16.12.1980
Sameinað þing: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1503 í B-deild Alþingistíðinda. (1547)

362. mál, húsnæðismál

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar samþykkti að tillögu minni stefnumótun í húsnæðismálum og í húsnæðislánamálum sem byggðist á nokkrum einföldum undirstöðuatriðum.

Í fyrsta lagi var áætlað að byggja þyrfti 2000 íbúðir á ári fyrstu 5 árin en síðan 2100 íbúðir á ári.

Í öðru lagi var reiknað með að mjög fljótlega yrði því marki náð, að þriðjungur allra íbúðabygginga í landinu yrði á félagslegum grundvelli.

Í þriðja lagi var ákveðið að til félagslegu íbúðabygginganna yrði strax lánað 90% af byggingarkostnaði. Í fjórða lagi var ákveðið að önnur nýbyggingarlán og reyndar fleiri lán hækkuðu í fyrirframákveðnum áföngum um ekki minna en 5% á ári í 80% byggingarkostnaðar ekki síðar en á árinu 1990.

Þetta er sú stefnumótun sem sú ágæta ríkisstj. samþykkti og allir flokkar sem að henni stóðu. Við þetta hefur verið staðið í stórum dráttum í því frv. sem endanlega var samþykkt. Aftur á móti kostar þetta peninga og ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar samþykkti þann þátt þannig: 1. Að halda óskertum núverandi mörkuðum tekjustofnum Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna. Þetta hefur ekki verið gert. Það vantar a.m.k. 5 milljarða í fjárlögum fyrir næsta ár upp á að þetta sé gert.

2. Að auka framlög ríkissjóðs og sveitarfélaga um 7.5% fyrsta árið, hækkandi í 50% á tíunda ári, en gæti eftir það farið ört lækkandi. Í krónum talið væri aukningin á fyrsta ári 0.8 milljarður og á tíunda ári 8 milljarðar, og er þá miðað við áætlað meðalverð ársins 1980.

3. Að auka lántökur til kerfisins frá því, sem verið hefur undanfarin ár, um 30% á fyrsta ári, vaxandi í 80% á tíunda ári. Í krónum talið var þetta 4 milljarðar fyrsta árið, 13.6 milljarðar tíunda árið.

Ég hef því miður ekki tíma til að skýra þetta nánar, en í stórum dráttum er þetta þannig, að það vantar 12.1 milljarð í fjárlagafrv. upp á að Byggingarsjóði ríkisins sé séð fyrir þeim tekjum sem honum voru ætlaðar og a.m.k. 5 milljarða vantar þegar heildin er tekin, báðir sjóðirnir, Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna. Þessu er bjargað núna með lántöku. Næsta ári er bjargað með lántökum, þannig að 25% markið næst, — ekki 35% markið eins og upphaflega var gert ráð fyrir í mínu frv., heldur 25%.

En hvað þýða þessar lántökur? Það eru tekin lán með hærri vöxtum til styttri tíma en síðan er lánað út. Það þýðir að ef á að ná því marki, sem stefnumótunin byggði á og þó að við séum tveimur árum á eftir, þ.e. allt að 10% á eftir, þá vantar á fyrstu 10 árunum 217 milljarða kr. og ef við tökum 20 ár eru það 490 milljarðar sem vantar í auknum lántökum. Og tuttugasta árið, þegar sjóðurinn ætti samkv. upphaflegum áætlunum að standa undir sér og þyrfti ekkert framlag, þarf hann að bæta við sig 98 milljörðum í lántökum umfram það sem nú er og nálgast greiðsluþurrð í staðinn fyrir að verða svo öflugur að geta staðið sjálfur undir öllum nauðsynlegum lánveitingum.