17.12.1980
Efri deild: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1563 í B-deild Alþingistíðinda. (1661)

Umræður utan dagskrár

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég fagna því, að þessi umr. skuli fara fram í dag. Hún hefði raunar kannske fremur átt að fara fram í gær, ef hæstv. iðnrh. hefði viljað sýna Alþingi tilhlýðilega virðingu. Á sama augnabliki og hann heldur blaðamannafund eru að vísu settar í hólf alþm. upplýsingar um þetta athyglisverða mál. A.m.k. er það athyglisvert, hverjar sem staðreyndir kunna að reynast þegar það verður skoðað niður í kjölinn, en hann kaus hins vegar að halda blaðamannafund og sýna okkur þá vanvirðu að upplýsa okkur ekki áður um málið.

Svo vildi til, að stóriðjumál voru á dagskrá Sþ. í gær. Þau fengust ekki rædd. Ég býst við að það hafi verið vegna þess að hæstv. iðnrh. hafði öðrum hnöppum að hneppa. Hann vildi fremur auglýsa sjálfan sig en gera Alþingi grein fyrir þessu máli, eins og honum bar þó skylda til. Það var þó bæði á dagskrá stóriðjutillaga Sjálfstfl. og eins iðnaðaráætlun hans sjálfs. Hvorugt fékkst rætt. En ekki nóg með það. Ég spurði hæstv. ráðh. að því í fundarbyrjun í gær hvort hann mundi nú ekki loks svara fsp. um virkjun Blöndu sem lengi hefur verið á dagskrá. Hann kvaðst ekki geta það, svaraði bara nei. Og þó er þingi að ljúka og ég hafði þó ætlast til að svar yrði gefið við því, hvað Blöndumálinu liði. Það mun vera mál allra sérfræðinga, að ákvörðun í þessu efni verði að taka ekki síðar en á næsta ári og þess vegna er vissulega ástæða til að alþm. haldi ráðh. við efnið og knýji fram svör um hvað eigi að gerast, ekki síst með hliðsjón af þeim yfirlýsingum sem hæstv. ráðh. hefur gefið um að ódýrasti virkjunarkosturinn væri að loka stærsta iðjuveri landsins.

En ég fagna því, að þessi umr. hefur farið fram. Hins vegar er það alveg ljóst, að hæstv. iðnrh. gat í mun styttra máli og mun skýrara máli svarað fsp. þeim sem voru bornar fram. Það er árátta hæstv. ráðh., sérstaklega Alþb., að halda uppi stöðugu málþófi og þvæla um óskyld efni út og suður á sama tíma sem til þess er ætlast af okkur í stjórnarandstöðunni, að við greiðum fyrir framgangi mála. Það er verið að reyna að flækja þetta mál eins og önnur. Í stað þess að svara skýrum fsp. er hlaupið úr einu í annað.

Um þetta mál má annars segja það, að ef þær upplýsingar, sem fram eru komnar af hálfu rn., reynast réttar er það bæði ánægjulegt og sorglegt. Það er ánægjulegt ef svo reynist að stóriðjusamningarnir séu miklu betri en við höfðum gert okkur grein fyrir, ef hagnaðurinn af álverksmiðjunni reynist miklu meiri en við höfðum fram að þessu vitað. Við höfum vitað að við fengjum greitt allt andvirði Búrfellsvirkjunar á nálægt 25 árum — héldum það upphaflega, það munu núna reynast 20 ár og eru þá dreifimannvirki innifalin — með því verði og þeim tekjum sem við vitum að við eigum. Ef það skyldi nú vera svo, að við ættum tugi milljarða að auki, sem við fengjum kannske á næstu vikum eða mánuðum greiddar samkvæmt samningum, þá er það auðvitað ánægjulegt. Hitt er auðvitað hryggilegt, ef það skyldi reynast svo, að stórfyrirtæki eins og Alusuisse hefði brotið á okkur samninga. Þá er vissulega ástæða til þess, að Íslendingar sameinist um að taka hraustlega á móti. Ég lýsi því hér með yfir, að ekki skal standa á mér og ekki skal standa á neinum af þm. Sjálfstfl. að taka þátt í því, ef á daginn kemur að samningar hafi verið brotnir.

