16.12.1980
Sameinað þing: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1491 í B-deild Alþingistíðinda. (1532)

368. mál, áfengisauglýsingar

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. svör hans. Ég fagna því sérstaklega, að það er til athugunar að taka þessar kynningar betur fyrir og kanna á hvern hátt megi stemma þar stigu við. Ég veit að áfengisvarnaráð, sem er ráðgefandi aðili fyrir ríkisvaldið í þessum efnum, hefur miklar áhyggjur af þróun þessara mála. Verður í sífellt ríkari mæli ástæða til að taka undir það með hæstv. dómsmrh. að þessi atriði verði skoðuð annaðhvort með harðari reglugerðarákvæðum eða þá beinum lagabreytingum, sem að þessu lytu, svo að við gætum sem best og sem fyrst losnað við þann ófögnuð sem nú ríður húsum í ýmsum blöðum og tímaritum.