16.12.1980
Sameinað þing: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1509 í B-deild Alþingistíðinda. (1555)

134. mál, kaup á togara til Þórshafnar og Raufarhafnar

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Þessi fsp. er borin fram af hv. þm. Ágúst Einarssyni og ég flyt hana áfram. Hann leyfði sér á þskj. 159 að bera fram fsp. til hæstv. sjútvrh. um kaup á togara til Þórshafnar og Raufarhafnar. Þar sem þetta mál hefur orðið nokkurt hitamál í fjölmiðlum tel ég rétt að upplýst verði um ýmis atriði þess þannig að staðreyndir liggi fyrir, en ekki getgátur einar. Fsp. er svohljóðandi:

„1. Hvert er kaupverð togarans?

2. Hve hár er breytingakostnaður við skipið eftir kaup?

3. Hvaða opinberir sjóðir lána til kaupanna, hve mikið og eftir hverra ákvörðun?

4. Hvað er framlag væntanlegra eigenda mikið?

5. Hefur verið lánað til útgerðarfélagsins vegna hlutafjárframlags?

6. Hve háa fjárhæð þarf að greiða árlega í vexti og afborganir af togaranum og hve mikið er áætlað árlegt aflaverðmæti togarans?“

Mig langar í framhaldi af fsp. að varpa fram tveimur eða þremur atriðum í sambanúi við þetta mál.

Það er samdóma álit allra sem vilja vita, að togaraflotinn er of stór nú þegar og sérhver nýr togari gerir ekkert annað en rýra lífskjör sjómanna og fiskvinnslufólks. Það er einnig mikið vafamál, hvort atvinnumál á Þórshöfn og Raufarhöfn séu leyst til nokkurrar frambúðar þótt togari komi þangað. Menn minnast útgerðar Fonts frá Þórshöfn sem gekk mjög illa, en útgerð þess sama skips hefur síðar gengið vel frá öðru byggðarlagi. Ég minni á að togaraútgerð er mjög mismunandi eftir því frá hvaða stað hún er rekin. Dæmi um þetta er uppgangsstaðurinn Hornafjörður, en ekki er vilji til að gera út togara þaðan. Það hefði því væntanlega verið hægt að leysa vandamálið með öðru en togara. Einnig er vert að spyrjast fyrir um hvort aðrir staðir, sem búa ekki síður við öryggisleysi um atvinnu en Þórshöfn og Raufarhöfn, mega eiga von á togurum með svipaðri fyrirgreiðslu. Og í framhaldi af því væri fróðlegt að vita hvort eitthvað sé hæft í þeim fréttum, að aðilar í kjördæmi sjútvrh. séu um þessar mundir að huga að kaupum á togara í Frakklandi.