16.12.1980
Neðri deild: 32. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1541 í B-deild Alþingistíðinda. (1621)

147. mál, almannatryggingar

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Eins og hér hefur komið fram er þetta mál hluti af samningsgerð, sem átti sér stað á s.l. hausti, og allmikilvægur þáttur í þeirri samningsgerð.

Mig langar til að spyrja nú strax við þessa umræðu hvort leitað hafi verið álits t.d. fulltrúa Alþýðusambandsins á þessu ákvæði til bráðabirgða, hvort þetta ákvæði túlki það sem um var samið að þeirra áliti. Ég tel mjög miklu skipta hvort þeir aðilar, sem að þessu samkomulagi stóðu, t.d. fulltrúar Alþýðusambandsins, telja að með þessu bráðabirgðaákvæði sé verið að túlka það samkomulag sem gert var. Ég tel að svo sé ekki. Ég tel að með þessu bráðabirgðaákvæði, eins og lagt er til á þskj. 259, sé í raun og veru verið að brjóta það samkomulag sem gert var í sambandi við fæðingarorlofið. Þess vegna þætti mér vænt um ef hægt væri að fá við því svör, hvort fyrir lægi afstaða t.d. Alþýðusambandsins til þessa bráðabirgðaákvæðis.

Mikið hefur verið talað um það hér, að lög ættu ekki að verka aftur fyrir sig, þau ættu að gilda frá gildistíma. Ég tek að sjálfsögðu undir það. Í þeirri brtt., sem Jóhanna Sigurðardóttir flytur og Magnús H. Magnússon, er ekki um það að ræða, að verið sé að tala um afturvirkni laga. Það er einungis verið að tala um það, að þann hluta fæðingarorlofs, sem viðkomandi einstaklingur á rétt á og fellur til greiðslu eftir áramót, eftir að lögin hafa tekið gildi, fái hann í samræmi við hina nýju löggjöf, þ. e, þann hluta sem eftir stendur þegar lögin taka gildi. Hinn hlutinn, sem útrunninn er fyrir gildistökuna, greiðist að sjálfsögðu samkvæmt hinu eldra fyrirkomulagi. Hér er því alrangt með farið þegar verið er að tala um að með þessari brtt. sé ætlast til að lögin verki aftur fyrir sig. Það er einungis verið að ræða um það, að frá og með 1. jan. fái þessir einstaklingar greiðslu samkv. hinum nýju lögum á þeim hluta af fæðingarorlofi sem þá er eftir að greiða.

Ég ítreka að mér þætti vænt um ef ég gæti fengið um það upplýsingar, hvort t.d. ASÍ hefur verið spurt um afstöðu til ákvæðis til bráðabirgða eins og heilbr.- og trn. leggur til í sinni brtt. að það verði haft. Og ég ítreka að ég tel að með þessum hætti sé verið að brjóta það samkomulag sem gert var, og hér sé um svo mikla mismunun og svo mikið ranglæti að ræða gagnvart þeim einstaklingum, sem hér eiga hlut að máli, að það sé vart sæmandi Alþingi að ganga frá málinu með þessum hætti.