15.12.1980
Neðri deild: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1450 í B-deild Alþingistíðinda. (1462)

103. mál, orlof

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram er það í þriðja skipti á stuttum tíma sem þetta mál hefur verið til umræðu hér á Alþingi. Það er ýmislegt í því, sem er forvitnilegt, m.a. að geyma féð heima í héraði í staðinn fyrir í Seðlabankanum, þó að Seðlabankinn sé kannske banki alls landsins frekar en stóru viðskiptabankarnir hérna í Reykjavík.

Ég hef aftur á móti margt við þetta að athuga og hef haft í bæði skiptin sem það hefur verið til umræðu og hef það enn. Og ég verð að hryggja vin minn, hv. þm. Karvel Pálmason, með því, að ég mun halda uppi nokkru andófi gegn málinu eins og ég hef gert fram að þessu. Ég vil sem sagt taka þessu máli með mikilli varúð, allt að því andstöðu.

Það er einkum þrennt sem ég hef við málið að athuga. Í fyrsta lagi mundi þetta í mörgum tilvikum valda erfiðleikum hjá mönnum sem skipta um starf, vinna á fleiri en einum stað á sama orlofsári. Þá yrðu þeir að fara að safna saman bankabókum héðan og þaðan af landinu. Á þetta kannske helst við um sjómenn.

Í öðru lagi hefur verið gagnrýnt að Póstgíróstofan sé ekki nógu hörð í innheimtu. Þó er hún með a.m.k. einn lögfræðing í fullu starfi við innheimtu á þessum kröfum þegar um meiri háttar vanskil er að ræða. Ef þetta félli niður, hver á þá að taka við því? Ætla verkalýðsfélögin öll að fara að ráða sér lögfræðinga til að innheimta? Ekki trúi ég því, að bankarnir mundu standa í slíkri innheimtu. Ég er hræddur um að þetta mundi verða miklu meiri útþensla á bákninu heldur en núna er.

Í þriðja lagi og það er kannske alvarlegast og það kom hv. 3. þm. Austurl. inn á ber Póstgíróstofunni nú að greiða orlof á réttum tíma þó að kaupgreiðandinn hafi ekki staðið í skilum. Hver á að annast það ef þetta frv. yrði að lögum? Ekki hef ég trú á því, að bankar mundu gera þetta eða hafi yfirleitt nokkra lagalega heimild til að standa í því að ábyrgjast slíkar greiðslur, og mér finnst ekki trúlegt að verkalýðsfélögin hvert fyrir sig færu að ganga í svona ábyrgð. Þarna held ég því að hljóti að verða mjög mikill misbrestur á ef þetta frv. yrði samþykkt.

Því hefur verið haldið fram — var haldið fram í fyrra og líka í hittiðfyrra af mörgum — að vextir af þessu fé hjá Póstgíróstofunni séu allt of lágir og starfsemin sé allt of dýr. Á orlofsárinu 1978–1979 voru meðalvextir á innlánsbókum í bönkum og sparisjóðum 26.5%. Þá greiddi Póstgíróstofan fyrir þetta fé 24% vexti. Það var allur munurinn það árið. En kostnaður við Póstgíróstofuna er greiddur af þessum vaxtamismun, mismuninum af þeim vöxtum, sem Póstgíróstofan fær hjá Seðlabankanum fyrir þetta fé, og hins vegar vöxtum þeirra sem eiga féð, þ.e. fólksins sem orlofsféð fær greitt.

Núna standa málin þannig, að Póstgíróstofan fær 40.5% vexti af innistæðunum hjá Seðlabankanum eða jafnmikið og af þriggja mánaða bókum, en fjmrn. á eftir að ákveða vexti af orlofsfénu fyrir yfirstandandi orlofsár. Þeir eru reiknaðir út eftir kostnaði Póstgíróstofunnar.

Heildarkostnaður síðasta árs hjá Póstgíróstofunni var 238 millj. Hv. 10. þm. Reykv. spurði um þetta s.l. vor, en þá hafði ég töluna ekki við hendina, en nú hef ég hana. Ég er sannfærður um, að sá kostnaður yrði ekki minni þó að hann færi að dreifast á banka úti um allt land og sparisjóði eða verkalýðsfélög. Hann mundi dreifast, en yrði ekki minni. Bankar virðast alltaf geta bætt við sig fólki og það virðist engu máli skipta, hvað reksturinn hjá þeim kostar, þannig að vel getur verið að það sé hægt að fela kostnaðinn einhvers staðar. Og verkalýðsfélögin hafa starfsmenn, svo að það getur vel verið að hægt væri að fela þetta. En ég er sannfærður um að heildarkostnaðurinn við þessa framkvæmd mundi vaxa, báknið mundi þenjast út en ekki hið gagnstæða.

Herra forseti. Ég tel að samþykkt þessa frv. sé hæpin, að ekki sé meira sagt.