16.12.1980
Sameinað þing: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1506 í B-deild Alþingistíðinda. (1550)

362. mál, húsnæðismál

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni, Friðrik Sophussyni og Magnúsi H. Magnússyni fyrir áhuga þeirra á húsnæðismálum og það innlegg sem þeir hafa komið hér með í þau mál þrátt fyrir knappan ræðutíma. Ég skil vel að erfitt sé að koma við málefnalegum aths. á þeim 2–4 mínútum sem menn eiga kost á því að ræða svona mál hér. Þannig er í sjálfu sér eðlilegt að það sé erfitt fyrir þá að fara út í þessi mál í smáatriðum. Ég held að við ættum að efna hér til almennrar umræðu um húsnæðismál síðar, en það er mjög erfitt að gera það í fsp.-tíma vegna þess að málið er viðurhlutamikið og stórt. Ég vil þó engan veginn víkjast undan því að taka þátt í umr. um þessi mál, vegna þess að ég er algerlega sannfærður um að þessi mál eru á réttri leið, gersamlega sannfærður um að ákvörðunin um hið félagslega íbúðabyggingakerfi er rétt.

Nú eru til í landinu 3500–3700 íbúðir byggðar á félagslegum grundvelli frá árinu 1929 þegar lögin um verkamannabústaði voru sett fyrst. Núna gerum við ráð fyrir að svo mikið fjármagn verði veitt í þetta að þetta magn íbúða tvöfaldist á næstu 5–7 árum. Ég er sannfærður um að eftir 10 ár eða svo, þegar byggðar hafa verið 500–600 íbúðir á ári á þessum grundvelli, muni þessar íbúðabyggingar gerbreyta húsnæðismarkaðnum í landinu og samsetningu hans.

Ég ætla ekki að fara út í þetta í smáatriðum vegna þess að ég veit að þm. vildu svara mér mörgu og hafa ekki ástæður til þess í þessum knappa fsp.-tíma. Ég vil þó aðeins segja það út af orðum hv. þm. Magnúsar H. Magnússonar, að talið um 100 milljarða kr. vöntun á hverju ári er algerlega út í hött að mínu mati. Ég spyr hv. þm., og við skulum ræða það einhvern tíma seinna nákvæmlega: Hvenær hefði ríkissjóður, hvenær hefði lánsfjárkerfið — ég spyr í hreinskilni — bolmagn til þess að trygg ja 100 milljarða á einu ári inn í húsnæðislánakerfið? Hvenær væri það mögulegt? Þessi uppsetning, eins og hún kemur þarna fram, stenst ekki í þessum efnum.

Það er verið að tala um að þarna vanti 100 milljarða á einu ári. Það er auðvitað algerlega fráleitt og stenst ekki. En ég vil segja það út af orðum hv. þm. um lífeyrissjóðina og kjörin á lánum þeirra, að þau eru ekki nógu góð og það verður að fara í það núna að ná nýjum og hagstæðari samningum við lífeyrissjóðina en nú er um að ræða.

Ég skal taka það aftur að hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson sé svo illa innrættur að hann óski eftir því, að allt húsnæðislánakerfið fari á annan endann og vá verði fyrir dyrum hjá húsbyggjendum í landinu. En einhvers staðar stendur það, að „falin er í illspá hverri ósk um hrakför sýnu verri,“og stundum finnst mér að þessir hlutir séu settir þannig upp að menn beinlínis geri ráð fyrir að þetta húsnæðismálakerfi gangi ekki upp og það geri menn á þeim forsendum að menn slá striki yfir Byggingarsjóð verkamanna og það sem þar er að gerast. Það er ekki hægt. Það verður að horfa á þessa heild og hvaða breytingu hún hefur í för með sér.

Ég ætla ekki að tala hérna lengur. Ég vona að við höfum tækifæri til að spjalla um þessi mál nánar og ítarlegar hér á Alþingi síðar.