17.12.1980
Efri deild: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1567 í B-deild Alþingistíðinda. (1663)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst úr af orðum hæstv. forsrh. segja að það væri mjög æskilegt að fá úttekt á því, hvernig skattlagning hafi komið út samkvæmt hinni endurskoðuðu skattlagningarreglu annars vegar eða hefði komið út samkvæmt hinni eldri, þannig að menn velkist ekki í neinum vafa um hver munur hafi verið á þessum tveimur skattlagningaraðferðum. Ég óska eftir því, að það verið gert. Það er ljóst að tekjuauki til Landsvirkjunar var verulegur af þessari breytingu, en hins vegar liggur ekki fyrir — eða ég minnist þess ekki að hafa séð nokkurs staðar úttekt um það — hvernig skatturinn kæmi út miðað við þessar tvær mismunandi aðferðir.

Ég þakka þau svör sem hæstv. iðnrh. gaf við ýmsum spurningum mínum, þó að margt af því væri æðimagurt. Hann hafði það til málanna að leggja varðandi almennt súrálsverð, að innflutningsverð til Noregs væri lægra en hingað, að sama gilti um Japan — hann nefndi tölurnar 25% fyrir Noreg og 20% fyrir Japan — og vitnaði síðan nokkuð til heildarmeðalverðs á útflutningi frá Ástralíu samkvæmt útflutningsskýrslum. Þetta hrekkur, trúi ég, heldur skammt til að verja mál okkar að því er súrálsverðið varðar, en engu að síður eru þetta upplýsingar. Ég stóð í þeirri meiningu, að hæstv. ráðh. hefði meiri og haldbetri upplýsingar fram að reiða í þessum efnum en þetta eitt, svo mikilvægt sem það er að á þessu máli verði haldið traustlega og af festu og ekki verði úr vindhögg, eins og ég sagði áðan.

Ég verð líka að segja það varðandi það yfirlit sem ráðh. gaf úr skýrslu Coopers & Lybrand varðandi útflutningsverðið frá Ástralíu og innflutningsverðið hingað, að ég gat ekki heyrt annað en í því fælist einungis staðfesting á því, að menn kynnu samlagningu og frádrátt. Það er að vísu algengt um endurskoðunarskýrslur að þær séu af því tagi, en að því er grundvallaratriði varðar sýndist mér ekki vera neitt í þeirri yfirlýsingu, ekki í því, sem ráðh. las a.m.k., sem staðfesti neitt annað en að menn kynnu þessar einföldu reiknireglur. En ég vil ítreka þá ósk mína, að ráðh. dreifi þessari skýrslu til þm. svo að þeir þurfi ekki að velkjast neitt í vafa um hver umsögnin hafi verið. Ef skýrslan er svo löng að ekki sé hægt að lesa hana upp hér held ég að rétt sé að útbýta henni hér. Alla vega óska ég eftir því, enda valdi ráðh. að verja tíma sínum til annars en lesa efni þessarar skýrslu.

Hæstv. ráðh. sagði að ég hefði sagt að það væri slæmt ef þær upplýsingar, sem fram voru lagðar, stæðust ekki.

Þetta er rangt. Ég sagði að það væri slæmt ef þær dygðu ekki. Ég hef á engan hátt dregið í vafa að upplýsingar um útflutningsverð frá Ástralíu og innflutningsverð til Íslands í þeim gögnum, sem hér hafa verið lögð fram séu réttar. Ég get tekið undir það, að „kúnstug“ bókfærsla er notuð í Ástralíu. En sannleikurinn er sá, að það er á grundvelli hins almenna súrálsverðs sem við verðum að flytja kröfur okkar, og þess vegna hélt ég að hæstv. ráðh. hefði meira fram að færa í þeim efnum en það sem hér hefur komið í ljós. Ég verð að vona hans vegna að hann eigi meira í pokahorninu, þó að ég hefði ætlað honum að upplýsa deildina fyllilega um vitneskju sína í þessum efnum og leyna engu.

En það var önnur spurning sem ég bar líka fram, hvernig hefði verið fylgst með þessum málum á árunum 1974–1975. Hæstv núv. forsrh. og fyrrv. iðnrh. upplýsti lítið um það annað en að samningar hefðu verið endurskoðaðir og það var nú, held ég, deildinni kunnugt um. En mér finnst það „kúnstugt“ ef afstaðan hefur verið sú sem komið hefur fram í máli hæstv. iðnrh., að eftir þessar endurskoðunarskýrslur, sem hann rakti hér, hefði ríkisstj. farið að treysta fyrirtækinu alveg sérstaklega og vænst þess, að það mundi bæta ráð sitt, — eftir að kemur í ljós, að samningurinn er ekki haldinn, og alþjóðlegt endurskoðunarfyrirtæki bendir á að það sé ekki farið eftir ákvæðum samningsins, þá komist þáv. hæstv. iðnrh. að þeirri niðurstöðu, að nú sé gersamlega ástæðulaust að fylgjast lengur með fyrirtækinu. Ég hef aldrei vitað að yfirvöld höguðu sér svona, að ef brot komi í ljós eigi að gera ráð fyrir að slíkt brot muni aldrei endurtaka sig. Þetta finnast mér ákaflega furðuleg vinnubrögð. Þetta gerist á sama tíma og við höldum úti feikilegu skatteftirliti sem er með nefið niðri í hvers manns koppi út af því hverju hann eyðir í viðhald og hverju hann eyðir í ýmsa smáliði. Það er kroppað í þetta og fleiri hundruð milljónir fara í að strika út slíka smáliði hjá smáfólki hér á Íslandi. En í þessu máli, þar sem allt verður talið í hundruðum milljóna, eins og hæstv. iðnrh. gat um áðan, sá hæstv. þáv. iðnrh. ekki neina ástæðu til þess að fylgjast neitt frekar með úr því að fyrirtækið var einu sinni búið að brjóta af sér. Mér þykir alveg fráleitt að menn byggi störf sín á þessum forsendum.

Ég tel fyllilega ástæðu til þess, að fram fari úttekt á þessu máli, eins og hæstv. iðnrh. kom inn á og ég ræddi líka í upphafsræðu minni áðan. Ég segi bara: Þótt fyrr hefði verið. Og það hörmulega í þessu öllu saman er það, að sé ekki fylgst með gangi þessa máls jafnóðum felur það í sér stórkostlega hættu á því, að hagsmunir Íslands séu fyrir borð bornir gersamlega, því ákvæði samningsins ætla mönnum að koma athugasemdum sínum jafnóðum á framfæri, alveg eins og í öðrum almennum viðskiptum. Ég ítreka fsp. mína um það hvernig þessu eftirliti hafi verið háttað því ég fæ mig varla til að trúa því, að ekki hafi verið fylgst með þessum málum á þessu tímabili. Ég fæ mig ekki til að trúa því að ráðh. hafi starfað á þeim grundvelli sem hæstv. núv. iðnrh. hefur gefið í skyn.

Ég vil endurtaka það, að hafi samningar verið sviknir verður að taka á því sem slíku og af mestu hörku. En það er auðvitað stórvarasamt fyrir okkur ef það, sem hér er að gerast, reynist vera vindhögg. Það var þess vegna sem ég óskaði eftir frekari upplýsingum frá iðnrh., sem ég verð því miður að segja að hafa reynst heldur magrar.