16.12.1980
Sameinað þing: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1517 í B-deild Alþingistíðinda. (1564)

134. mál, kaup á togara til Þórshafnar og Raufarhafnar

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Við þurfum nýja fiskveiðistefnu, þar sem landshlutunum er ætlað visst aflahlutfall í þeim þorski sem berst á land. Það er fráleit stefna að halda því fram, að vissum sjávarþorpum á Íslandi eigi ekki að vera frjáls aðgangur að hafinu. Hún gengur ekki upp.

Hv. 5. þm. Suðurl. mætti hugsa til útgerðar frá Selfossi í dag á togara.

Ég vil bæta þessu við það sem hér hefur verið sagt um innflutning á skipum: Eru menn reiðubúnir að leggja þann skatt á sjávarútveginn, að hann þurfi að borga aukalega einn milljarð með hverjum togara vegna þess að hann er byggður innanlands? Eru menn reiðubúnir að leggja þann skatt á sjávarútveginn og ef menn eru ekki reiðubúnir að leggja þann skatt á sjávarútveginn, eru menn þá reiðubúnir að taka þann milljarð úr ríkissjóði og borga hann með þeirri innlendu skipasmíði, sem hér á sér stað? Þessu verða menn að svara, því að ákvörðun um það að banna innflutning á skipum er ákvörðun um að neyða íslenska útgerðarmenn til að kaupa skip á miklu hærra verði en þeir eiga kost á með öðru móti.