16.12.1980
Sameinað þing: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1517 í B-deild Alþingistíðinda. (1565)

134. mál, kaup á togara til Þórshafnar og Raufarhafnar

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég endurtek að ég tel að hér sé á ferðinni eitt meiri háttar fjármálahneyksli sem ríkisstj. er frumkvöðull að. Framkvæmdastofnun á ekki hlut þar að máli, það er alveg ljóst, eins og kom fram hjá formanni stofnunarinnar. Og þar er annað sem væri gott að fá upplýst og hvíslað er hér manna á milli. Er það rétt, að borist hafi tilboð um togara sem kostaði einum milljarði minna en sá togari sem nú er verið að kaupa?

Ég vil geta þess í sambandi við þau orð formanns Framkvæmdastofnunar, að á síðasta fundi hafi verið greitt fyrir togarakaupum á Reykjanesi, að þar var Framkvæmdastofnun fyrst og fremst að hugsa um eigið fyrirtæki sem keypti 1/4 af þeim togara til þess að halda fyrirtæki gangandi sem Framkvæmdastofnun sjálf á. Annað skeði ekki þar.

Ég endurtek að ég er mjög andvígur þessum kaupum. Ég held að þessi kaup séu ekki til góðs fyrir þau byggðarlög nyrðra sem eiga við atvinnuvandamál að stríða. Það mun sagan segja okkur seinna. Og það sem verra er, með þessu er verið að ráðast á lífskjör sjómannastéttarinnar í landinu á svívirðilegasta hátt. Það er verið að rýra þau yfir heildina, því að það er útreiknanlegt, að því fleiri togarar, því fleiri skrapdagar fyrir hina sem eftir eru.1565