17.12.1980
Efri deild: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1551 í B-deild Alþingistíðinda. (1652)

147. mál, almannatryggingar

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það eru örfá orð út af þeim ræðum sem hér hafa verið haldnar. Ég vil í fyrsta lagi minna á það, sem ég sagði áðan, að sú greiðsla á mánuði hverjum, sem gert er ráð fyrir, er allmiklu hærri en umsamin laun almennra verkalýðsfélaga í landinu fyrir dagvinnu, þannig að það er í rauninni hægt að líta svo á að gert hafi verið ráð fyrir að innifaldir í þessum tölum séu ýmsir þættir í félagslegum tryggingum af öðrum toga en hér voru ræddir af hv. 3. landsk. þm. Auk þess er það auðvitað þannig, að það orkar mjög tvímælis að það sé skynsamleg og rétt stefna að borga orlof á orlof ofan. Ég held að menn ættu að staldra við áður en þeir taka ákvörðun um að gera slíkt, og ættu að reyna að átta sig á því, til hvers það getur leitt.

Varðandi umr. af hálfu hv. 3. landsk. þm. verð ég að segja það, að ég undrast margt af því sem þar kemur fram. Ég vil í fyrsta lagi algjörlega vísa því á bug, að það sé neitt annað í því máli, sem hér liggur fyrir, en það sem um var samið við verkalýðshreyfinguna og um rætt við hana, að öðru leyti en ákvæði til bráðabirgða sem fjallar um það eitt hvernig kerfin mætast. Ég held að menn ættu að geta komið sér saman um slíkt tæknilegt atriði, hvernig því verði fyrir komið, án þess að fara að kasta sér í flokkspólitískar skotgryfjur. Staðreyndin er sú, að það er hægt að koma þessu fyrir á ýmsan hátt. Aðalatriðið er að skiptin séu hrein og skýr og að enginn vafi leiki á því, hvorum megin réttur manna liggur í þessum efnum.

En vegna ummæla hv. þm. áðan um að hann mótmælti þessu bráðabirgðaákvæði fyrir hönd Verkamannasambands Íslands vil ég inna hann eftir því, hvenær haldinn var stjórnarfundur í Verkamannasambandi Íslands til að fjalla um þetta bráðabirgðaákvæði.