16.12.1980
Efri deild: 32. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1530 í B-deild Alþingistíðinda. (1584)

157. mál, nýbyggingargjald

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um afnám nýbyggingargjalds, en frv. þetta hefur þegar verið afgreitt af hv. Nd. Ég trúi ekki öðru en að það gleðji hjörtu flestra þm., að hér er gerð till. um að fella niður skatt sem ekki er sérstaklega vinsæll.

Það er nú svo, að flestir þeir skattar, sem ákveðnir eru, lifa góðu lífi áfram og miklu fremur að krógarnir stækki og vaxi, eins og hér var nýlega rætt um, en hitt, að þeir séu aflífaðir. En í þessu tilviki er sem sagt ætlunin að afnema þennan skatt, og ég vænti þess, að samstaða verði um það.

Ég leyfi mér að leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.