16.12.1980
Sameinað þing: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1513 í B-deild Alþingistíðinda. (1558)

134. mál, kaup á togara til Þórshafnar og Raufarhafnar

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Þá heyrir maður hvernig hv. þm. Magnús H. Magnússon ætlar sér að leysa brýna þörf þeirra Vestmanneyinga fyrir ný fiskiskip nýja línuveiðara, nýja línu- og netabáta sem koma þurfa í staðinn fyrir úrelt skip í Vestmannaeyjum — með hvaða hætti hann ætlar sér að halda við þeim skipastofni, sem við höfum á landinu í dag og höfum brýna þörf fyrir ný fullkomin skip vegna þess að þróun í fiskiskipasmíði heldur áfram. Ég vona að úrræði hv. þm. Magnúsar Magnússonar bitni ekki á öðrum en Sunnlendingum því að hráefnis verður ekki aflað til frystihússins á Þórshöfn með þeim hætti að selja þó sennilega það nýtilegasta og skásta úr íslenska bátaflotanum til vanþróaðra þjóða.

Það er alveg rétt, að útgerðin á Fontinum brást á Þórshöfn af ákaflega skiljanlegum ástæðum. Selt var skip nýkomið úr klössun, svikinni klössun, ónýtt skip. (Gripið frem í: Það var sokkið.) Það hafði sokkið. Að vísu þó ekki tvisvar eins og okkar hv. þm. Árna Gunnarssyni var einu sinni sagt. Það hafði sokkið einu sinni, var keypt í braski til Suðurnesja á sínum tíma, batnaði ekki í hirðuleysinu þar, en var síðan selt fyrir milligöngu ríkisstj. og banka 1977 til Þórshafnar.

Það kann að orka nokkuð tvímælis hvort kaup á þessum norska togara séu rétta úrræðið til hráefnisöflunar fyrir þá Þórshafnarbúa í frystihúsið sitt.

Við höfum rökstudda ástæðu til að ætla að kannske hefði mátt afla ódýrara togskips en þess arna. En þeir verða að fá skip sem dugir til þess að bæta 3 þús. tonnum af bolfiski við ársaflann ef þetta pláss skal blífa. Það er ábyggilegt.