16.12.1980
Sameinað þing: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1493 í B-deild Alþingistíðinda. (1534)

358. mál, húsnæðismál póstþjónustunnar í Reykjavík

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal svara eins og ég get og samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef, þeim fjórum liðum sem fram koma í fsp. hv. þm.

1. liðurinn varðar nefnd þá sem skipuð var af samgrn. 1973, og mun hafa verið skipuð 16. júlí. Verkefni hennar var, eins og sagði í skipunarbréfi, að gera tillögu um skipan húsnæðismála póstþjónustunnar í Reykjavík „með tilliti til þess, að starfsemin svari kröfum tímans og verði framkvæmd á hagkvæman hátt fyrir landsmenn alla út frá þeirri miðstöð sem Reykjavík er í þessum málum fyrir landið í heild.“ Í nefndina voru skipaðir: Brynjólfur Ingólfsson ráðuneytisstjóri, formaður, Jón Skúlason póst- og símamálastjóri, Matthías Guðmundsson póstmeistari, Hörður Bjarnason húsameistari ríkisins og Tryggvi Haraldsson útibússtjóri. Jafnframt störfuðu með nefndinni Halldór S. Kristjánsson deildarstjóri sem ritari hennar, Birgir Breiðdal deildararkitekt hjá embætti húsameistari ríkisins og síðasta árið núverandi húsameistari ríkisins, Garðar Halldórsson.

Nefndin leit svo á hlutverk sitt, að henni bæri að ræða eða skoða frumhugmyndir í anda laganna um skipan opinberra framkvæmda, sbr. lög nr. 63/1970, þ.e. þessi framkvæmd yrði að falla innan ramma þeirra laga. Hún taldi að stefna bæri að því að starfsemi innan póstþjónustunnar, önnur en starfsemi hreinna útibúa, skyldi sameinuð í nýju húsnæði og húsrými miðast við áætlað umfang starfseminnar í lok þessarar aldar, en talið var að póstmagn mundi um það bil tvöfaldast til næstu aldamóta. Teikningar þær, sem nefndin stóð að og gerðar voru hjá embætti húsameistara ríkisins, voru byggðar á þessum forsendum.

Enda þótt ekki sé beinlínis tekið fram í skipunarbréfi nefndarinnar að hún skyldi gera tillögur um staðsetningu nýs pósthúss í Reykjavík taldi nefndin þó að ekki væri unnt að leysa verkefni þau, sem henni voru falin, á annan hátt en byggt væri á tilteknum forsendum um staðarval. Urðu umræður um það atriði og bréfaskriftir og viðræður við hlutaðeigandi aðila hjá Reykjavíkurborg raktar í fundargerðum nefndarinnar. Þessi stefnumörkun nefndarinnar varð til þess, að hún leitaði strax á árinu 1973 eftir byggingarlóð fyrir fyrirhugað pósthús í Reykjavík. Var m.a. spurst fyrir um hvort lóð mundi fáanleg sunnan Miklubrautar í svonefndum Aldamótagörðum. Svar borgaryfirvalda var þannig, að gefinn var kostur á lóð fyrir aðalpósthús í svonefndum „miðbæjarkjarna,“ sem afmarkast af Miklubraut að norðan, framlengingu Bústaðavegar að sunnan, Kringlumýrarbraut að vestan og Háaleitisbraut að austan. Þetta svar var á því byggt, að því er síðar upplýstist, að engin lóð væri fáanleg á því svæði sem óskað var eftir, þ.e. í fyrrnefndum Aldamótagörðum, en staðsetningu á pósthúsinu þar taldi meiri hluti nefndarinnar sérlega heppilega vegna nálægðar við flutningamiðstöðvar póstsins, bæði með bifreiðum og flugleiðis. Síðan kom í ljós við endurskoðun á heildarskipulagi Reykjavíkurflugvallar í tengslum við athugun á byggingu innanlandsflugstöðva að möguleiki væri þar á heppilegri lóð fyrir pósthúsið.

Nefndin lagði málið fyrir þáv. samgrh. og ritaði hann borgarstjóranum í Reykjavík bréf, dags. 18. okt. 1979, þar sem sótt var um lóð á Reykjavíkursvæðinu samkv. afstöðumynd sem þá lá fyrir. Jafnframt tók rn. fram, að ef svar borgaryfirvalda yrði jákvætt mundi rn. afsala sér öllum rétti til lóðar þeirrar á miðbæjarsvæðinu sem gefið var fyrirheit um 23. sept. 1974. Nefndin varð sammála um að telja verki sínu formlega lokið þegar lóðarmálið væri endanlega útkljáð og mundi hún þá formlega skila af sér. Svar borgaryfirvalda hefur enn ekki borist þrátt fyrir skriflega ítrekun 29. apríl þessa árs og munnlegar ítrekanir bæði fyrr og síðar.

Þetta er, herra forseti, svar við 1. lið fsp.

