27.10.1980
Neðri deild: 6. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í B-deild Alþingistíðinda. (150)

5. mál, barnalög

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Út af ræðu hv. 10. þm. Reykv. vil ég taka fram, að ég þakka honum fyrir vinsamleg ummæli um þetta frv. Ég veit að af hans hálfu og annarra nm. verður þetta frv. vandlega skoðað og athugað. Það er rétt hjá honum, að þetta frv. er samið af sifjalaganefnd, sem er ein af fastanefndum dómsmrn. um löggjafarmálefni, og ég get getið þess, hverjir eiga sæti í þeirri nefnd, því það er valinkunnugt sæmdarfólk. Það er dr. Ármann Snævarr hæstaréttardómari, formaður, frú Auður Auðuns fyrrv. dómsmrh., Baldur Möller ráðuneytisstjóri og frú Guðrún Erlendsdóttir dósent. Ég hygg því að það hafi verið vel vandað til samningar þessa frv. Mér er ekki kunnugt í einstökum atriðum hvaða aðilar hafa verið kallaðar fyrir nefndina meðan hún sat við samningu frv. Hitt vona ég og veit, að sú n., sem fær þetta mál til umfjöllunar hér, mun kveðja á sinn fund ýmsa aðila, m.a. börn, eins og hv. síðasti ræðumaður nefndi, og það finnst mér athyglisvert.

Ég hef þessi orð ekki fleiri en vænti þess aðeins — (Gripið fram í. — Forseti: Nei, það má ekki. Það er ekki leyft að gera aths. úr sæti.) Ég ætla þá að leyfa mér að ljúka máli mínu. Ég vonast til þess, að hv. n., sem fær þetta frv. til meðferðar, athugi það vandlega og af gaumgæfni og með nægum hraða til þess að unnt sé að samþykkja það sem lög a.m.k. fyrir þinglok.