27.10.1980
Neðri deild: 6. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

19. mál, listskreytingar opinberra bygginga

Flm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 20, frv. til l. um listskreytingar opinberra bygginga, er nær samhljóða frv. sem sömu flm., þ.e. Halldór Blöndal, Ólafur G. Einarsson og ég, fluttu á síðasta þingi. En þá var nokkuð liðið á þingtímann og frv. fékk ekki afgreiðslu. Því var vísað til hv. menntmn. þessarar d. sem óskaði eftir umsögn nokkurra aðila, en þær bárust ekki fyrir þinglok og n. skilaði ekki áliti.

Frv. er því nú tekið upp að nýju. Í umr., sem um það urðu á síðasta þingi, fékk það góðar undirtektir, m.a. hæstv. menntmrh. svo og þeirra þm. sem tjáðu sig um málið.

Í lögum um skólakostnað og svo síðar í lögum um grunnskóla hafa verið heimildarákvæði um það, að verja mætti allt að 2% af áætluðum stofnkostnaði skólamannvirkis til listskreytinga. Áður en slíkt ákvæði var sett í lög, en það var 1967, höfðu ýmsar skólabyggingar verið listskreyttar með þessum hætti. Þar má t.d. nefna lágmyndir Ásmundar Sveinssonar á Austurbæjarbarnaskólanum, sem er eitt af fyrstu verkum sinnar tegundir hér á landi. Enn fremur má nefna málverk Jóhanns Briem í Laugarnesskóla, veggskreytingar Barböru Árnason í Melaskóla og mósaíkmyndir Valtýs Péturssonar í kennaraháskólahúsinu við Stakkahlíð.

Þessar heimildir hafa vafalaust örvað nokkuð til listskreytinga í skólum. En hins vegar kom það í ljós þegar flutt var fsp. um málið á Alþ, í apríl s.l., sem hæstv. menntmrh. svaraði, að þessar heimildir höfðu ekki verið nýttar nema í tiltölulega fáum tilvikum og alls ekki í eins ríkum mæli og æskilegt væri.

Frv. það, sem hér er flutt, gerir ráð fyrir allmikilli breytingu á þeim lagaákvæðum sem um þetta gilda. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir skyldu í stað heimildar áður, en hundraðshluti stofnkostnaðar hins vegar gerður nokkru sveigjanlegri og talað er um 1–2% af stofnkostnaði í þessu sambandi.

Gert er ráð fyrir að þessari fjárhæð megi verja jafnt til listskreytinga utanhúss og innan, sem verði hluti af mannvirki, til listaverks sem sé hannað og byggt sem hluti af mannvirki eða til kaupa á lausum listaverkum sem komið sé fyrir í byggingunni eða á lóð hennar.

Það er gert ráð fyrir að þessi skylda nái ekki aðeins til skólabygginga eins og heimildin áður, heldur til annarra opinberra bygginga, og hvað átt er við með opinberri byggingu er nánar skilgreint í 1. gr. þessa lagafrv. Ég tek það sérstaklega fram vegna ummæla sem urðu um þetta á síðasta þingi, að hér er ekki átt við mannvirki í víðasta skilningi þess orðs, ekki t.d. brýr eða þess háttar, heldur fyrst og fremst húsbyggingar.

Það er trú okkar, sem flytjum þetta frv., að með listskreytingu opinberra bygginga vinnist margt. Þjóðin verður ríkari af listaverkum og með því að tengja þau opinberum byggingum er þeim komið fyrir á stöðum þar sem margir fara að jafnaði um og margir geta notið þeirra. Íslenskir listamenn fá á þann hátt kærkomið tækifæri til að vinna að list sinni. Ég er í engum vafa um það, að hér er um miklu æskilegri leið að ræða heldur en svokallaða styrki hins opinbera til listamanna, enda sýnir reynslan að íslenskir listamenn, sem fengið hafa slík verkefni hafa unnið þau af alúð og samviskusemi. Slík listaverk verða áður en varir ómissandi hluti af umhverfi sínu, og fljótlega gleymast umræður um kostnað þegar menn hafa slík listaverk fyrir augunum sem hluta af daglegu umhverfi.

Í Noregi mun sú leið hafa verið farin í þessu efni að skylda opinbera aðila til að verja fjármagni í þessu skyni. Við flm. teljum að það standi fáum aðilum nær í þjóðfélaginu að ýta undir listsköpun á þennan hátt en einmitt ríki og sveitarfélögum, og því sé árangursríkast að skylda þessa aðila til að verja hluta af byggingarkostnaði til listskreytinga.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um frv. á þessu stigi, en um það fóru fram nokkrar umr. hér í hv. d. 30. apríl s.l. þegar frv. var þá til umr.

Ég legg til að frv, verði vísað til menntmn. og 2. umr. að þessari umr. lokinni.