17.12.1980
Efri deild: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1553 í B-deild Alþingistíðinda. (1659)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Tilefni þess, að ég kveð mér hljóðs utan dagskrár, er fréttatilkynning frá iðnrh. um verðlag á súráli, annars vegar útflutningsverð frá Ástralíu og hins vegar verð til ÍSALs. Ég tel að þessar upplýsingar gefi vissulega tilefni til þess, að þetta mál sé rætt, og þær gefa vitaskuld tilefni til þess, að almennar viðræður séu hafnar við ÍSAL, eins og segir í öðrum lið fréttatilkynningarinnar.

Vitaskuld ber að nýta hvert tækifæri sem gefst til þess að ná fram hagstæðari samningum við þetta fyrirtæki. Iðnrh. hlýtur eðlilega á hverjum tíma að hafa frumkvæði í þeim efnum, enda getur hann á hverjum tíma best metið hverjir möguleikarnir séu. Það er vitaskuld líka rétt, að Alusuisse fái tækifæri til að koma fram skýringum við þetta mál, eins og ráðh. og ríkisstj. hafa gert ráð fyrir, þótt frestur virðist hafa verið nokkuð stuttur, einkum með tilliti til þess, að hér virðist vera um 5 til 6 ára tímabil að ræða.

Það kemur í ljós, að í umsögnum ráðh. um þetta mál í fjölmiðlum margtekur hann fram, að þó þetta yfirlit sé birt sé of snemmt að fullyrða nokkuð og auðvitað sé ekki hægt að dæma um útkomu málsins á þessu stigi og hann vilji ekki kveða upp neina endanlega dóma. Það var margtekið fram í þeim fréttaviðtölum sem við hann voru höfð í útvarpi og sjónvarpi í gærkvöld. Ég held að það komi einum átta sinnum fyrir í þessum fréttaviðtölum. Það er auðvitað nokkuð óvenjulegt að upplýsingar af þessu tagi séu birtar og það, sem í þeim felst, án þess að ráðh. sé reiðubúinn að standa nokkuð fast á því, að það, sem þar komi fram, sé þess eðlis að á því eigi að vera hægt að byggja kröfur, en fyrir því geta menn tæplega gert sér fullkomlega grein á grundvelli þeirra gagna sem hafa verið lögð fram.

Eins og fram kemur í fréttatilkynningu ráðh. á verðlag á súráli til ÍSALs að vera eins og um óskylda aðila væri að ræða, en þeir aðilar, sem eru fram teknir í þessu fréttayfirliti og í þessum gögnum, eru náttúrlega rammskyldir. Það var á sínum tíma ákveðið, trúi ég, að þetta skyldu vera viðskipti eins og milli óskyldra aðila, með tilliti til þess, að það væri svipaðast því sem um okkar eigin eign á þessari verksmiðju væri að ræða. En af þessu tilefni vil ég gjarnan fá ráðh. til að upplýsa um hverjar aðrar upplýsingar hann hefur í málinu. Mér þykir augljóst að ráðh. hljóti að hafa upplýsingar um almennt súrálsverð vegna þess að á því verða kröfur okkar fyrst og fremst að byggjast um verð á milli óskyldra aðila.

Þetta er stórt mál og auðvitað má þetta ekki reynast vindhögg. Ráðh. hefur í öðrum málum lagt mikla áherslu á gætni og varkárni, og ég trúi ekki öðru en það eigi við í þessu máli líka og þess vegna hljóti ráðh. að hafa upplýsingar um almennt súrálsverð í viðskiptum milti óháðra aðila, sem er það atriði sem við verðum að byggja kröfu okkar á. Þetta er auðvitað nauðsynlegt að þm. fái að vita, svo að þeim sé vel ljóst hver staða málsins er, og ég vil biðja ráðh. um að upplýsa okkur um þetta efni.