2., 3. og 4. lið fsp. svara ég með því að vísa til upplýsinga sem ég hef aflað mér frá Póst- og símamálastofnuninni og leyfi mér að lesa, með leyfi forseta.

Varðandi 2. tölulið fsp. segir svo:

„Á fundi póst- og símamálastjóra með þáv. samgrh., Ragnari Arnalds, þann 17. júlí 1979 ákvað ráðh. að framkvæmdir skyldu hefjast sem fyrst við fyrirhugaða póstbyggingu við Suðurlandsbraut samkv. fjárfestingaráætlun 1979, en á fjárlögum þess árs voru veittar 70 millj. kr. til byggingarinnar. Framangreind ákvörðun var staðfest af Magnúsi H. Magnússyni sem tók við starfi samgrh. í okt. sama ár. Byggingarleyfi var samþykkt á fundi byggingarnefndar 13. sept. 1979 og framkvæmdir við jarðvinnu hófust í okt. 1979 að undangengnu opinberu útboði.“

Varðandi 3. tölulið fsp. segir svo, með leyfi forseta: „Byggingu þessari, sem alls er um 3600 m2, 18 þús. m3, er ætlað að hýsa starfsemi póstrekstrardeildar póststofunnar í Reykjavík samkv. gildandi skipulagi, þ.e. bögglapóststofu, tollpóststofu og bréfa- og blaðadeild, auk þess hverfispósthús R-8. Er mikil þörf fyrir pósthús í þessu stóra verslunar- og iðnaðarhverfi. Starfsemi póstrekstrardeildar fer nú fram á mörgum stöðum í þröngu og óhentugu húsnæði og er mjög erfitt að koma við hagræðingu í rekstri. Auk þess eru nær engin bílastæði tiltæk fyrir viðskiptamenn. Hefði þurft að leggja í umtalsverðan kostnað vegna lagfæringar á núverandi húsnæði toll- og bögglapóststofunnar, sem hefði þó verið ófullnægjandi. Byggingunni er ætlað að leysa aðkallandi vanda í húsnæðismálum deildarinnar, skapa starfsmönnum betri starfsaðstöðu og veita viðskiptavinunum betri þjónustu. Er þess vænst, að með því að færa þessa starfsemi á einn og sama stað verði hægt að koma við hagræðingu og ná fram sparnaði í rekstri. Einnig er þess vænst, að með byggingu þessa húss og viðeigandi tækjabúnaði verði hægt að bæta póstþjónustuna og mæta þörfum hennar í næstu framtíð.“

Varðandi 4. tölul. fsp. segir svo:

„Eins og greint var undir 2. tölulið voru á fjárlögum fyrir 1979 veittar 70 millj. til byggingarinnar. Á fjárlögum þessa árs eru 208 millj. kr. veittar til hennar. Í fjártillögum fyrir 1981 eru ætlaðar 600 millj. kr. Á árinu 1979 námu útgjöld til byggingarinnar 56.2 millj., en á yfirstandandi ári hafa þegar verið bókfærð útgjöld fyrir rúmlega 100 millj. kr. Miðað við 600 millj. kr. fjárveitingu á næsta ári er ætlað að hægt verði að gera bygginguna fokhelda fyrir árslok 1981 og ef nauðsynleg fjárveiting fæst á árinu 1982 er áætlað að hægt verði að taka bygginguna í notkun fyrir lok þess árs. Byggingarkostnaður er áætlaður 1560 millj. kr. miðað við núgildandi byggingarvísitölu að viðbættum kostnaði við frágang lóðar. Auk þess er áætlaður kostnaður vegna tækjabúnaðar 150–180 millj. kr. miðað við núverandi verðlag.“

Ég vona þá að ég hafi svarað þeim tíðum sem fram koma í fsp. hv. þm.

Ég vil segja það almennt um þetta mál, að ég tel mjög tímabært að þessu máli sé hreyft, og fagna því að athygli er vakin á störfum þeirrar nefndar sem sett var á laggirnar 1973. Hún hefur starfað alllengi. Að vísu kemur fram að starf hennar hefur tafist þar sem ekki hefur fengist sú lóð sem nefndin telur viðunandi fyrir framtíðarstarfsemi póstþjónustunnar, en ég vona að úr því fáist leyst mjög fljótlega.

Ég tel jafnframt athyglisvert það sem fram kemur bæði í spurningum hv. þm. og því svari sem ég las frá Póst- og símamálastofnuninni um byggingu sem ráðist hefur verið í hér í Reykjavík. Þarna er augsýnilega um ákaflega mikla framkvæmd að ræða, sem ég verð að segja að mér sýnist ekki að hafi í undirbúningi verið áættuð eins og nauðsynlegt er að sjálfsögðu með allar slíkar framkvæmdir. Kostnaður þarna er ákaflega mikill og er eðlilegt að um það sé spurt, hvernig slík bygging, svo kostnaðarsöm sem hún er, falli inn í framtíðarhugmyndir um starfsemi Pósts og síma á höfuðborgarsvæðinu.