27.10.1980
Neðri deild: 6. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í B-deild Alþingistíðinda. (167)

20. mál, skipan opinberra framkvæmda

Flm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Við tveir þm., ég og hv. 10. þm. Reykv. Friðrik Sophusson, höfum flutt á þskj. 21 að nýju frv. sem við fluttum á síðasta þingi, en það er frv. til l. um breyt. á lögum nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda.

Þegar lögin um skipan opinberra framkvæmda voru sett árið 1970, þá fólust í þeim nokkur nýmæli. Í 13. gr. þeirra laga voru m.a. sett ákvæði um að verk skyldu að jafnaði unnin samkv. tilboði á grundvelli útboðs. Síðan kom undantekningarákvæði um að heimilt væri að víkja frá útboði ef verk væri þess eðlis eða aðstæður slíkar að öðru leyti að útboð teldust ekki mundu gefa góða raun. En þá þarf undir slíkum kringumstæðum umsögn samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir. Þetta ákvæði er mjög skýrt að því leyti, að meginreglan átti að vera sú, að opinberar framkvæmdir skyldu unnar samkv. útboði að undangengnu tilboði. Þetta má einnig sjá með því að kynna sér grg., sem fylgdi þessu frv. á sínum tíma, og ræður, sem fluttar voru hér á hv. Alþ. þegar þetta frv. var til afgreiðslu. En í reynd hefur framkvæmd þessa orðið allmjög á annan veg.

Áður en við flm. fluttum þetta frv. á síðasta þingi flutti ég fsp. til hæstv. samgrh. um útboð verklegra framkvæmda hjá nokkrum ríkisstofnunum. Svaraði hann þessari fsp. í hv. Sþ. Þar kom fram að því fer fjarri, að þessari meginreglu laganna hafi verið fylgt, og það mun frekar vera regla en hitt hjá ýmsum ríkisstofnunum, að þær framkvæmi sjálfar verk sín, en láti ekki útboð fram fara eins og meginreglan átti þó að vera. Þannig kom það t.d. fram, að hjá Vegagerð ríkisins voru árið 1978 aðeins 11% af framkvæmdum, miðað við kostnað þeirra, boðin út, og árið 1979 aðeins um 12% af framkvæmdum Vegagerðar ríkisins. Hjá Hafnamálastofnun var þetta hlutfall árið 1978 14.7%, en árið 1979 14.6%. Hjá Flugmálastjórn unnu verktakar 13% af verkefnum við flugvallargerð árið 1978 og 24% árið 1979.

Það kom fram hjá hæstv. samgrh. þegar hann svaraði fsp. þessari, að ástæðan fyrir því, að útboð færi ekki fram, væri sú, að 3. mgr. 21. gr. laganna um skipan opinberra framkvæmda væri túlkuð á þann veg, að útboð þyrftu ekki að fara fram, en í þeirri grein segir að heimilt sé að fela einstökum ríkisstofnunum umsjón nánar skilgreindra flokka opinberra framkvæmda, enda hafi þessar stofnanir aðstöðu til að annast þetta verkefni.

Það hefur komið í ljós, að viðkomandi ráðuneyti hafa í mjög ríkum mæli heimilað ríkisstofnunum að framkvæma sjálfar þessi verk án útboðs. Ég verð að segja að það er mjög frjálsleg túlkun laganna sem beitt hefur verið í ráðuneytum um þetta efni, því að lagagreinin, eins og hún er orðuð, felur aðeins í sér að heimilt sé að fela einstökum ríkisstofnunum umsjón nánar tilgreindra framkvæmda. En hvergi er þess getið, að í henni felist undanþága frá þeirri meginreglu laganna að útboð eigi að jafnaði að fara fram. Ég lít svo á að þetta sé fyrst og fremst undantekningarákvæði, en ekki meginregla eins og hún hefur verið framkvæmd hjá viðkomandi ríkisstofnunum.

Til þess að taka af öll tvímæli um þetta efni höfum við flm. flutt þetta frv., þar sem tekin eru af öll tvímæli um það, að þó heimilt sé að fela einstökum ríkisstofnunum umsjón nánar skilgreindra flokka, þá skuli það engu að síður vera meginregla að unnið sé samkv. tilboði á grundvelli útboðs.

Ég held að reynslan hafi sýnt það hjá þeim opinberum stofnunum, sem haft hafa útboðsregluna sem meginreglu, en það eru fyrst og fremst stofnanir á vegum sveitarfélaga, að hún hafi reynst mjög vel og hún hafi haft það í för mér sér, að verk hafi undir mjög mörgum kringumstæðum reynst mun ódýrari heldur en ef stofnanirnar ynnu þetta sjálfar. Það er ótrúlegur munur á því, hversu há tilboð berast í hin einstöku verk, bæði smá og stór, t.d. hjá Reykjavíkurborg, þar sem ég þekki vel til, eða á vegum Landsvirkjunar, þar sem ég þekki einnig til. Og það er líka ótrúlegur munur á því, hversu tilboð eru oft lægri heldur en kostnaðaráætlanir viðkomandi stofnana, sem teknar eru til viðmiðunar þegar verið er að fjalla um tilboðin. Ástæðan er sú, að það stendur misjafnlega á hjá fyrirtækjum. Fyrirtæki geta tekið að sér verk með ódýrari hætti, t.d. þegar verkefnaskortur er hjá þeim, þau eiga vélar, sem eru afskrifaðar að meira eða minna leyti, og þar fram eftir götunum og geta því tekið að sér verk fyrir mun lægri verð en áætlanir segja fyrir um, — þær áætlanir sem viðkomandi ríkisstofnanir þá væntanlega vinna eftir.

Því hefur verið haldið fram, að erfitt sé að beita útboðsreglunni t.d. úti á landi þar sem verk eru fyrst og fremst unnin af heimamönnum, og hætta sé á að það séu þá fyrst og fremst fyrirtæki í Reykjavík sem gleypi þann markað og bægi þá heimamönnum frá þessum verkum. Ég held að þetta sé mikill misskilningur. Það er hægt að haga útboðum þannig, að verk, t.d. við vegagerð, séu tekin í hæfilegum áföngum, þannig að heimamenn eigi auðvelt með að nýta þær vélar og tæki, sem þeir eiga, til þess að taka þátt í slíkum útboðum. A.m.k. hefur reynslan verið sú t.d. á Suðurlandi í sambandi við virkjunarframkvæmdir, að útboðin hafa einmitt örvað fyrirtæki, sem starfa í Rangárvallasýslu t.d., til þess að taka þátt í tilboðum og örvað menn til að stofna slík fyrirtæki.

Þess vegna teljum við, sem flytjum þetta frv., að það eigi að snúa við af þeirri braut, sem hefur verið meginreglan undanfarin ár, að ríkisfyrirtæki framkvæmi sjálf sín verk, og að taka eigi upp útboð í mun ríkari mæli en gert hefur verið hingað til.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn.