15.12.1980
Neðri deild: 31. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1475 í B-deild Alþingistíðinda. (1503)

152. mál, biskupskosning

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Með tilliti til þess knappa tíma, sem þingið hefur til að afgreiða mál fyrir jól liggur að sjálfsögðu ljóst fyrir að út í hött væri að vera með þetta mál á dagskrá ef gildistaka aðalatriða þess ætti ekki að koma til framkvæmda á næsta ári. Það hefði þá engan tilgang að vera að fjalla um málið sérstaklega í kvöld. Í reynd er með þeirri tillögugerð, sem kemur frá hv. 8. landsk. þm., verið að leggja til að þetta frv. verði fellt. Að sjálfsögðu geta næstu þing gert allt sem þeim dettur í hug til að breyta lögum, sem ja ný eða annað, fyrir þarnæstu biskupskosningar. Ég veit ekki hvort okkur ber nauðsyn til þess nú einmitt á þessari stundu, nú í kvöld, að standa í að afgreiða lög sem koma e.t.v. ekki til framkvæmda fyrr en eftir mörg ár.

Það var tvennt sem mér virtist að flm. brtt. vildi leggja þunga áherslu á í málflutningi sínum. Annað var það, að frumkvæðið hefði átt að koma frá Alþingi, en ekki frá kirkjuþingi. Ég legg til að við skoðum þetta dálítið betur. Er það óeðlilegt að kirkjuþing, sem ætlað er að fjalla um málefni kirkjunnar, taki einmitt svona málefni til umfjöllunar? Hvaða málefni eru það sem kirkjuþing á að taka til umfjöllunar ef það eru ekki einmitt svona málefni? Það hefur löngum verið talað um að deilur á milli kirkjunnar annars vegar og hinna ýmsu þjóðþinga hafi verið til lítillar farsældar hafi þær upp risið. Ég fæ ekki séð hví Alþingi Íslendinga vill nú upphefja harðar deilur við kirkjuþing út af eins sjálfsögðu máli og hér er verið að leggja til af þeirra hálfu. Getum við farið að snúast gegn því, að lýðræði innan kirkjunnar sé aukið? Eru einhver rök fyrir því, að við snúumst gegn slíku? Ég segi nei.

Þá kemur hitt atriðið, að þegar fulltrúarnir voru kosnir hafi ekki verið vitað til þess, að þeir hefðu vald til að kjósa biskup. Nú vill svo til, að s.l. vetur, og þó réttara sagt í vor, vorum við að afhenda Alþýðusambandi Íslands mikið vald. Við vorum að afhenda því það vald að það ætti að kjósa fulltrúa í húsnæðismálastjórn ríkisins. Þá reis enginn upp í sölum þingsins og sagði að þegar menn voru á sínum tíma kosnir þar til valda hefði ekki verið vitað að þeir fengju þetta vald. Hvers vegna? Af því að hv. flm. þessarar brtt. er ljóst að þau rök, sem hún lagði aðaláherslu á, eru haldlaus og voru yfirborðið eitt í þessum málflutningi.

Það, sem fyrst og fremst virtist vera tilgangur málflutnings þm., var að færa umræður um biskupskosningarnar inn á Alþingi. Það tel ég fráleitt að við tökum upp. Ég tel sanngjarnt að við afgreiðum frv. þetta sem lög eins og kirkjuþing lagði til, en hefjum ekki deilur um hugsanleg áhrif þess gagnvart hugsanlegum prestum sem áhuga hafa á að verða kosnir í næstu biskupskosningu.