17.12.1980
Efri deild: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1580 í B-deild Alþingistíðinda. (1674)

150. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. iðnn. fyrir afgreiðslu hennar á þessu máli og stuðning við þetta frv.

Ég vil víkja að því sem kom fram í máli frsm. n. í sambandi við fjárhagsvanda Rafveitu Siglufjarðar sem oft hefur borið á góma á liðinni tíð eða a.m.k. nokkrum sinnum í sambandi við umr. um framlengingu verðjöfnunargjalds af raforku.

Á síðasta ári gerði ég grein fyrir því við umr. málsins hér í hv. deild, að iðnrn. væri reiðubúið að aðstoða aðstandendur Rafveitu Siglufjarðar við að greina þann fjárhagsvanda sem hún taldi sig vera í, og teita leiða til þess að komast fram úr honum. Þetta tilboð hefur verið ítrekað nýlega af minni hálfu við talsmenn rafveitunnar. Ástæðan fyrir því, að þetta mál er ekki lengra á veg komið en raun ber vitni, er kannske öðru fremur sú, að forsvarsmenn rafveitunnar hafa þurft tíma til að átta sig á vandamálum hennar og hafa ekki leitað til rn. fyrr en nú nýlega með áætlanir sínar fram í tímann, rekstrar- og greiðsluáætlun rafveitunnar fyrir yfirstandandi ár og áætlanir fram til ársins 1983, sem vissulega sýna að um verulegan vanda er að ræða varðandi rekstur og greiðslu skulda sem hvíla á fyrirtækinu og nauðsynlegt er að finna leiðir til að bæta úr þannig að fyrirtækið fái staðist með þokkalegum hætti. Hér er, að því er okkur virðist, fyrst og fremst um tímabundinn vanda að ræða varðandi næstu ár, en von til þess, að fyrirtækið, sem nú er komið í tengsl við samveitukerfi landsins með tengingu sem fór fram á liðnu ári, geti búið, þegar fram líða stundir, við þokkalegan hag.

Það hafa farið fram fundir með embættismönnum í iðnrn. ásamt stjórnarmönnum rafveitunnar og rafveitustjóranum til að átta sig á þessum vanda, og ég hef setið fund með þm. kjördæmisins þar sem hæstv. fjmrh. var einnig viðstaddur. Ég vænti þess, að innan ekki langs tíma takist að finna leiðir til að létta á rekstrarvandanum og sjá fram úr greiðslufjárvanda hjá fyrirtækinu þannig að viðunandi megi teljast. Það er í rauninni þetta sem heitið var í fyrra að gert yrði og beðið var eftir því að rafveitan legði fram sínar áætlanir og yfirlit um sína fjárhagsstöðu.

Ástæðan fyrir því, að ég hef ekki treyst mér til að mæla með því í sambandi við verðjöfnunargjald af raforku að Rafveita Siglufjarðar nyti tekna af því gjaldi og yrði leyst undan greiðslu þess, er fyrst og fremst sú, að rafveitan hefur verið með hliðstæðan taxta varðandi heimilisnot af raforku við þær rafveitur sveitarfélaga sem best standa eða lægsta gjaldskrá hafa og þá sérstaklega miðað við Rafmagnsveitu Reykjavíkur. En ég vænti þess sem sagt, að það megi finna leiðir út úr þessum fjárhagsvanda veitunnar með sameiginlegum aðgerðum og aðstoð af hálfu iðnrn, og fjmrn. í samvinnu við Rafveitu Siglufjarðar.

Svo vænti ég að þetta mál fái greiðan gang í gegnum hv. þd. þannig að það megi komast til Nd. og hljóta afgreiðslu í tæka tíð fyrir jólaleyfi þingsins.