15.12.1980
Neðri deild: 31. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1465 í B-deild Alþingistíðinda. (1490)

Afgreiðsla þingmáls

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna þess að ég sá að fyrir nokkrum mínútum var verið að dreifa tveimur nefndarálitum frá heilbr.- og trn. Nd. um frv. til l. um fæðingarorlof, breytingu á lögum um almannatryggingar, með síðari breytingum, og sömuleiðis nál. um frv. til l. um almannatryggingar frá 1. minni hl. heilbr.- og trn. Í báðum þessum nál. er sagt að Guðmundur G. Þórarinsson, Matthías Bjarnason og Pétur Sigurðsson hafi verið fjarverandi afgreiðslu málsins. Þessi mál hafa verið til umr. í nefndinni í örfáa daga.

Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á því, að í þingsköpum Alþingis segir að formenn fastanefnda í hvorri deild, forseti og fyrri varaforseti skuli skipa eina nefnd, vinnunefnd, og sé forseti formaður hennar. Hún skal skipa fyrir um fundatíma og fundastaði nefndanna og sjá um að þeir rekist ekki á. Formaður heilbr.- og trn. Nd. hefur verið alveg sérstaklega hittinn á að boða n. til funda þegar ákveðnir nefndarmenn hafa verið boðaðir á fund í öðrum nefndum. Í tveimur tilfellum undanfarna daga hafa tveir formenn nefnda, sem eru báðir í Alþb., boðað fundi, annars vegar formaður sjútvn. Nd. og hins vegar formaður fjh.- og viðskn. Ed., sem boðaði nefndir beggja deilda til fundar, og í bæði skiptin boðar formaður heilbr.- og trn. Nd., 8. landsk. þm., Guðrún Helgadóttir, fund á nákvæmlega sama tíma. Þrátt fyrir að aths. séu gerðar kemst ekkert að hjá hv. formanni heilbr.- og trn. Nd. Hún ætlar sér að halda áfram og segja: Svona hef ég það og svona ætla ég að hafa það. M.ö.o.: hún æðir á veggina.

Á laugardaginn er haldinn fundur í heilbr.- og trn. Nd. eftir afgreiðslu við 2. umr. fjárlaga. Á þeim fundi mæti ég og einnig Pétur Sigurðsson. Pétur Sigurðsson tekur fram á þeim fundi að hann sé samþykkur frv. um fæðingarorlof og hann vilji skrifa undir nál., en hann vildi fá ákveðnar skýringar. Ég tek mig til og óska eftir ákveðnum skýringum og fer fram á að fulltrúar verði boðaðir á fundinn, en ekki skrifað bréf, vegna þess að ég eins og aðrir vildi flýta afgreiðstu málsins. Ég bað um að boðaðir yrðu á fund n. fulltrúar Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna. Frá öðrum kom aftur á móti að boða fulltrúa frá Stéttarsambandi bænda og fulltrúa frá Alþýðusambandi Íslands. Sömuleiðis átti að boða fulltrúa frá Sjómannafélagi Reykjavíkur að sérstakri beiðni Péturs Sigurðssonar. Pétur Sigurðsson tók fram á þessum laugardagsfundi að hann yrði erlendis eftir helgi og mundi því ekki vera við þegar næsti fundur yrði haldinn.

Á fund n. í morgun komu fulltrúar allra þessara aðila nema Sjómannafélags Reykjavíkur, en formaður n. skýrði frá því að hann hefði ekki getað mætt vegna þess að hann hefði þurft að vera á sáttafundi í kjaradeilu farmanna innan Sjómannafélagsins. Ég spurði, eftir að gestir voru farnir af fundinum í morgun, hvers vegna enginn fulltrúi hefði komið frá Vinnuveitendasambandi Íslands. Formaður skildi ekkert í því og sagðist skyldu athuga það.

Svo er boðaður fundur í dag, eftir að nokkuð margar spurningar höfðu komið fram á fundinum í morgun frá gestum, frá Stéttarsambandi bænda og frá Alþýðusambandi Íslands, og frá einstökum nm., og formaður beðinn að afla vitneskju um þær. Ég gerði þessa aths. varðandi Vinnuveitendasamband Íslands. Þá er boðaður fundur hér með örstuttum fyrirvara, sem á að hefjast kl. 15.45. Þá eru umr. í fullum gangi í hv. þd. og ég bjóst við að forseti mundi innan nokkurra mínútna hafa atkvgr. um mál sem lokið var umr. um og átti eftir að greiða atkv. um og koma til nefndar. En hann lét umr. fara fram til kl. 4 eða rúmlega 4 og þá hófst atkvgr. Þá kemur formaður heilbrn. og spyr hvort ég megi ekki vera að því að koma, þó að þingflokksfundatíminn hafi þá átt að vera byrjaður fyrir rúmlega 10 mínútum, og ég kem inn. Þá sé ég að nál. liggur handskrifað á borðinu og hjá formanninum eru Jóhann Einvarðsson, Pálmi Jónsson og Magnús H. Magnússon. Þegar ég sé að nál. liggur fullbúið á borðinu tel ég að ég hafi ekkert á slíkan fund að gera.

