16.12.1980
Sameinað þing: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1505 í B-deild Alþingistíðinda. (1549)

362. mál, húsnæðismál

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Hæstv. ráðh. er eitthvað taugaóstyrkur í þessu máli. Ef menn ræða það efnislega heldur hæstv. ráðh. að menn séu reiðir.

Hæstv. ráðh. sagði að inngangsorð mín varðandi þetta mál styddust við fátt annað en óskhyggju. Hann er að gera því skóna að það, sem mér gangi til, sé að óska þess, að fram undan séu í húnæðismálunum þeir erfiðleikar sem ég lýsti. Ég vil mótmæla ummælum sem þessum. Ég tel, hver sem ráðh. er, að ráðh., sem lætur annað eins út úr sér og þetta í jafnalvarlegu máli, sé ekki hæfur til að ræða þessi mál á málefnalegum grundvelli.

Hæstv. ráðh. sagði um fyrstu spurningu mína að hún væri til komin vegna þess að frétt um þetta mál, um erfiðleika Byggingarsjóðs ríkisins, hefði komið í Morgunblaðinu. Ég las þessa frétt í Þjóðviljanum. Það var viðtal við formann Húsnæðisstofnunar ríkisins og formaðurinn sagði að ráðh. eða rn. hans hefði lofað að leysa úr þessum málum. Það kann að vera að þetta hafi líka verið í Morgunblaðinu. Og ég er ekki að áfellast hæstv. ráðh. fyrir að taka til þessara ráðstafana einungis vegna þess að hann hafi séð þessa frétt í Morgunblaðinu. Honum er ekki alls varnað fyrst hann tekur þetta tillit til Morgunblaðsins.

Um aðra spurninguna sagði hæstv. ráðh. að það væri allvel séð fyrir fjármagnsþörfum Byggingarsjóðs ríkisins. Ég efast um að nokkur maður á Íslandi, sem hefur nokkra nasasjón af ástandi þessara mála, mundi leyfa sér að taka svo til orða nema hæstv. félmrh. Ég hef ekki tíma til að fara út í þetta mál nákvæmlega, en það hefur líka komið fram í máli annarra þm. hvernig ástand málanna er.

Hæstv. ráðh. var í þessu sambandi að hafa orð á útlánum til orkusparandi aðgerða og það væri allvel séð fyrir þeim. Þeir, sem hafa komist næst í þeim efnum, álíta að það verði búið að ná viðunandi árangri í þeim málum eins og það er nú þýðingarmikið, eftir ca. 100 ár með vinnubrögðum hæstv. ríkisstj.

Þá sagði hæstv. ráðh. að það væri ekki hægt að svara því, hvað væri áætlað að hámarksupphæð almennra íbúðalána hækkaði mikið á árinu 1981 í hlutfalli við byggingarkostnað. Hann sagði að það væri ekki hægt að svara þessu og var að tala í því sambandi um staðalíbúðir og nýjar reglur. Allt eru þetta tátalæti. Auðvitað er hægt að svara þessu. En sannleikurinn er sá, að hæstv. ráðh. kærir sig ekki um að svara því, vegna þess að í þeim efnum blasir við það sem verst er. Ég sagði í máli mínu áðan að við hefðum verið að reyna að stefna fram á við í þessum efnum. Fyrir 1960 og þegar Húsnæðisstofnun ríkisins tók fyrst til starfa voru þessi lán um eða yfir 20% af byggingarkostnaði. Um 1960 voru þau komin upp í um 30% af byggingarkostnaði og í lok næsta áratugs, um 1970, í rösk 40%. En núna eru þau komin niður í 30% og halda áfram að hraðfalla með sömu stefnu og núv. ríkisstj. hefur í þessum málum. Það er von að hæstv. ráðh. segi að það sé ekki hægt að svara spurningu um þetta efni.

Hæstv. ráðh. sagði að það væri blekking hjá mér þegar ég segði að Byggingarsjóður ríkisins væri sviptur tekjustofnum. Það eru lífeyrissjóðirnir sem koma til sagði ráðh. En á ég að trúa því, að hæstv. félmrh., æðsti maður húsnæðismála í landinu, geri ekki greinarmun á því, hvort aðalbyggingarsjóður landsmanna fær óafturkræft framlag, eins og launaskatturinn gefur, eða hvort hann á að taka lán með vöxtum sem eru miklu hærri en útlánsvextir sjóðsins og beinlínis stefna að því að leggja sjóðinn í rúst?

Ég skal ekki gera það að ádeiluefni þó að hæstv. ráðh. gæti ekki svarað fimmtu og síðustu spurningunni, þ.e. um það hvernig verði skipt milli lánaflokka útlánum sjóðsins á næsta ári. Þó hefði ekkert verið óeðlilegt að það lægi fyrir ef allt væri ekki á hverfanda hveli í fjármögnun sjóðsins. Að því leyti skil ég að hæstv. ráðh. á erfitt með að svara þessari spurningu.

En það, sem verst er við svör hæstv. ráðh., er að þau lýsa betur en mín orð hvert ástand þessara mála er og það er hörmulegt.

Ég vil svo — mér mun hafa láðst það í upphafi — leyfa mér að þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans við fsp.