Nú er það að vísu svo, að það getur verið álitamál hvernig túlka eigi ákveðin samningsákvæði. Það vita allir menn og við kannske ekki síst lögfræðingarnir, sem þykjumst ýmislegt kunna. Það kemur fram í einu af þeim bréfum sem hér var lesið upp af hæstv. ráðh., — hann þurfti að tala hér erlendar tungur og sýna að hann kynni fleiri móðurmál en íslensku og þýsku, og var það í hæsta máta ósmekklegt, því að auðveldlega var hægt að skýra frá efni þessa bréfs án þess að lesa það upp frá orði til orðs, og líklega einsdæmi í þingsögunni að þetta hafi verið gert, — en í bréfinu segir umbúðalaust, að það sé annað uppi á teningnum samkvæmt þessu bréfi frá 3. okt. 1975 en segir í aðalsamningnum. Þeir eru ekkert að draga neitt dul á það, að þeir telja að þarna sé um samningsbrot að ræða. Það þarf þá náttúrlega að kanna það. En hæstv. ráðh. er að undirbúa mál sitt og segir hér: Samningarnir eru ekki þannig úr garði gerðir að líklegt sé að hald sé í þeim — eða eitthvað í þá áttina. Hann byrjar á að lýsa því yfir á Alþingi að samningarnir, sem íslendingar hafi gert við þetta fyrirtæki, séu þannig að það sé kannske allt í lagi fyrir þá að fara í kringum þá. Hvernig er nú aðstaða þeirra manna, sem eiga að sækja mál Íslendinga, að hafa slíkan ráðh.?

Þetta er byrjun þessa máls, en það er ýmislegt fleira sem er athyglisvert í málflutningi hæstv. ráðh. Ég held að það geti varla verið tilviljun, að þessi hæstv. ráðh. segir að allt hafi verið í lagi 1974 þegar upplýsinga var aflað, en síðan: En það er allt annað uppi á teningnum 1975 þegar málin eru skoðuð. — Skyldi það vera tilviljun, að þá var hæstv. núv. forsrh. orðinn iðnrh. en áður var flokksbróðir núv. hæstv. iðnrh. í því sæti? Ég held að það sé ekki tilviljun.

En þetta vekur auðvitað spurninguna um hverju hæstv. forsrh. geti svarað miklu frekar en hæstv. iðnrh. Á þessu tímabili, 7 ára tímabili eða svo, er hæstv. forsrh. iðnrh. þessa lands í meir en helming tímabilsins. Ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma heyrt um að þarna væru einhver misferli á ferðinni. Ef ég hefði heyrt það hefði ég krafist þess að rannsókn færi fram. Að vísu lýsir nú hv. þm. Kjartan Jóhannsson því yfir, að hann hafi varað ríkisstj. við í þessu efni tvisvar á þessu tímabili. Og ég er honum þakklátur fyrir að hafa gert það. Hann sýndi fram á, að svo væri, með því að vitna í skýrslur. Ég heyrði þetta aldrei, ekki svo ég muni. Sat ég þó í sama þingflokki og þáv. iðnrh. Þess vegna er auðvitað alveg óhjákvæmilegt að hæstv. forsrh., þáv. iðnrh., greini frá því, hvað var að gerast á þessum árum. Hann hlýtur að vita það betur en hæstv. núv. iðnrh. Og ég treysti ekki hæstv. núv. iðnrh. til að túlka þessi mál á sinn hátt, miðað við það sem maður hefur heyrt frá honum í mörgum málum öðrum. Þess vegna hlýtur það að vera skylda hæstv. forsrh. og krafa okkar hv. þm. að hann komi hér í ræðupúltið á eftir og geri grein fyrir gangi þessara mála.

