16.12.1980
Sameinað þing: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1489 í B-deild Alþingistíðinda. (1528)

127. mál, Landmanna-, Gnúpverja- og Holtamannaafréttir

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég tek í raun og veru undir það sem hv. þm. Steinþór Gestsson sagði áðan og kemur nákvæmlega heim og saman við þann fyrirvara sem ég lét fylgja umsögnum þeirra stofnana sem hér eiga hlut að máli. En ég tel ástæðu til að það komi skýrar fram, að forstöðumenn beggja þessara stofnana lögðu á það áherslu, að hér væri um frumathuganir að ræða og þyrfti að fylgjast náið með framvindu þessara mála. Þetta tel ég nauðsynlegt að menn hafi í huga, og vonandi verður það tjón, sem hér hefur verið rakið, eigi jafnmikið og við horfir í fyrstu lotu.

Það er kannske fulldjúpt í ár tekið hjá hv. þm. Árna Gunnarssyni að segja að ekkert fjármagn sé til að bregðast við þessum vanda. Hið rétta er, að ekkert nýtt fjármagn er í fjárlagafrv. til þess að bregðast við vanda af þessu lagi, en fjárlagafrv. felur þó í sér talsverðar fjárhæðir til Landgræðslu ríkisins til að vinna að gróðurbótum og landgræðslu, enda þótt ég telji, eins og ég sagði í fyrri svarræðu minni, að það þyrfti að bæta um við endanlega afgreiðslu fjárlaga nú.