16.12.1980
Neðri deild: 32. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1535 í B-deild Alþingistíðinda. (1613)

148. mál, almannatryggingar

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Þetta frv. er flutt í tengslum við frv. um fæðingarorlof, sem ég auðvitað styð þó að mér finnist það á ýmsan hátt verra en það frv. sem ég lagði fram á hinu háa Alþingi s.l. vetur um sama efni. Ég verð, herra forseti, að fá að ræða það frv. um leið og þetta, því að brtt., sem ég tala hér fyrir, er í beinum tengslum við sjálft fæðingarorlofsfrv. Ég á fyrst og fremst við tvennt þegar ég tala um að það sé að sumu leyti verra en það frv. sem ég lagði fram. Annars vegar það, að mér finnst „prinsipiett“ rangt að greiða mismunandi bætur frá Tryggingastofnun ríkisins vegna svipaðra kringumstæðna eins og nú er gert. Hins vegar tel ég fráleitt að atvinnurekendur skuli nú engan þátt eiga að taka í greiðslu fæðingarorlofs. Hugmyndir mínar voru þær, að atvinnurekendur greiddu rúmlega helminginn af heildarkostnaðinum, en ríkissjóður afganginn.

Með því frv., sem nú er lagt fram um fæðingarorlof, borgar ríkissjóður allan brúsann án þess þó að gert sé ráð fyrir því í fjárlögum. Og ekki nóg með það, að atvinnurekendur losni við að greiða kostnað vegna þessa nýja frv., heldur eru þeir einnig losaðir undan því að greiða það sem þeir hafa hingað til greitt, samið um og greitt. Það er mikill höfðingsskapur hjá núv. hæstv. ríkisstj. í garð atvinnurekenda. Sá sami höfðingsskapur lýsir sér reyndar á fleiri sviðum, t.d. í sífellt lækkandi hlut atvinnurekenda í tekjuskatti til ríkissjóðs á kostnað launþega, bæði í fjárlögum yfirstandandi árs og í frv. til fjárlaga fyrir 1981. Hann gæti orðið ansi langur, listinn sem hæstv. fjmrh. gæti nú lesið upp yfir tekjuskattslaus stórfyrirtæki, og sum þeirra á almannavitorði mikil gróðafyrirtæki, en það var, eins og hv. þm. muna, uppáhaldsiðja hans hér áður fyrr að lesa upp slíka lista. — En þetta er útúrdúr.

Mér er sagt að ekki þýði að leggja fram brtt. í þá átt, að atvinnurekendur greiði eitthvað af kostnaði við fæðingarorlofið, um það hafi verið samið úti í bæ, Alþingi geti þar engu breytt. En ég á bágt með að trúa því, að samið hafi verið um að þeir losnuðu við allar þær skyldur sem þeir sjálfir hafa samið um áður og greitt fram að þessu.

Á hinn bóginn finnst mér fráleitt að útivinnandi mæður missi rétt til orlofs og rétt í lífeyrissjóðum fyrir þann tíma sem þær njóta fæðingarorlofs. Þess vegna styð ég frv. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur o.fl. á þskj. 203 sem leiðréttir þetta. En sú leiðrétting mun kosta um það bil 450 millj. kr. á ári.

Enn fremur hefur Jóhanna Sigurðardóttir flutt eða kemur til með að flytja frv. á þskj. 274 sem mildar framkvæmd þess og dregur úr því misrétti sem upp kæmi, að kona sem fæðir klukkutíma fyrir miðnætti fái ekkert, en sú sem fæðir kl. 10.05 fái fullar bætur samkv. nýja frv.

Til að standa undir aukakostnaði af þessum tveimur till. hef ég leyft mér að flytja brtt. á þskj. 266, sem er brtt. við það frv. sem hér er til umr. og fjallar um það, að þáttur atvinnurekenda verði ekki 2%, heldur 2.1%, og er það miðað við launaskattsstofn. En þetta 0.1% gerir meira en að standa undir kostnaði af þessum tveimur brtt. sem ég hef hér um rætt.