Hæstv. iðnrh. segir að það sé annað uppi á teningnum 1975. Þá segir hið breska fyrirtæki að framkvæmd þessa máls sé ekki í samræmi við aðalsamninginn. Það, sem ég er núna að segja, er raunar í samræmi við það sem hæstv. iðnrh. var að dylgja með í ræðunni frægu um daginn. Þá sagði hann eitthvað í þá áttina, að það hefði verið ömurleg aðkoman í iðnrn. 1978, það væri nú eitthvað annað eftir að hann tók við. Ég skal viðurkenna að ég man þetta ekki orðrétt en ég get sótt þetta á eftir og fengið ráðh. það. Ég á ræðu hans skrifaða hér. — Efnislega var það ömurleg aðkoma. Það var kannske ekki það orð, en efnislega var það það sem ráðh. sagði. Við það stend ég og skal sýna honum á eftir.

Það var sem sagt beinlínis skotið á hæstv. forsrh. En það var dálítið athyglisvert, að þeir, sem eru farnir að kynnast þessum hæstv. ráðh. svolítið og fylgjast með tilburðum hans, veittu því athygli fleiri en einn og fleiri en tveir, að hann hrökk allt í einu við og mundi eftir því, að þessi maður var nú orðinn húsbóndi hans. Og hann sneri blaðinu við. Hann hætti í miðjum klíðum. Það sáu menn á andliti hans. Það var ekki orðið tímabært enn þá að segja hæstv. forsrh. fyrir verkum í einu og öllu, eins og þó var kennt þar sem núv. hæstv. iðnrh. lærði sín fræði. En sleppum þessu.

Það var getið hér um að innflutningsverð í Japan á súráli lægi fyrir. Ég mundi nú halda að næsta skrefið í þessu máli væri að reyna að afla upplýsinga um innflutningsverð á súráli frá öllum þeim löndum sem það flytja inn. Ég hygg að það muni vera rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að fast heimsmarkaðsverð sé ekki á þessari vöru. Fyrirtækin eru ekki mjög mörg, en þau eru mjög stór. T.d. voru ekki byggðar 20 álbræðslur á Íslandi þó að sumum hafi dottið það í hug. Ég skal ekki eyða löngum tíma í það, en það var rangt með farið af Magnúsi Kjartanssyni þá, að mér hefði dottið það í hug eða haldið því fram. Hins vegar er málið það, þrátt fyrir allt, að helmingurinn af þessum fyrirtækjum er nú kominn hér. Þá var verið að byggja eina litla álbræðslu. Nú er búið að fimm eða sexfalda hana. Nú er kominn kísilgúr og nú er komið kísiljárn eða hvað það nú heitir. Þessi iðnvæðing er í gangi. Ég átti kannske aldrei að segja að þeir hefðu skrökvað þessu. Ég átti bara að monta af því, að þær yrðu þessar 20 eða jafngildi 20 kannske eftir 10—20 ár, sem betur fer. Ég þarf ekkert að biðja afsökunar á einu eða neinu í því sambandi.

Ég ætla þá að víkja örfáum orðum að því, sem fram kom í ræðum þeirra sem á undan mér hafa talað.

Hv. þm. Kjartan Jóhannsson bendir á það, að hann hafi staðhæft í júlí 1974, að eitthvað væri athugavert við verðlagningu súráls, og hann hafi í ágúst 1975 lýst ugg sínum um að svo væri. Þess vegna er spurningin: Hvernig hefur verið fylgst með málum frá 1975 eftir að þessi aðvörun kom fram tvívegis? Þeirri spurningu beini ég til hæstv. forsrh., sem þá var iðnrh., en ekki til hæstv. iðnrh., enda treysti ég honum ekki til að svara því. Hins vegar leyfi ég mér að spyrja hæstv. iðnrh. að því, hvernig fylgst hafi verið með málum fram til 1974 í ráðherratíð Magnúsar Kjartanssonar. Á þeim tíma, sem hér um ræðir, hafa allir iðnrh. verið stuðningsmenn núv. ríkisstj. — vænti ég. Ég veit þó ekki um Magnús Kjartansson. Hann hefur ýmislegt gagnrýnt í seinni tíð og séð í gegnum ýmislegt, svo að það er kannske ekki öruggt að hann styðji þessa ríkisstj. Ég geri þó ráð fyrir því.

