17.12.1980
Efri deild: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1581 í B-deild Alþingistíðinda. (1676)

150. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hv. iðnn. fyrir að hafa tekið málefni Rafveitu Siglufjarðar til vinsamlegrar og rækilegrar athugunar og mætt með því, að úrbætur yrðu gerðar á þeim mikla vanda sem þar er við að etja. Á sama hátt vil ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir undirtektir hans við það mál. Mér er kunnugt um að hann greinir rétt frá því, að þessi vandi hefur verið til athugunar síðustu dagana enn einu sinni og þá kannske rækilegar en áður og hafa upplýsingar raunar verið að berast okkur alveg fram á þennan dag. Meira að segja fékk ég núna nýtt skjal, sem sendimenn frá Siglufirði hafa verið að vinna að ásamt embættismönnum hér, en ekki hefur verið kynnt áður, og ætla kannske að fá leyfi til að gera örlítið grein fyrir því.

Ég skildi hv. frsm. svo, að jafnvel væri von á að fá inn hæstv. fjmrh. einnig til að gefa einhvers konar yfirlýsingu. Hann mun koma hér og það er ánægjulegt. Skal ég ekki á þessu stigi gera því skóna, að þá komi ekki slíkar yfirlýsingar að unnt sé við að una. En það verður að segja þá sögu eins og hún er, og raunar kom það fram hjá hæstv. iðnrh., að málið hefur verið rætt hér ár eftir ár án mikils árangurs. Ég er hér með bunka, ljósritaðan úr Alþingistíðindum, þar sem framsögumenn nefnda og ráðherrar gefa yfirlýsingar í þá átt, að við þessum vanda verði brugðið. Samt sem áður hefur nú svo farið, að stöðugt hefur sigið á ógæfuhliðina. Ég ætla ekki að vera með neinar ásakanir í garð eins eða neins. Það er sjálfsagt að einhverju leyti svo, að ekki hefur verið nægilega þrýst á málið á milli þinga og milli þess sem það kemur til umræðu hér í þinginu.

Það væri kannske eðlilegt, herra forseti, að doka við eitt augnablik. (Forseti: Já, ég mun verða við því að fá að fresta fundi þar til að ráðherrarnir gætu komið hér og verið báðir viðstaddir.) — (Fundarhlé.] Herra forseti. Ég var þar kominn máli mínu að rekja nokkuð sögu og gang málsins, sem menn nú þekkja hér, og skal ekki fara langt út í þá sálma. En þar sem hæstv. fjmrh. er nú einnig kominn hingað held ég að ég láti máli mínu bráðum lokið að þessu sinni og fæ þá kannske tækifæri til að tala á eftir.

En ég var að upplýsa að það væru alltaf að berast nýjar upplýsingar um Rafveitu Siglufjarðar. Við vitum hve erfiður hagur rafveitunnar er, þar sem um 800 millj. kr. vantar nú á næstu árum til að standa undir þeim greiðslum sem fyrirtækinu ber að inna af hendi, en það stafar auðvitað af því að lánin til hinnar nýju virkjunar voru til mjög skamms tíma verðtryggð og gengistryggð og útilokað annað en þar verði að koma einhver aðstoð. Vænti ég þess, að hæstv. fjmrh. muni greina okkur frá í hverju þær ráðstafanir verði fólgnar, og vonast til, að hans afstaða verði ekki síður jákvæð en hæstv. iðnrh.

En það er komið enn eitt nýtt gagn í þessu máli sem ég því miður hef ekki komið til hæstv. ráðh eða annarra. Ég fékk það ekki fyrr en nú í dag og hefði auðvitað átt að reyna að láta ljósrita það, en þeir hafa verið mjög önnum kafnir og við allir hér.

Það er athyglisvert að meginröksemdin, sem hefur verið beitt gegn því að Rafveita Siglufjarðar fengi hlutdeild í raforkugjaldinu, er sú, enda kom það fram hjá hæstv. iðnrh. áðan, að taxtar Rafveitu Siglufjarðar væru svo lágir að það væri ekki sanngjarnt að hún fengi þetta gjald. En nú hefur verið gerður á þessu nákvæmur útreikningur, og þá kemur á daginn að tekjur samkvæmt gjaldskrá Rafveitu Siglufjarðar, og þetta hefur verið miðað núna við 10. nóv. 1980, mundu verða 459 millj., en miðað við gjaldskrá RARIK eins og hún er núna yrðu þær 463 millj. Þarna munar sem sagt einungis 1% á heildartekjum samkvæmt gildandi gjaldskrá Siglufjarðar og gjaldskrá Rafmagnsveitna ríkisins. Þetta skilst mér að sé unnið í samráði við forsvarsmenn RARIK. Þess vegna er þessi röksemd algjörlega fallin um sjálfa sig og er sem sagt um sama gjald að ræða í heild hjá Siglfirðingum og hjá Rafmagnsveitum ríkisins.

Ég skal játa að mér var þetta ekki ljóst fyrr en ég fékk þetta blað í hendur áðan, sem er að sumu leyti handskrifað þar sem allt hefur verið unnið með miklum hraða, og ég álasa sannarlega ekki öðrum fyrir að hafa ekki gert sér grein fyrir því, að þarna skuli í rauninni vera um sömu gjaldtöku að ræða. Kannske væri eðlilegt að fresta lokaafgreiðslu þessa máls t.d. til morguns ef menn vildu líta betur á þetta. En það er alls ekki í huga mér að reyna að hindra framgang málsins eða tefja það, þó að ég hafi aldrei verið hrifinn af þeirri aðferð sem þarna er um að ræða.

Þessar nýju upplýsingar gætu vafalaust breytt eitthvað afstöðu manna og auðvitað vonast ég til þess, að einhvers konar heimildarákvæði yrði tekið upp í lögin þannig að unnt væri að láta Siglufjörð að einhverju leyti búa við sama borð og Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða. En ég geri ekki um það beina tillögu á þessu stigi a.m.k. og vil gjarnan fá að heyra þá yfirlýsingu sem mér skilst að hæstv. fjmrh. hyggist gefa hér áður en lengra er haldið.