16.12.1980
Sameinað þing: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1516 í B-deild Alþingistíðinda. (1562)

134. mál, kaup á togara til Þórshafnar og Raufarhafnar

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Síðasti hv. ræðumaður sagði að þetta mundi vera eitt mesta fjármálahneyksli sem hefði skeð. Ég vil bara benda hv. þm. á að líta sér nær. (KSG: Hvað áttu við?) Það er nú ekki tími til þess að ræða það mál. (KSG: Hvað áttu við?) Ég á við útgerðarfyrirtæki í Keflavík. (KSG: Hvað er það?) Hv. þm. Kjartan Jóhannsson sagði áðan að það hefði verið hægt að leysa þetta á annan veg. Ég vil bara minna hann á það, að önnur var afstaða hans þegar verið var að kaupa togara til Hafnarfjarðar.

Það, sem hefur ekki komið fram í þessu máli, er það, að fyrir Norðausturlandi er stórt svæði sem er algerlega bannað að toga á og þar af leiðandi verður að sæk ja á mið sem eru langt, langt frá. Af þessari ástæðu einni er eðlilegt að eitthvað sé gert fyrir þetta byggðarlag. Svo er líka önnur saga á bak við þessi kaup, nefnilega sú, að íbúar þessara byggðarlaga voru næstir í röðinni að fá leyfi fyrir togara og þá voru þeir neyddir til að kaupa annaðhvort ekkert skip eða kaupa skipið sem þeir keyptu, Suðurnes, sem var skírt Fontur.

Því miður er enginn tími til að ræða þessi mál hér. En ég sé ástæðu til að þakka ríkisstj. og Framkvæmdastofnun fyrir þátt þeirra í að leysa þetta mál. Ég vona að sú stund renni ekki upp, að þm. Norðurl. e. geti ekki horft kinnroðalaust framan í hvern sem er — hvort sem hann er á Reykjanesi eða annars staðar — vegna þessara kaupa. Við höfum allir staðið að þessu máli, hinir kjörnu þm. í Norðurlandskjördæmi eystra.