Í annan stað er í fréttatilkynningunni minnst á nýlega skýrslu frá Coopers & Lybrand varðandi þetta mál, þ.e. mat á þeim gögnum sem safnað var í Ástralíu, og ég hefði gjarnan viljað að ráðh. treysti sér til að gera deildinni grein fyrir þessari skýrslu, lesa hana fyrir deildina ef hún er ekki of löng, þannig að þetta mat þessa óháða aðila liggi fyrir. Ef skýrslan er of löng vil ég biðja hæstv. ráðh. að gera grein fyrir henni í styttra máli, en gjarnan að dreifa henni síðan til þm. Það eru nefnilega ákaflega takmarkaðir möguleikar fyrir þm. eða fólk almennt að átta sig á málinu nema þessar upplýsingar komi fram líka.

Það er ekkert nýtt að ástæða sé til þess að fylgjast með hráefnisaðdráttum fyrirtækja eins og þessara. Það liggur í eðli þessara fyrirtækja, þessara samsteypa, að það er sjálfsagt að fylgjast með verði á öllum aðföngum. Þetta var líka leitast við að gera, a.m.k. fram til ársins 1974. Það vill þannig til, að ég var fulltrúi ríkisstj. í stjórn ÍSALs um árabil eða fram til ársins 1974. Þá benti ég rn. margsinnis á nauðsyn þess, að það yrði leitast við að fylgjast með þessum sérstaka þætti, súrálsverðinu, vegna þess hversu stór þáttur það er í framleiðslukostnaðinum, og ég lagði áherslu á það, þegar ákveðið var að athugun yrði gerð á vegum fyrirtækisins Coopers & Lybrand á skattamálum fyrirtækisins, að inn í það dæmi yrði tekið að það færi fram sérstök athugun á því, hvernig súrálsverðið væri. Ég hafði áður fylgst með því með því móti sem mér var kleift, hver þróunin væri í þessum efnum, t.d. reiknað út hvað súrálsverð á hverjum tíma var há prósentutala af álverðinu, það er einn mælikvarðinn, og á þeim tölum byggði ég þá skoðun mína, að nauðsynlegt væri að þetta yrði tekið til sérstakrar athugunar.

Það kemur fram í ýmsum gögnum, sem ég hef hér, hvernig að þessu var staðið. Ég er hér t.d. með „memo“ frá fundi 18. júlí 1974, sem var með þessu endurskoðunarfyrirtæki, þar sem ég er sagður staðhæfa að verð fyrir alúmíníum virtist hátt og að verðlagningin eftir þeirri formúlu, sem notuð væri, væri varsöm. Hinn 13. ágúst 1975 komu niðurstöður frá þessu ágæta fyrirtæki, Coopers & Lybrand, og ég verð ekki var við að þetta sé neins staðar stimplað trúnaðarmál svo ég vil leyfa mér — með leyfi forseta — að vitna til þessa gagns. Ég verð að segja það eins og er, að mér voru það nokkur vonbrigði hvað þeir tóku vægt til orða um súrálsverðið með tilliti til þess, að mér þótti það hafa þróast á þann veg að það væri orðið óþægilega hátt. En það er reyndar vitnað líka til þessarar skýrslu í fréttatilkynningu ráðuneytisins, og heildarniðurstaðan hér, með leyfi forseta, er þessi:

„Svo virðist samt sem áður, að mögulegt sé að við núverandi samninga um súrál gæti komið fram hlutfallsleg hækkun sem breytti verðinu á alúmíníum í óhag. Við mælum með því, að þetta mál sé tekið upp í sambandi við nýja samninga.“

Á öðrum stað er vikið að því í þessari skýrslu, að e.t.v. sé verðlag í hærri kanti á árinu 1974, en það er með mjög vægum orðum, svo ekki sé fastar að orði kveðið af minni hálfu.

