17.12.1980
Efri deild: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1584 í B-deild Alþingistíðinda. (1679)

150. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr., er ekki ókunnugt í þingsölum. Ég held að þetta verðjöfnunargjald hafi verið fyrst sett á árið 1965. Ég er því sammála að ná sem mestum jöfnuði í orkuverðinu. Að því ber vissulega að vinna.

Með þessu frv. er sem áður gert ráð fyrir prósentugjaldi af raforkuverðinu, sem ég dreg í efa að sé mjög skynsamleg leið að annars ágætu marki, en þannig hefur það þó ætíð verið frá árinu 1974. Í aths. við þetta lagafrv. segir m.a.:

„Frv. þetta felur í sér framlengingu um eitt ár á gildistíma laga um verðjöfnunargjald af raforku, en þó er ráðh. heimilt að lækka gjaldið úr 19% í 16% um mitt næsta ár. Gjaldinu er skipt á sama hátt og ákveðið var í lögum nr. 6/1979 milli Rafmagnsveitna ríkisins, sem fá 80%, og Orkubús Vestfjarða, sem fær 20%.“ Gjaldið er nauðsynlegt til þess að hamla gegn mismunun á raforkuverði í landinu, sem bitnar mest á viðskiptavinum Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða.“

Þegar frv. um verðjöfnun á raforku var hér til umr. í þessari hv. deild fyrir réttu einu ári kom fram mjög ákveðinn vilji þeirra, er ræddu þetta frv. þá, um aðstoð við Rafveitu Siglufjarðar. Þeir þm., sem ræddu þetta mál í þessari ágætu deild þá, voru þó á því, að Rafveita Siglufjarðar gæti ekki fallið undir það sama og t.d. Orkubú Vestfjarða og notið verðjöfnunargjaldsins, því yrði að leysa fjárhagsvandann eftir öðrum leiðum.

Því miður hefur ekkert þokast í þessu máli þar til þá helst nú. Og ég vil þakka hæstv. iðnrh. og fjmrh. þau ummæli sem þeir hafa látið falla hér um að vinna verði að lausn þessa vanda Rafveitu Siglufjarðar. Ég vil leggja áherslu á að Siglfirðingar hafa byggt sitt orkuver sjálfir og eru ekki aðeins með dreifiveitu, heldur eiga þeir einnig og reka orkuöflunarveitu sem selur orku ekki aðeins til Siglfirðinga, heldur einnig í Fljót og til Ólafsfjarðar. Forsvarsmenn Rafveitu Siglufjarðar hafa verið hér að undanförnu og talað fyrir máli sínu og ég hef átt þess kost að fylgjast nokkuð með þeim umr. Í þeirri trú að fjárhagsvandi Rafveitu Siglufjarðar verði nú tekinn til meðferðar í viðkomandi rn. og viðunandi lausn fundin, skrifaði ég undir nál. án aths. og greiði því þessu frv. atkvæði mitt nú.