16.12.1980
Sameinað þing: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1496 í B-deild Alþingistíðinda. (1537)

141. mál, smíði brúar á Ölfusá

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég hef samkv. fsp. hv. þm. leitað mér upplýsinga um hvernig þessi mál standa svo að ég geti upplýst fyrst og fremst 1. lið fsp. Ég minni á að gert var ráð fyrir að þessi athugun yrði bæði kostnaðarathugun, þ.e. eins konar frumhönnun á brú, og einnig athugun á félagslegu mikilvægi slíkrar brúargerðar yfir Ölfusárósa. Um fyrra atriðið hefur Vegagerð ríkisins upplýst það sem hér segir, með leyfi forseta:

„Við gerð gildandi vegáætlunar var gert ráð fyrir að fé til hönnunar brúarinnar yrði veitt á árunum 1981 og 1982. Með hliðsjón af því hefur verið gert ráð fyrir, að hönnun hefjist eftir næstu áramót með gerð frumáætlunar, en verði að fullu lokið veturinn 1982 – 1983. Í samræmi við þetta hefur að undanförnu verið unnið að gagnasöfnun vegna hönnunarinnar. Aðaláhersla hefur verið lögð á vatnafræðilega könnun með tilliti til hugsanlegra breytinga á rennsli og mælingar vegna hennar. Einnig hefur verið gerð könnun á yfirborðshæð bergs við ósinn.

M.ö.o., eins og fram kemur í gögnum Vegagerðarinnar er verkið þegar hafið með þeim nauðsynlegu rannsóknum sem gera verður áður en unnt er að ráðast í frumhönnun á svo miklu mannvirki sem hér er um að ræða. En Vegagerðin gerir ráð fyrir að hönnunarverkið geti hafist strax eftir áramótin ef á vegáætlun sem verður til endurskoðunar, er fé til hennar veitt, sem ég geri fastlega ráð fyrir.

Um athugun á hinum félagslega þætti vil ég upplýsa að Framkvæmdastofnun ríkisins var falin forsjá þess máls og í því skyni að vinna að því máli var skipuð samstarfsnefnd. Í þeirri samstarfsnefnd eiga sæti fyrir hönd samgrn. Ólafur S. Valdimarsson skrifstofustjóri, fyrir hönd Vegagerðar ríkisins Helgi Hallgrímsson forstjóri tæknideildar, fyrir hönd Samtaka sveitarfélaga í Suðurlandskjördæmi Hjörtur Þórarinsson framkvæmdastjóri, Þór Hagalín sveitarstjóri og Helgi Bjarnason verkfræðingur, fyrir hönd áætlanadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins Gunnar Haraldsson hagfræðingur og Tómas H. Sveinsson viðskiptafræðingur.

Á fundi sínum hinn 27. maí 1980 samþykkti stjórn Framkvæmdastofnunar að fela áætlanadeild að gera athugun á félagslegum áhrifum brúar yfir Ölfusá við Óseyrarnes. Skyldi höfð samvinna við samgrn., Vegagerð ríkisins og Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi. Einnig er í samþykktinni gert ráð fyrir að haft sé samráð við Transportökonomisk institut í Noregi, en sú stofnun hefur einna mesta reynslu í slíkum athugunum á Norðurlöndum. Samstarfsnefndin, sem skipuð var eftir þessa samþykkt, hóf formlega störf sín 6. ágúst s.l. og hefur síðan komið saman reglulega. Áður höfðu verið haldnir nokkrir óformlegir fundir framangreindra aðila.

Athugunin mun skiptast í eftirfarandi þrjá höfuðþætti:

1. Almenna haglýsingu.

2. Vettvangskönnun og mat haglýsingar.

3. Niðurstöður og ályktanir.

Kaflinn um atmenna haglýsingu er nú tilbúinn í handriti. Leitað hefur verið aðstoðar og upplýsinga, er fengist hafa, frá Transportökonomisk institut, sem fyrr var nefnd, varðandi fyrirhugaða vettvangskönnun. Gert er ráð fyrir að niðurstöður vettvangskönnunar liggi fyrir upp úr miðjum vetri og niðurstöður og ályktanir með vorinu. Haft verður náið samband um mál þetta allt við fyrrnefnda norska stofnun.

Rétt er að vekja athygli á því, að þetta er í fyrsta sinn sem hér á landi er gerð skipuleg athugun á félagslegum áhrifum samgöngumannvirkja. Í raun lýkur þeirri athugun ekki fyrr en nokkrum árum eftir að gerð brúarinnar lýkur. Hins vegar er nú að því stefnt að afla öruggra upplýsinga áður en hönnun getur hafist, en síðan verður fylgst með áhrifum brúarinnar og er það út af fyrir sig ákaflega lærdómsríkt fyrir framtíðarathuganir af þessu tagi.

Ég vona að 1. lið sé þannig svarað. Mér sýnist að undirbúningur undir hönnun að þessu mjög mikla verki sé í fullum gangi. Sumum kann að þykja það ganga nokkuð seint, en ég vil leggja áherslu á að til þess að slík hönnun megi fara vel úr hendi er mjög nauðsynlegt að allir þættir séu vel rannsakaðir. Til þess þarf að sjálfsögðu að hafa fjármagn. Vegagerðin hefur hafið undirbúning nú þegar þótt fjárveiting til hönnunarinnar sé ekki væntanleg fyrr en á árunum 1981 og 1982.

Ég á í meiri erfiðleikum með að svara 2. lið fsp. Ég er ófús til að gefa yfirlýsingu um vilja minn fyrr en ég sé a.m.k. niðurstöður af þeirri félagslegu athugun sem þarna fer fram. Ég teldi reyndar ekki sæmandi að gefa slíka yfirlýsingu áður en frumhugmyndir um kostnað við þessa brúarsmíði liggja fyrir. Ég vil hins vegar taka það skýrt fram, að ég tel að brúarsmíðin yfir Ölfusárósa sé ákaflega mikilvæg framkvæmd fyrir þetta svæði, tengi það að öllu leyti atvinnulega og félagslega miklu betur saman en nú er. Hún getur t.d. haft mjög mikil áhrif á útgerð a.m.k. stærri fiskiskipa á þessu svæði, sem er núna erfiðleikum bundin vegna þeirrar fjarlægðar sem er frá nánast eina löndunarstaðnum, í Þorlákshöfn, til svæða austan árinnar, eins og menn þekkja. Ég er af þessum ástæðum mjög hlynntur þessari framkvæmd. Ég ítreka vilja minn, ég er sannfærður um að brúin kemur einhvern tíma, en hvenær unnt verður að ráðast í þessa brú treysti ég mér ekki til að segja um fyrr en ég sé niðurstöður af þeim athugunum sem ég hef lýst.