Mér er sagt að formaðurinn hafi látið hringja í framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins kl. rúmlega 3 í dag til að koma á fund korter fyrir 4. Það getur staðið svo á hjá mönnum, að þeir geti ekki hlaupið á stundinni, jafnvel þó að þar sé jafnvirðulegur formaður í heilbr.- og trn. og núv. formaður er. Það þarf að boða þá með eitthvað lengri fyrirvara. En frekjan og yfirgangurinn er svo takmarkalaus að það er ekki hikað við að brjóta allar þingræðisvenjur í sambandi við afgreiðslu mála.

Nú kann einhver þm. að spyrja: Er ekki algengt að mál séu afgreidd í tímaþröng hér í hliðarherbergjum? Jú, það er algengt að afgreiða þannig lítil mál, einföld mál sem eru ágreiningslaus með öllu og er alveg sjálfsagt að afgreiða, og ég hef oft tekið þátt í því. En stórmál, viðamikil mál, sem þarf líka að vanda til, því að við verðum líka að hugsa til framkvæmdar þessa máls, eru ekki afgreidd á stigafundi á meðan bjallan dynur og atkvgr. fara fram. Það þekki ég ekki og þetta er 20. þingið sem ég sit.

Nú vil ég spyrja hv. formenn þingflokkanna að því, og þá ekki síður formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar, sem ræddu við forsrh. eða hann við þá um daginn þegar hann fékk þeim 21-listann, hvort þeir hafi tekið að sér og hafi lofað því að öll slík mál færu í gegn eins og á færibandi, hvernig sem að vinnubrögðum væri staðið í nefnd, eða af formönnum nefnda. Ég vil einnig spyrja hæstv. forseta deildarinnar, sem nú starfar hér sem aðalforseti, hvort hann vilji ekki með tilliti til þingskapa, sem ég vitnaði í í upphafi, og með tilliti til þess, að þingið haldi virðingu sinni, gera kröfu til þess, að þessum nefndarformanni verði gert skylt að halda fund að nýju í n., þar sem málið væri tekið til afgreiðslu og þar sem væri staðið við það fyrirheit, sem n. var sammála um á laugardaginn var, að kalla til fundar — og þá með hæfilegum fyrirvara — þá aðila sem átti að leita umsagnar hjá.

Áður en ég fer úr ræðustólnum vil ég taka fram, að ég er í tveimur öðrum nefndum í þinginu, annars vegar í sjútvn. og hins vegar í fjh.- og viðskn. Nd., og ég ætla ekki að líkja saman vinnubrögðum formanns þessarar hv. n. og vinnubrögðum formanna þeirrar nefndar sem ég nefndi. Það er reynt að koma til móts við menn, reynt að hafa samvinnu við menn um afgreiðslu mála. Það er síst lakara að eiga samvinnu við flokksbróður þessa hv. nefndarformanns, Garðar Sigurðsson, en við Halldór Ásgrímsson, formann fjh.- og viðskn. Nd., því að báðir leggja þeir sig fram um að hafa gott samstarf við nm., en láta ekki gusugang og fíflalæti ráða ferðinni í sambandi við afgreiðslu mála.

Ég endurtek óskir mínar til hæstv. forseta, að hann taki hér í taumana, því að þetta verður ekki til þess að flýta fyrir afgreiðslu þeirra mála sem eru á listanum, — ekki hvað mig snertir, — og ég hef sæmilega fætur að standa á hér í ræðustólnum ef til þess þarf að koma. Ég vil hins vegar ekki stofna til neins ófriðar hér í þingi á síðustu dögum fyrir jól. Ég vil gjarnan að mál séu afgreidd. Þó að það séu skiptar skoðanir hjá fulltrúum stjórnar og stjórnarandstöðu um nokkur mál vil ég á allan hátt greiða fyrir málefnum stjórnarinnar hvað þetta snertir. En ef þm. stjórnarliðsins helst uppi að beita slíkum vinnubrögðum sem þessi nefndarformaður hefur beitt er friðnum slitið hér í þingi. Ef menn vilja ná sáttum verður það ekki gert nema þetta mál verði tekið upp aftur. Um er að ræða mál sem við í n. erum efnislega sammála um, fæðingarorlofið. Það er aðeins eftir að fá frekari skýringar og leiðrétta til fulls það sem við teljum að sé ekki fyllilega nógu gott í frv. Þess vegna stóð ég hér upp, og ég þakka hæstv. forseta fyrir biðlund í þessu sambandi, en þetta gat ég ekki látið hjá líða að gera að umræðuefni.