Þetta er sem sagt allt í hendi núv. ríkisstj., að upplýsa málið algerlega niður í kjölinn, og á því eigum við heimtingu og við skulum ganga eftir því skref fyrir skref að þeir upplýsi málin, séu ekki með neinar dylgjur, enga útúrdúra, engar málalengingar, heldur útskýri beint hvað var gert á þessum árum. Var fylgst með þessu og með hverjum hætti í ráðherratíð Magnúsar Kjartanssonar? Var fylgst með þessu og með hverjum hætti í ráðherratíð hæstv. forsrh.? Við krefjumst þeirra svara.

Við sjálfstæðismenn höfðum ekki hugsað okkur að taka þetta mál upp utan dagskrár í dag. Við höfum reynt að greiða fyrir þingstörfum og ekki tafið tímann, og við höfðum ekki hugsað okkur að gera það vegna þess að þessi mál eru öll á dagskrá á morgun. Við ætluðum ekki fyrr en þá að gagnrýna það framferði ráðh. að hlaupa út frá þessum umr. til að ræða málið við aðra, en neita að tala við okkur, eins og hann gerði í gær. Þessi mál verða sem sagt á dagskrá á morgun. Ég treysti því, að hæstv. ráðh. svari t.d. fsp. minni um Blöndu, og ég treysti því, að framhald umr. um stóriðjumál Sjálfstfl. fari fram opinberlega, a.m.k. verði málinu vísað til nefndar áður en þing fer heim, og þess vegna skal ég stytta mál mitt.

Það er talað um að samstöðu þurfi í þessum málum. Ég er innilega sammála hæstv. ráðh. um það, komi á daginn að samningar hafi verið sniðgengnir, — ég hygg traustir, öruggir, ákveðnir samningar. Það er frumskylda okkar allra að vera ekki að reyna að draga samningana í efa ef við ætlum að leita réttar okkar samkvæmt þeim, a.m.k. ætti ráðh. að hlífa okkur við því að hlusta á slíkt oftar en hér í dag. Auðvitað verður að vera full samstaða. Af Sjálfstæðisflokksins hálfu er það ekki einungis sjálfsagt mál, heldur beinlínis ósk, að hann fái að fylgjast með þessu máli. Stjórnarandstaðan í Alþfl. á líka heimtingu á að fá að fylgjast með og fá spilin á borðið.

Hvað er satt í þessu máli? Við sáum hér upphlaup í sambandi við Flugleiðir. Ég vona að ekkert slíkt sé hér á ferðinni. Það átti að drepa það fyrirtæki. Það var búið að koma því inn hjá fólkinu, — ég var farinn að trúa því áður en ég kynnti mér skjölin sem nefndarmaður hér, ég hafði ekki fylgst með nema bara eins og hver annar borgari, að þetta fyrirtæki væri gjaldþrota, ætti ekki fyrir einu eða neinu og jafnvel að þar hefði verið um misferli að ræða. Það mál var hreinsað fyrir það m.a. að við Sjálfstæðismenn tókum þátt í því að krefjast svara um allt þannig að allt lægi fyrir hreint. Við vitum að það fyrirtæki á í erfiðleikum, en ég held að menn haldi því ekki fram núna að þar hafi verið um eitthvert blóðugt svindl að ræða.

Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að hringar reyni ekki að hagræða málum stundum, en ég hefði haldið að óreyndu að það gæti verið heppilegra fyrir þetta fyrirtæki, af því að það hefur fastar skattgreiðslur hér, en stighækkandi víðast annars staðar, að færa hagnað hingað en héðan í burt. En ef þeir taka hagnaðinn „í hafi“, eins og sagt er, þá fer ég að skilja, ef þeir þurfa hvergi að telja hann fram. Þetta er sameiginlegt áhugamál ástralskra og íslenskra yfirvalda. Auðvitað eigum við að biðja áströlsk yfirvöld að hjálpa okkur við að upplýsa þetta mál.

Herra forseti. Ég þakka fyrir að hafa fengið að taka hér til máls og skal ekki tefja tímann lengur.