17.12.1980
Efri deild: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1584 í B-deild Alþingistíðinda. (1678)

150. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka þá yfirlýsingu sem hæstv. fjmrh. gaf í lok máls síns, sem mér sýnist vera mjög eðlileg og mundi gjarnan geta sætt mig við eins og málum er háttað. Engu að síður hefur bæði hans málflutningur og minn og okkar allra meira og minna byggst á því, að við teldum að raforkuverð til neytenda á Siglufirði væri lægra en til Rafmagnsveitna ríkisins. Nú liggja fyrir um það upplýsingar, að þetta er allt saman mjög sambærilegt. Ég vil fyrir mitt leyti gjarnan taka þátt í því að afgreiða þetta mál til 3. umr. Ég held að það væri happadrýgst og skemmtilegast fyrir alla ef 3. umr. yrði frestað til morguns, þannig að sérfræðingum viðkomandi hæstv. ráðh. gæfist tækifæri til að skoða þetta og vita hvort menn teldu með hliðsjón af því eðlilegt að gera einhverjar breytingar, ef forseta sýnist það eðlileg vinnubrögð að leita ekki afbrigða fyrir 3. umr. nú í kvöld. Mun ég fyrir mitt leyti auðvitað gera allt til að greiða fyrir framgangi málsins og hraða störfum hér í deildinni, eins og ég hygg að menn geti fallist á að bæði ég og aðrir sjálfstæðismenn hafi fram að þessu gert þó að við séum í stjórnarandstöðu.

En ég endurtek þakkir fyrir yfirlýsingar ráðh. beggja og eins afstöðu nefndarinnar. Þetta mál er svo margrætt hér að það er öllum ljóst, að það er þingvilji fyrir því að leysa þennan brýna vanda. A.m.k. hygg ég að í þessari hv. deild sé enginn maður sem ekki leggur það til og mælir með því. Þess vegna vita hæstv. ráðh. að þeir hafa veganesti frá Alþingi til þess að ráða fram úr þessum vanda. En ég endurtek ósk mína um að endanleg afgreiðsla málsins frestist til morguns, enda á það ekki að þurfa að tefja framganginn.