16.12.1980
Sameinað þing: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1517 í B-deild Alþingistíðinda. (1566)

134. mál, kaup á togara til Þórshafnar og Raufarhafnar

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hv. 6. þm. Suðurl., sem er formaður stjórnar Framkvæmdastofnunarinnar, það sem hann minnti þm. á hvernig ástand og horfur eru með framkvæmda- eða útlánafé Framkvæmdastofnunarinnar á næsta ári. Í fjárlagafrv. þrengir ríkisstj. verulega þetta ráðstöfunarfé með því að draga úr lögbundnum framlögum. Þróunin hefur orðið sú, að í staðinn fyrir að greiða 2% af gjaldahlið fjárlaga, sem var 1977, er þetta komið núna niður í 0.7% í fjárlagafrv. fyrir þetta ár og sömuleiðis í fyrra.

Þrepin hafa verið þessi: frá 2 niður 1.5, síðan í 1.2 og þar næst í 1.6. Það eru líka uppi áform frá ríkisstj. í fjárlagafrv. um að gera Byggðasjóði skylt að taka 3150 millj. að láni erlendis. Síðan á að lána slíkt fjármagn til togarakaupa. Þegar vitað er að Fiskveiðasjóður er að hækka kröfu sína um að tekið sé allt að 20% af brúttóafla þessara togara, þá getur hver maður séð að þau útlán, sem eiga sé stað til togara, það fjármagn fæst aldrei til baka. Það sjáum við og vitum fyrir fram. Ef á að halda uppi innlendri skipasmíði í landinu verður auðvitað að breyta hér um stefnu, en ekki með þessu hætti.

Ég vil líka að það komi fram, að átta togarar, sem smíðaðir hafa verið innanlands á undanförnum árum, eru núna í vanskilum við Byggðasjóð einan upp á 1026 millj. í afborgunum og vöxtum fyrir utan dráttarvexti. Þessi þróun heldur áfram og hér verður vitaskuld að sporna við fæti og breyta um stefnu. Ef á að halda þessari innlendu skipasmíði áfram verður auðvitað að fá henni fjármagn beint, sem kemur þá til lækkunar á þeim skipum sem smíðuð eru innanlands, en ekki breyta því á þennan hátt og láta sjóðina brenna upp með þessum hætti, eins og núv. hæstv. ríkisstj. hefur verið að gera og er að gera með þessu fjárlagafrv. En tækifæri gefst í lok þessarar viku fyrir þm. að standa trúan vörð um Byggðasjóð, og þá sjáum við hverjir eru með honum og hverjir eru á móti.