Afskiptum mínum af þessu máli var reyndar ekki lokið með þessu, því að hinn 13. águst 1975, u.þ.b. ári síðar, vann ég skýrslu fyrir fjmrn. um þetta efni. Í henni komu fram margvíslegar upplýsingar um súrálsverðið og þann ugg minn, að þróunin í því væri ekki nógu örugg og ástæða væri til þess að fylgjast sérstaklega með því. Ég gríp hér niður, með leyfi forseta. Segir hér m.a. að súrálsverð samkv. nýjum samningi, þ.e. hinum nýja samningi sem gerður var 1974, reiknist vera um 17.9% af nettósöluverði áls. Síðan er rakin hér þróunin frá 1970, það hafi verið 13.9% á árinu 1970, 15.5% á árinu 1971, 14.4% á árinu 1972, 15.1% á árinu 1973 og á árinu 1974 reiknist það um 15.8%. Mér þóttu þannig vera blikur á lofti. Auk þess var það svo með þennan nýja súrálssamning, að það var gert ráð fyrir að verðið á súráli miðaðist beint við verð á áli á hverjum tíma, væri sem sagt ávallt sami hundraðshluti af söluverði áls. Hér kemur auðvitað til hvort móðurfyrirtækið eða sölufyrirtækið vill veita einhvern afslátt. En í undirbúningsgögnum um stofnun fyrirtækisins virðist hafa verið gert ráð fyrir að súrálsverðið yrði um 14% af nettósöluverði áls.

Mér þótti ástæða til að benda sérstaklega á þetta og gat þess í þessari skýrslu, að í því sambandi vöknuðu einkum tvær spurningar. Önnur var sú, hvort verð á súráll til ÍSALs væri í samræmi við viðskiptahætti milti óháðra aðila samkv. ákvæðum þessa samnings. Að fengnum þeim upplýsingum að gangverð á súráll standi ekki í beinu hlutfalli við söluverð áts, eins og kemur fram í skýrslu Coopers & Lybrand, — þó að þar sé samband á milti er þar ekki beint samband, — vaknar sú spurning, hvort samningur, sem gerir ráð fyrir slíku beinu hlutfalli, sé í samræmi við ákvæði um viðskiptahætti milli óskyldra aðila.

Þetta var sem sagt í maímánuði 1975. Síðan hef ég ekkert af þessum málum frétt, en í samningum milli aðila, þ.e. samningum ÍSALs eða Alusuisse við íslenska ríkið, er gert ráð fyrir árlegum möguleika á endurskoðun þessa verðs. Þess vegna vil ég spyrja: Getur ráðh. upplýst hvernig súrálsverð hafi þróast sem hlutfall af álverði frá þessum tíma, þ.e. frá árinu 1974? En fyrst og fremst hefði ég þó viljað spyrja hvernig hafi verið fylgst með málum frá þessum tíma, vegna þess að það var lögð þó nokkur vinna í að fylgjast með þessu jafnóðum. Á árinu 1975 kom fram af minni hálfu sérstök ábending um að ástæða væri til að gera þetta. Ég hefði talið áhugavert að fá skýrslu frá ráðh. um þetta og væntanlega skýrslu um hvernig með þessu máli hafi verið fylgst allan tímann frá 1975. Það er nokkuð seint af stað farið ef því hefur ekki verið sinnt allan þann tíma.

Það er auðvitað svo, að af þeim gögnum, sem liggja hér fyrir, geta menn ekki gert sér grein fyrir því — þm. eða almenningur — hvort hér reynist vera um svik að ræða eða ekki. En reynist vera um svik að ræða verður auðvitað að taka á þeim sem slíkum. Það væri líka mjög slæmt ef úr þessu yrði vindhögg. Þess vegna vil ég treysta því, að málið sé á traustum grunni hjá ráðh. Ef þetta kemur á einhvern hátt í bakið á okkur sýnist mér að það geti orðið okkur á ýmsan hátt skaðlegt. Ég vil þess vegna biðja ráðh. um að upplýsa deildina um það, hvernig hafi verið fylgst með þessum málum á árunum frá 1975 og hingað til, og í annan stað að gefa deildinni upplýsingar um það, hvernig verðlag á súráli sé á almennum markaði, með tilliti til þess, að á þeim grunni hljótum við að byggja kröfur okkar. Það er að sjálfsögðu lofsvert frumkvæði að afla þessara gagna frá Ástralíu, en hinn hluti málsins er ekki síður mikilvægur, hvernig hið almenna súrálsverð er milli óháðra aðila, þar sem hér er um þrælskylda aðila að ræða sem til er vitnað. Og enn bendi ég á það, að mér finnst að þm. ættu gjarnan að fá aðgang að hinni nýju skýrslu Coopers & Lybrand með mati á þeim gögnum sem fram hafa verið lögð frá Ástralíu.