16.12.1980
Sameinað þing: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1507 í B-deild Alþingistíðinda. (1551)

362. mál, húsnæðismál

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Aðeins örfá orð.

Ég er auðvitað sammála hæstv. félmrh. um að kjörin á lífeyrissjóðslánunum eru ekki nógu góð, því að það getur enginn sjóður lifað á því að taka lán með hærri vöxtum og til styttri tíma en hann lánar út. Það hlýtur að tæma sjóðinn, eins og reynsla er fyrir.

Ég hef aldrei talað um 100 milljarða á ári. Aftur á móti talaði ég um samtals 217 milljarða á næstu 10 árum og 490 milljarða á næstu 20 árum. Þetta er þannig. Það er fjárvöntunin og hún er reiknuð út af Þjóðhagsstofnun fyrir Húsnæðisstofnun ríkisins. Hæstv. félmrh. getur varla vefengt þær tölur. Vöntunin er, miðað við fjárlögin eins og þau eru núna sett upp og miðað við þær áætlanir sem gerðar hafa verið, verandi þó tveimur árum á eftir upphaflega frv., 25% á næsta ári, síðan 30%, 35% o.s.frv. Samt er viðbótarfjárvöntunin á hverju ári, þ.e. lántökuþörfin, á árinu 1982 5.9 milljarðar, verður 25.5 á tíunda ári, árinu 1990, og á árinu 2000 er vöntunin á einu ári 81.4 milljarðar á núverandi verðlagi. Ég er algerlega sammála hæstv. ráðh. um að það þýðir ekki að tala svona. Þetta er tóm vitleysa. M.ö.o.: kerfið er tóm vitleysa með þessari fjármálalegu uppsetningu.

(Félmrh.: Framreikningar Alþfl. eru tóm vitleysa.) Þetta er reiknað út fyrir húsnæðismálastjórn ríkisins af Þjóðhagsstofnun og miðað við verðlag í dag. Ef hæstv. ráðh. telur að hann geti bætt við 81.4 milljarði á hverju ári á núverandi verðlagi inn í kerfið, þegar að þessu kemur, fer hann villur vegar og þess vegna — einmitt þess vegna — stenst kerfið ekki. Útlánareglurnar eru ágætar, en það er ekki séð fyrir fjármögnun kerfisins.