15.12.1980
Neðri deild: 31. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1476 í B-deild Alþingistíðinda. (1504)

152. mál, biskupskosning

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég á sæti í menntmn. og hef tjáð mig þar um þetta mál, en þar sem hér eru komnar fram brtt. og vegna almenns fyrirvara nm. um að þeir áskilji sér rétt til að flytja brtt. eða fylgja þeim verð ég að segja örfá orð.

Ég lýsi andstöðu minni við fram komnar brtt. hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur. Ég get ekki fallist á rök flm. og mér finnst þau ekki sannfærandi, þ.e. að þeir leikmenn, sem nú eiga að fá þetta vald til að kjósa biskup, hafi ekki verið til þess kjörnir á sínum tíma. Ég get ekki fallist á þessi rök. Mér sýnist þau bera keim af því, að leikmenn yrðu þá kjörnir eftir því hvern þeir hugsanlega mundu styðja af þeim sem gæfu kost á sér til biskups. Það geta menn, held ég, ómögulega vitað þegar þeir eru kjörnir, vegna þess að það er undir hælinn lagt hvort þeir vita hvort yfirleitt verður biskupskjör þegar þeir eru kosnir. Þótt biskupar hafi yfirleitt setið þar til þeir eru komnir á aldurstakmörk geta þeir fallið frá fyrr, eins og aðrir menn. Við getum því ekki séð fyrir hvort til biskupskjörs muni koma á kjörtímabili einhverra ákveðinna leikmanna. Ég hafna því þessari röksemd og tek undir það sem hv. þm. Ólafur Þórðarson sagði áðan.

Ég þarf ekki að hafa um þetta öllu fleiri orð. Ég legg áherslu á að þetta frv. er í samræmi við einróma samþykkt nýafstaðins kirkjuþings. Alþingi hefur satt að segja ekki séð sóma sinn í því yfirleitt að afgreiða mál frá kirkjuþingum með jákvæðum hætti. Mér sýnist vera kominn tími til þess, að svo sé gert. Ég mæli eindregið með því, að þetta frv. verði samþ. óbreytt.