16.12.1980
Sameinað þing: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1516 í B-deild Alþingistíðinda. (1563)

134. mál, kaup á togara til Þórshafnar og Raufarhafnar

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Stjórn Framkvæmdastofnunar hefur sent frá sér fréttatilkynningu um þetta mál, sem birtist í blöðunum fyrir skemmstu, og ég vil vísa til hennar. En því til áréttingar vil ég segja að fyrir nokkrum árum samþykkti stjórn Framkvæmdastofnunarinnar að ósk þáv. ríkisstj. að lána ekki út á innflutt skip. Þessari ákvörðun hefur stjórn stofnunarinnar ekki breytt.

Eins og hv. þm. Friðrik Sophusson minntist á áðan, þá á ekki að þurfa í þessu máli að velta því á milli sín, hver átti forgöngu um þessi kaup. Að sjálfsögðu komu þau frá ríkisstjórnarborði. Það liggur í hlutarins eðli af öllum upplýsingum sem fyrir liggja í málinu. Ákvörðunin um skipið kom þaðan og ósk til stjórnar Framkvæmdastofnunarinnar um að greiða fyrir þessum 20%.

Ríkisstj. er yfirstjórn Framkvæmdastofnunar og þá skoðast afstaða stjórnar Framkvæmdastofnunarinnar í ljósi þess. En ég vil taka þetta fram: Að sjálfsögðu er það hlutverk Framkvæmdastofnunarinnar að greiða fyrir atvinnuuppbyggingu um allt land, og viðræður norðanmanna við stjórn Framkvæmdastofnunar voru vinsamlegar. En í þeim viðræðum kom fram að kaupverð togarans væri miklum mun lægra heldur en nú liggur á borðinu. Þar var aðeins talað um á annan milljarð, í hæsta lagi tvo. En það eru allt aðrar tölur sem liggja fyrir í dag. Og ég vil vísa til þess í því sambandi, að stjórn Framkvæmdastofnunar var nú nýverið að greiða fyrir togarakaupum innbyrðis á Reykjanesi. Ágætu skipi, sem fyrir lá að færi af svæðinu, var haldið þar kyrru með stuðningi Framkvæmdastofnunar, og þar var aðeins um að ræða liðlega milljarð.

Ég endurtek: Að sjálfsögðu hlýtur hlutverk Framkvæmdastofnunar alls staðar að vera að greiða fyrir atvinnumálum. En við skulum ekki vera að deila um hver átti frumkvæðið að þessum kaupum. Það er ríkisstj. sjálf. Síðan skulum við hugleiða að það er komið að því að afgreiða fjárlög og staða Byggðasjóðs er nú slík, ef ekki fæst leiðrétting við 3. umr. fjárlaga á fjármagni til sjóðsins, að hann er á næsta ári algerlega vanmegnugur að sinna sínu hlutverki.