17.12.1980
Efri deild: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1570 í B-deild Alþingistíðinda. (1665)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Vegna þeirra umr., sem orðið hafa hér um málið eftir að ég talaði fyrr í dag, vil ég víkja að fáeinum atriðum, en skal reyna að miða það fyrst og fremst við þær fsp. sem fram hafa komið og ég tel rétt að víkja að nokkrum orðum í máli mínum. En um efnisatriði málsins í víðara samhengi held ég að sé ekki þörf á að fjölyrða á þessu stigi.

Ég vil þá fyrst koma að örfáum þáttum sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson vék að í sínu máli. Hann kvartaði í upphafi yfir því, að málið skyldi ekki hafa verið kynnt hér á Alþingi með formlegum hætti og tekið upp þannig. Ég svara honum með því að benda á að sá háttur, sem á var hafður, að senda alþm. yfirlit um þetta, auk þess að kynna þetta fjölmiðlum, var valinn með tilliti til þeirra anna sem ríkja hér á þinginu í síðustu þingviku fyrir jólin. Ég taldi að málin kæmust efnislega ekki síður til skila með því að menn fengju gögn í hendur samdægurs og málið var kynnt fjölmiðlum. Það var því ekki til að sýna Alþingi neina vanvirðu sem sá háttur var á hafður. Vil ég þó gjarnan taka undir að þetta mál er það stórt að við venjulegar kringumstæður hefði mjög komið til álita að gera grein fyrir því einmitt á hv. Alþingi í upphafi.

Það, sem rétt er að víkja að varðandi mál hv. þm. frekar, er fsp. hans um hvernig fylgst hafi verið með málum á þeim tíma sem þessi viðskipti hafa staðið yfir, súrálskaup á vegum Alusuisse frá Ástralíu og flutningar þess hingað til Íslands. Ég tel mig raunar þegar hafa vikið að því máli. Í tíð tveggja ríkisstj., þ.e. ríkisstj. sem sat 1971–1974 og ríkisstj. sem tók við 1974, fór fram endurskoðun á reikningum fyrirtækisins m.a. með tilliti til kaupa á þessari afurð. Í fyrra skiptið var það þáv. iðnrh., Magnús Kjartansson, sem beitti sér fyrir þessu, að því er varðaði uppgjör ársins 1973.

Í tíð dr. Gunnars Thoroddsen iðnrh. var málið svo tekið til athugunar, reikningsuppgjör var tekið til athugunar af umræddri endurskoðunarskrifstofu að því er varðaði reikningsárið 1974. Þegar hefur komið fram að í ljósi þeirrar endurskoðunar fóru fram samningaviðræður um mikilsverða þætti álsamningsins svokallaða sem leiddu til verulegra breytinga á honum, — breytinga sem voru ótvírætt til hagsbóta fyrir okkur þó að margir hefðu að sjálfsögðu viljað ná lengra í því máli fyrir okkar hönd.

Fyrir Íslenska álfélaginu hf. er stjórn þar sem íslenska ríkið hefur tvo fulltrúa af sjö, að mig minnir. Þeirra hlutverk er að fylgjast með málum innan fyrirtækisins. Mér er kunnugt um að á síðustu árum a.m.k. hafa fulltrúar ríkisins gert bæði athugasemdir við reikningshald og borið fram fyrirspurnir og óskir um breytta uppsetningu á reikningum fyrirtækisins, þannig að gleggra kæmi fram m.a. kostnaður aðfanga í reikningshaldinu. Þau mál hafa einmitt verið til meðferðar í stjórn ÍSALs á þessu ári. Mikil völd hefur sú stjórn ekki, þar sem þetta er dótturfyrirtæki Alusuisse, en þó er það umræddra fulltrúa ríkisins að bera fram óskir þar fyrir ríkisins hönd.

Ég vildi segja það til viðbótar við málflutning hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, að vissulega gætti nokkurra mótsagna í málflutningi hans, en ég tók þó sérstaklega eftir því, að hann lagði á það áherslu að nást þyrfti samstaða um málið og ekki mundi skorta stuðning af hálfu þm. Sjálfstfl. til að ná fram okkar hagsmunum ef í ljós kæmi að samningar hefðu verið sniðgengnir.

