16.12.1980
Neðri deild: 32. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1540 í B-deild Alþingistíðinda. (1620)

147. mál, almannatryggingar

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það urðu nokkrar orðahnippingar út af afgreiðslu á þessu máli hér í gær, sem enduðu á þann veg, að nefndin kom saman aftur til fundar í morgun. Það er kannske rétt að vekja athygli á því, að alltaf er betra að flýta sér hægt og reyna að ná sem víðtækustu samkomulagi um mál, og þá alveg sérstaklega þegar vilji er fyrir hendi hjá öllum að reyna að afgreiða mál eins og þetta.

Ég skrifa undir nál. án fyrirvara, en áskil mér eins og aðrir nm. rétt til þess að flytja brtt. eða fylgja öðrum sem fram kunna að koma. En ég vil taka það fram, að ég tel að þetta frv. hefði þurft að fá miklu betri umfjöllun í nefnd. Þarna eru mikilvæg atriði sem hefði þurft að fjalla betur um.

Hv. síðasti ræðumaður er ekki einn um þá skoðun, við teljum margir aðrir að það eigi að jafna fæðingarorlofið. Það er vandasamt verk sem hæstv. ráðh. fær upp í hendurnar við afgreiðslu þessa máls eins og það liggur fyrir. Í 1. gr. segir að fæðingarorlof greiðist úr lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins gegn framvísun vottorðs læknis og sönnunar um launagreiðslur og atvinnuþátttöku viðkomandi samkv. nánari reglum er ráðh. setur í reglugerð. Það vill nú svo til að ég stóð í þeim sporum, þegar afgreitt var hér afar fljótlega frv. um fæðingarorlof sem lagt var á atvinnuleysistryggingarnar, að þurfa að búa til reglugerð. Þar urðu æðimörg ljón á veginum og margir árekstrar, og ég veit að hæstv. trmrh. á eftir að standa í ýmsu stappi þegar kemur að því að semja reglugerð í samræmi við þetta frv. Ég er sannfærður um að þá mun margt koma þar í ljós sem jafnvel þarf fljótlega á lagabreytingu að halda.

Varðandi till. þá, sem hv. 10. landsk. þm. flytur ásamt hv. 5. þm. Suðurl., þ.e. um ákvæði til bráðabirgða, þá fer ekki hjá því að hægt verði að tala um ranglæti þegar breytingin kemur til framkvæmda á ákveðnum degi. Það er alveg sama þó við færum það enn aftar, um hálfan mánuð eða þrjár vikur, það er einhvers staðar dagsetning þar sem verður að setja mörkin. Og þá er auðvitað auðvelt að túlka þetta á þennan hátt og færa rök fyrir því, að þetta ranglæti sé fyrir hendi. En það verður ekki hjá því komist að þetta ranglæti verði einhvers staðar, ef við viljum endilega kalla það ranglæti.

En nú er hér um að ræða að gera enn meira átak af hálfu samfélagsins til að koma til móts við launþega í landinu og aðra sem koma til með að njóta þessara laga. Og þá finnst mér ekki fara vel á því — þegar verið er að framkvæma mál sem búið er að vera alllengi í undirbúningi og aðilar vinnumarkaðarins hafa t.d. mikið átt saman að sælda um — að tala um ranglæti í sömu andránni. Þó að ég geti að mörgu leyti tekið undir rök þm. geri ég mér ljóst að einhvers staðar verða þessi mörk að vera. Og ég held að með ákvæðum til bráðabirgða, sem nefndin leggur til og runnin eru undan rifjum forstöðumanns Atvinnuleysistryggingasjóðs, er samdi þetta bréf, eða komin eru frá Atvinnuleysistryggingasjóði, getum við sagt, hafi fundist viðunandi lausn á þessum vanda.

Ég ætla ekki að flytja hér langt mál, þó að það væri að mörgu leyti ástæða til þess. En ég vil aðeins út af hinu frv., sem var afgreitt til 3. umr. — af því þetta eru skyld frv. og ekki ástæða til að taka til máls um bæði frv., — nefna það, að það var mjög óskýrt fjallað í fskj. með þessu fæðingarorlofsfrv. um kostnaðinn. Það er í sambandi við fjármögnunina tilgreindur kostnaður upp á tæpa 3.6 milljarða, en þá er miðað við septemberverðlag svo að hér er um mun hærri tölu að ræða. Og því er skipt á þann veg, að ríkissjóður greiði helming og atvinnurekendur helming. Það reyndist afar erfitt að fá skýringu á þessu. Ég fékk skýringu á því fyrst í dag, eftir að ég skrifaði undir nál., því að það eru allir að flýta sér svo óskaplega mikið. Þá fengum við loksins skýringuna, að hlutdeild atvinnurekstrarins til lífeyrisgreiðslnanna á að aukast úr 14 í 16% eða um 2% vegna þessa, sem hefði auðvitað gjarnan mátt liggja fyrr fyrir. En þetta er eitt dæmi þess þegar verið er að knýja mál áfram á síðustu stundu.

Varðandi hina till., sem hv. 10. landsk. þm. flytur ásamt fleirum um orlof og lífeyrisgreiðslur og fleira, þá kom það fram hjá einum gesta á fundi nefndarinnar í gær, að hann taldi rétt að einhvers staðar ætti að byrja í þessu kerfi að taka upp þessar greiðslur til lífeyrissjóða og orlofsgreiðslur, og sagði að auðviðtað mætti alltaf segja að þetta ætti að koma yfir á heildina eða á tryggingabætur almennt. En hann taldi, þessi fulltrúi, að það mætti mjög gjarnan ná því í sambandi við fæðingarorlof.

Ég vil segja það varðandi þá till. sem fyrir liggur, að ég get ekki fallist á hana, ekki af því að ég sé alfarið á móti því, að þetta verði tekið upp, heldur af hinu, að ég álít það meira réttlætismál og frekar aðkallandi að taka álíka upp í sambandi við sjúkratryggingarnar heldur en þessar tryggingar, án þess að ég sé að segja að það sé rangt sem till. þeirra félaga gengur út á. En á meðan þetta er ekki komið lengra treysti ég mér ekki fyrir mitt leyti til að fallast á samþykkt þeirrar tillögu.

Ég geri mér ljóst að þetta frv. hefur í för með sér gífurlegar hækkanir, bæði fyrir ríkissjóð og atvinnureksturinn í landinu. Við verðum líka að hugsa um það, þó að við séum barmafull af réttlætiskennd, að kunna fótum okkar forráð. Og ég tel meira virði að standa við áður gerðar samþykktir Alþingis á ýmsum sviðum í félags- og menningarmálum en að hopa þar og brjóta lög — eins og víða er í framkvæmd — bara til þess að reyna að gera nóg að því að samþykkja ný lög og nýjar kvaðir sem er ofviða að standa undir. Þetta má ekki taka á þann veg, að ég sé eitthvað verri en aðrir menn, allir viljum við gera það besta í þessum efnum, en við verðum að hugsa um hvaða möguleikar eru á því að standa við það. Og það er betra að láta eitthvert réttlætismálið bíða enn um hríð heldur en að stíga skref til baka eftir að Alþingi hefur lögfest það.