15.12.1980
Neðri deild: 31. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1479 í B-deild Alþingistíðinda. (1511)

156. mál, tímabundið vörugjald

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Þegar ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar tók við síðari hluta ársins 1978 reis mikil skattabylgja. Nýir skattar voru teknir upp og eldri skattar hækkaðir. Sú skattabylgja hefur ekki enn hnigið. Eitt af því, sem þá var gert, var að hækka vörugjaldið svokallaða, sem reyndar er stöðugt kallað „sérstakt tímabundið vörugjald“, en hefur þó verið í gildi æði lengi. Eitt af því, sem þá gerðist, var að hækka verulega þetta vörugjald. Gjaldið var hækkað í 18% og síðar í 24%, en þar að auki voru allmargar vörur teknar sérstaklega út úr og vörugjald á þeim hækkað í 30%.

Þetta er, eins og ég segi, liður í þeirri miklu skattaöldu sem yfir okkur reið, og þessi hækkun, sem nú er lagt til að verði framlengd, felur í sér 10–11 milljarða kr. skattaálögur á almenning á næsta ári. Það er hluti af um 60 millj. kr. aukaskatti til ríkisins á þjóðina á næsta ári, miðað við verðlag fjárlagafrv. eins og það er nú og miðað við þá hækkun sem sú ríkisstj., sem ég gat um áðan, gerði á hinum ýmsu sköttum.

Ég tek það fram, að ég er andvígur þessu lagafrv. og mun greiða atkv. gegn því þegar það kemur til endanlegrar afgreiðslu hér í hv. deild. En þar sem það virðist vera einlægur ásetningur hæstv. ríkisstj. og stuðningsmanna hennar að samþykkja þetta frv., sbr. afstöðu stuðningsmanna hæstv. ríkisstj. í Ed., vil ég þó freista þess að fá fram litla breytingu á frv., litla breytingu á þessu gjaldi, sem er samhljóða brtt. sem ég flutti þegar þetta mál var hér til meðferðar á s.l. vori.

Ég flyt á þskj. 256 brtt. sem felur í sér að einn vöruflokkur falli úr, en það er vöruflokkur sem nú hefur 30% vörugjald, hljómplötur almennt. Þegar ég bar fram þessa brtt. hér í hv. deild í vor var það m.a. fundið að henni, að hún væri mjög seint fram komin og ekki hefði gefist færi á því að skoða hana í nefnd. Því flyt ég hana strax við 1. umr. um þetta mál hér í deildinni í von um að sú n., sem þetta frv. fær til athugunar, kanni þessa brtt. með góðum huga.

Ég vil rifja upp með nokkrum orðum helstu rök sem í mínum huga eru fyrir því að fella þennan vöruflokk brott.

Hljómplötur eru nú einhver mikilvægasti menningarmiðill sem við eigum yfir að ráða. Hin frábæra tækni til upptöku og afspilunar hefur gert að verkum að tónlist í þessu formi er nú almenningseign og fólk getur hlýtt á allar tegundir tónlistar á heimilum sínum, auk þess sem hljómplötur eru nú einhver fyrirferðarmesta tómstundaánægja ungs fólks.

Það er staðreynd, að þegar 30% vörugjald var lagt á hljómplötur í sept. 1978 dró verulega úr sölu á hljómplötum. Ég hef aflað mér upplýsinga um innflutning á hljómplötum s.l. þrjú ár. Árið 1977, síðasta heila árið sem plötur voru seldar án þessa vörugjalds, voru flutt inn — þetta er mælt í tonnum í innflutningsskýrslum — 76.6 tonn, 1978 minnkaði innflutningurinn niður í 71.5 tonn og 1979, fyrsta heila árið eftir að vörugjaldið var lagt á, minnkaði innflutningurinn niður í 58.6 tonn. Sala dróst saman um 25% milti áranna 1977 og 1979.

Þessar tölur sýna að almenningur hefur ekki í eins ríkum mæli og áður var og æskilegt hlýtur að teljast ráð á að njóta þessa einfalda og tiltölulega ódýra menningartækis. Meðalverð á innfluttri hljómplötu er nú u.þ.b. 15 þús. kr. Ef vörugjaldið félli niður mundi verð á hverri hljómplötu lækka um nokkurn veginn 23–25%. Ég held að ríkissjóður mundi ekki tapa miklu á þessari ákvörðun vegna þess að það má búast við að salan mundi aukast að nýju, væntanlega a.m.k. upp í það sem hún var 1977, áður en þetta háa vörugjald komst á, en aðrar tekjur, sem ríkið hefur af innflutningi hljómplatna, þ.e. söluskattur og tollar, mundu vega á móti því sem tekjur af vörugjaldi gefa af hljómplötum.

Þeir, sem eiga tök á því að ferðast erlendis og kynna sér verð á þessari vöru erlendis, sjá að verðmunur á hljómplötum hér á Íslandi og í öðrum löndum er óeðlilega mikill. Sjálfur er ég t.d. nýkominn frá Bandaríkjunum. Þar er hægt að fá þrjár til fjórar hljómplötur fyrir eina í búðum hér. Svipað verð er í Bretlandi. Það er nokkuð hærra í Skandinavíu, t.d. í Danmörku, en þó munar miklu á því sem hér er og þar. Þetta er ekki mikið mál fyrir ríkissjóð, en hins vegar mikið mál fyrir ótrúlegan fjölda fólks sem vilt geta notið tónlistar á heimilum sínum, en hefur dregið það verulega við sig.

Með þetta í huga vonast ég til að þessi litla till. verði tekin til jákvæðrar athugunar hjá þeirri n. sem þetta mál fær til umfjöllunar og að þm. láti sannfæringuna ráða í þessum efnum, en ekki flokksböndin, eins og því miður gerðist þegar þetta mál var hér til meðferðar í fyrravor, en þá féll samhljóða brtt. með 17:19.

Ég vonast til þess, að fjh.- og viðskn., sem væntanlega fær þetta mál til meðhöndlunar, líti á þessa brtt. með velvilja.