Hv. 2. þm. Reykn., sem talaði aftur í umr., vék að því, að það hefði einmitt verið ástæða til þess að fylgjast nánar með málum vegna þess sem fram kom við endurskoðun reikninga ársins 1974. Það er auðvitað alltaf matsatriði hvernig eða hversu oft á að kveðja til slíka alþjóðlega endurskoðun. Það er ekkert lögboðið um það í sambandi við fyrirtæki, og eins og ég gat um í ræðu minni geri ég ráð fyrir að menn hafi reiknað með því eftir upptöku mála og samninga sem lokið var í árslok 1975, að fyrirtækið stæði við samninga með eðlilegum hætti. Nú reynir á það við þær athuganir, sem fram hafa farið yfir þetta tímabil, hvernig þeim málum hefur í reynd verið háttað. Auðvitað hvetur það, sem fram hefur komið í þessu máli bæði fyrr og síðar, til árvekni af okkar hálfu í viðskiptum við erlenda aðila sem eru hluthafar í atvinnurekstri okkar og atvinnulífi.

Varðandi þá athugun sem nú stendur yfir á vegum endurskoðunarskrifstofunnar Coopers & Lybrand mun innan ekki langs tíma koma frá henni greinargerð og þá geri ég ráð fyrir að málið liggi skýrar fyrir og frá því verði greint. Það, sem fyrirtækið fyrst og fremst var að leggja mat á og ég greindi hér frá, voru reikningsfærslurnar varðandi útflutningsverðið frá Ástralíu og innflutningsverðið hér, að þar væri eðlilega að samanburði staðið og þau talnagildi reyndust rétt sem þar væru fram borin. En það sem í framhaldinu er sérstaklega að unnið, er að afla upplýsinga um það atriði, sem skiptir auðvitað mjög miklu efnislega, þ.e. hvað telja megi eðlilegt verð súráls á þessu tímabili í viðskiptum milli óskyldra aðila.

Ég vil þá víkja að nokkrum spurningum sem hv. 4. þm. Vestf. beindi til mín. Einnig hann hvatti til samstöðu í málinu og undirstrikaði stærð þess, þýðingu þess og að það væri auðvitað viðkvæmt mál. Ég tek undir þau orð hans. Að sjálfsögðu munu íslensk stjórnvöld leggja áherslu á að halda þannig á málum að okkar hagsmunum sé sem best borgið. Ríkisstj. hefur gert sinn fyrirvara, hefur áskilið sér allan rétt í sambandi við málið, en ekki fullyrt neitt um efnislegar niðurstöður á meðan athugun þess fer fram.

Hv. þm. spurði um það, hvort gerður hefði verið út leiðangur af hálfu íslenskra stjórnvalda til Ástralíu. Það er rétt til getið hjá honum. Rn. sendi þangað mann til að vinna að þessum málum og fara ofan í þau, Inga R. Helgason hæstaréttarlögmann, sem fór þangað á vegum rn. og átti viðræður við áströlsk stjórnvöld og stofnanir eins og hagstofu Ástralíu og aflaði margháttaðra gagna og vitneskju varðandi þessi efni og flutti með sér heim hingað. Það var að sjálfsögðu nauðsynlegt skref í athugun þessa máls, að það yrði kannað þannig á vettvangi af aðila af hálfu rn.

Í öðru lagi spurði hv. þm. um það, hvort Alusuissefyrirtækið hefði fengið gögn um um málið, og alveg sérstaklega, hvenær haft hefði verið samband við það þannig að því bærust þessi gögn. Því er til að svara, að þegar eftir ríkisstjórnarfund þar sem um þessi mál var fjallað, 9. des. s.l., voru fyrirtækinu send meginefnisatriði málsins í telexskeyti, þannig að það barst því samdægurs, og jafnframt var gerður út maður til að flytja því þessi gögn með formlegum hætti til formlegrar móttöku og fylgiskjöl og annað sem ekki hafði borist með telexþræði. Sá aðili afhenti þau gögn á fimmtudagsmorgni 11. des., eftir að hafa tafist lítillega í flugi.

