16.12.1980
Neðri deild: 32. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1534 í B-deild Alþingistíðinda. (1607)

118. mál, Lífeyrissjóður barnakennara og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það er fróðlegt að það liggi fyrir, að þetta mál hefur ekki verið sent út til umsagnar. Og það er dæmi um þá færibandavinnu sem er verið að færa hér inn í þingið.

Ég fékk heldur ekkert svar við því, hvernig verður háttað stjórn þessa sjóðs eða hvort þar er alls ekki áformuð nein breyting. Mér er ljóst að í allsherjarkjarasamningum er hægt að semja um ýmsa hluti. En ég vil undirstrika það, að ég veit ekki til þess, að fulltrúar, sem þar voru kosnir til samningagerðar, hafi fengið það sem veganesti að þeim væri falið sérstaklega umboð til að leggja niður Lífeyrissjóð barnakennara.