17.12.1980
Efri deild: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1575 í B-deild Alþingistíðinda. (1668)

Umræður utan dagskrár

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég skal aðeins segja fáein orð. Ég á minna vantalað við þann ráðh., sem ég gerði fsp. til, hæstv. iðnrh., en hv. 5. landsk. þm. á við hæstv. forsrh. Það er vegna þess að hæstv. iðnrh. svaraði beint þeim mörgu spurningum sem ég lagði fyrir hann. Ég sé ekki ástæðu til að ræða þau svör. Sum gætu gefið tilefni til þess, en ég ætla ekki að gera það nú við þessar umræður.

Ég sagði að hann hefði svarað öllum spurningum, nema þó einni. Þess vegna stend ég upp núna og vildi freista þess að fá svar við þeirri spurningu hjá hæstv. ráðh.

Ég spurði með tilliti til þeirrar miklu áherslu, sem hæstv. ráðh. leggur á að það sé samstaða hjá okkur Íslendingum í samningum og viðskiptum við Alusuisse, hvort hann ætlaði að gera beina ráðstafanir til að koma slíkri samvinnu og samstöðu á milli ríkisstj. og stjórnarandstöðunnar, og ef hann ætlaði að gera einhverjar ráðstafanir, hvaða ráðstafanir hann ætlaði að gera, hvort það kæmi til greina m.a. að setja upp einhvers konar samstarfsnefnd í þessu þýðingarmikla máli þar sem ættu sæti bæði fulltrúar ríkisstj. og stjórnarandstöðunnar. Ég leyfi mér, með tilliti til þess að ég fékk ekki svar við þessari spurningu, að ítreka hana í þeirri von að hæstv. iðnrh. svari henni.