15.12.1980
Neðri deild: 31. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1475 í B-deild Alþingistíðinda. (1502)

152. mál, biskupskosning

Frsm. (Ingólfur Guðnason):

Herra forseti. Hér liggja fyrir deildinni brtt. við frv. til laga um biskupskosningu. Ég vil leggja nokkur orð í belg um þessar brtt. þar sem þær fresta, ef samþykktar yrðu, áhrifum leikmanna á væntanlegar biskupskosningar og yrði þá, við skulum segja: vonandi frestað í næstu 10–20 ár og þar með kæmi ákvæðið kannske aldrei til framkvæmda. Við vitum ekki hver áhugi manna verður á því þá.

Mér sýnist liggja ljóst fyrir að kjörnir leikmenn á héraðsfundum prófastsdæmanna og kjörnir fulltrúar til kirkjuþings og kirkjuráðs séu kjörnir til að annast hver þau mál sem fyrir koma hverju sinni, svo sem þau mál sem Alþingi felur þessum fundum. Ef þyrfti að ákveða hverju sinni að kjósa þá er eitthvert nýtt mál kæmi til umræðu á kirkjuþingi og þyrfti að hafa nýja fulltrúa þar vegna þess að fulltrúar hefðu ekki verið kosnir með tilliti til að þetta ákveðna mál kæmi til úrskurðar þingsins, þá væru ansi tíðar kosningar til kirkjuþings:

Mér sýnist því að með tilliti til þessa alls og eðlis málsins liggi ljóst fyrir að Alþingi geti falið kirkjuþingsfulltrúum það verkefni að taka þátt í biskupskjöri og eins geti Alþingi fatið fulltrúum á héraðsfundum að taka þátt í atkvæðagreiðslu. Ég veit ekki hvort það hefði verið betur ráðið ef hefði verið vitað, þegar þeir voru kjörnir, að það væru biskupskosningar fram undan. Ég veit ekki hvort það hefði verið nokkuð heppilegri leið að það væri vitað þá þegar. En með tilliti til þess sem ég hef sagt, mun ég greiða atkvæði gegn þessari brtt.