Í framhaldi af því ákvað fyrirtækið Alusuisse að senda hingað til lands fulltrúa sinn, Edwin Weibel, „senior vicepresident“, eins og hann er kallaður, og við höfum nefnt hann aðstoðarforstjóra fyrirtækisins, sem átti viðræður við rn. s.l. laugardag þar sem farið var yfir málið og borin voru fram af þeirra hálfu þeirra viðhorf og túlkun málsins. Þau hafa einnig efnislega komið fram m.a. í fréttatilkynningu rn. Í þessum viðræðum var ekki frá því gengið sérstaklega, að skrifleg svör kæmu fram frá fyrirtækinu innan einhvers tiltekins tíma, en gert var ráð fyrir að viðræður færu fram milli aðila um málið og Alusuisse var greint frá því af rn. hálfu. Þá höfðu verið bornar fram óskir um að endurskoðunarskrifstofan Coopers & Lybrand fjallaði um málið og hefði það til vinnslu, og rn. vildi stuðla að því að sjónarmið Alusuisse kæmust þar á framfæri og yrðu tekin með í athugun mála.

Hv. þm. spurði um það, hvort ekki hefði verið skynsamlegt að bíða með frásögn af málinu af hálfu iðnrn. og stjórnvalda eftir því að niðurstaða slíkrar athugunar lægi fyrir að nokkrum vikum liðnum. Það var mat okkar, að rétt væri að greina frá efnisatriðum málsins eins og þau liggja fyrir að þessari gagnaöflun lokinni, vegna þess kannske sérstaklega að vitneskja um málið var komin á margra hendur og fyrirspurnir lágu bæði hjá mér og fleiri af hálfu fjölmiðla um þetta efni frá aðilum sem töldu sig vita um það, þ. á m. frá dagblöðum, og ég taldi að það væri rétt efnislega og vegna málsmeðferðar að staða málsins lægi fyrir framreidd af íslenskum stjórnvöldum þannig að engar getsakir væru á ferðinni um þetta mál eða ekki kæmu fram neinar misvísandi upplýsingar sem hefðu aðeins getað orðið til tjóns fyrir báða málsaðila ef þær hefðu komist á kreik. Ég held að hv. þm. geri sér ljóst að um mál af þessu tagi, þar sem margir aðilar koma að, verður ekki þagað lengi þannig að ekki komi fram um það nokkur vitneskja, og það er að sjálfsögðu með tilliti til þess, að niðurstaða málsins liggur ekki fyrir að öðru leyti en því, að íslensk stjórnvöld hafa áskilið sér allan rétt í málinu og hafa óskað eftir því að samningaviðræður yrðu teknar upp, ekki aðeins um þá þætti málsins, sem snúa að súrálsinnflutningi hingað og því sem því tengist, heldur einnig varðandi samninginn um íslenska álverið í heild sinni og þá ekki síst með orkuverðið í huga.

Hv. 4. þm. Vestf. spurði einnig um það, hvort búið væri að móta stefnu um það, hvernig á málinu yrði haldið áfram. Það hefur ekki verið gert í einstökum atriðum að öðru leyti en því, að málsgögn liggja fyrir hjá þeirri endurskoðunarskrifstofu sem oft hefur verið nefnd. En það mun reynt að haga málsmeðferð þannig að vitneskja um framvindu málsins komi fram með eðlilegum hætti og að slíkt samráð verði haft um málið að það geti fremur orðið til að sameina en sundra í sambandi við málsmeðferðina, svo sem veruleg nauðsyn er á og fram hefur komið hjá öllum þeim, má ég segja, sem lagt hafa orð í belg í þessari umræðu. Ég ítreka að málið er viðamikið og það varðar mikla hagsmuni fyrir okkur. Það skiptir miklu að málsmeðferðin verði ítarleg og vönduð og sem best samstaða náist um einstaka þætti. En ábyrgðin hlýtur að sjálfsögðu að vera á hendi íslenskra stjórnvalda, sem með málið fara fyrir hönd lands og þjóðar.