að við teljum óeðlilegt að löggjafinn standi í vegi fyrir því, að verkalýðshreyfingin geti samið um það við sinn viðsemjanda, að orlofsfé launþega sé greitt með þeim hagkvæmasta hætti sem er hverju sinni. Það er augljóst mál, að það er óeðlilegt af hálfu löggjafans að standa í vegi fyrir slíku. Í öðru lagi er hér gert ráð fyrir þeirri breytingu, að verkalýðsfélögin geti, telji þau sér það henta, samið á þann veg, að orlofsfé sé geymt og ávaxtað á þeim stað þar sem það er greitt inn, en ekki eins og nú er, að allt sé flutt suður til Reykjavíkur í póstgíró hjá Pósti og síma eða Seðlabanka og ávaxtað þar. Það er óeðlilegt, þegar um er að ræða svo gífurlega mikla fjármuni eins og hér um ræðir, að ekki sé reynt að halda þannig á málum að fjármagnið sé ávaxtað þar sem það fellur til.

Þetta eru þær meginbreytingar sem lagt er til að gerðar verði. Ég ítreka það, að það er óeðlilegt í hæsta máta að ríkisvaldið standi gegn slíkri breytingu og slíkri þróun.

Ég sé ekki ástæðu til þess nú að hafa frekari framsögu um þetta mál, en ég vil aðeins benda hv. þm. á fskj. sem prentað er með frv. og sýnir hversu miklar fjárhæðir er hér um að ræða. Á orlofsárinu 1979–1980 eru t.d. í Norðurlandskjördæmi eystra greiddar rúmar 900 millj. í orlofsfé. Það gefur auðvitað auga leið, að slíkar fjárupphæðir kæmu að betra gagni þeim sem þær eiga ef þær væru ávaxtaðar á þeim stöðum þar sem þær falla til. Á sama hátt kemur hér fram að t.d. í Vestfjarðakjördæmi eru tæplega 700 millj. kr. greiddar í orlofsfé á því orlofsári. Og svona mætti áfram telja.

Hér er því að mati okkar flm. um svo sjálfsagt réttlætismál að ræða, að það er með ólíkindum ef Alþingi ætlar að standa í vegi fyrir því, að slíkar breytingar séu gerðar á löggjöfinni um orlof. Og hvað sem líður andófi sumra gegn þessum breytingum — meira að segja sumra úr forustusveit verkalýðshreyfingarinnar og þá fyrst og fremst, að mér hefur virst, Alþb. — þá trúi ég því ekki fyrr en á verður tekið, að áframhald verði á því andófi sem þessir aðilar hafa sýnt í þessu máli hér á Alþingi. Ég treysti því, að Alþingi láti þetta mál nú frá sér fara í því formi sem frv. gerir ráð fyrir og enn einu sinni verði það ekki saltað.

Ég legg svo til; herra forseti, að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til 2. umr. og félmn. væntanlega.